11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3358 í B-deild Alþingistíðinda. (2897)

232. mál, kaupstaðarréttindi til handa Dalvíkurkauptúni

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á árinu 1968 varð sýslumaður Eyfirðinga við beiðni hreppsnefndar Dalvíkurhrepps um að hafa fulltrúa sinn til viðtals nokkra tíma á viku úti á Dalvík, til þess að þeir Dalvíkingar, sem ættu erindi við embættið, þyrftu ekki að fara til Akureyrar. Þessi nýbreytni var ákaflega vinsæl á Dalvík og var töluvert mikið notuð á þessu ári. Það kom í ljós, að við þetta var nokkur kostnaður. Fulltrúarnir höfðu t.d. engan bílastyrk og vildu því ekki fara á eigin bílum, en munu hafa tekið leigubíla, og af þessum ástæðum mun sýslumaður hafa hætt þessari starfsemi.

Það, sem gerist næst í þessu máli, mun hafa verið árið 1970, að hreppsnefnd Dalvíkurhrepps skrifar dómsmrn. bréf og óskar eftir því, að á Dalvík verði staðsettur einn dómarafulltrúi frá embættinu á Akureyri. Ég held, að ég fari rétt með, að þessu bréfi hafi aldrei verið svarað frá hendi rn. Það sem næst gerist í þessu máli, er, að á síðasta hausti fengu þm. Norðurl. e. bréf frá sveitarstjóranum á Dalvik, þar sem hann fer fram á það samkvæmt samþykkt hreppsn. Dalvíkurhrepps, að allir þm. Norðurl. e. flytji á því þingi, sem nú situr, frv. til laga um kaupstaðarréttindi fyrir Dalvíkurhrepp, sem taki gildi 1. jan. 1974. Sérstök áherzla sé lögð á, að þar verði stofnsett fullgilt embætti bæjarfógeta með lögsögu fyrir bæjarfélagið a.m.k. Síðan þetta bréf var skrifað, hefur hreppsn. gert fleiri samþykktir til þess að reyna að ýta á, að þetta mál nái fram að ganga.

Frv. þetta er flutt af öllum þeim þm. Norðurl. e., sem eiga sæti hér í hv. d. og efni frv. er eingöngu það, að Dalvíkurkauptún skuli vera sérstakur kaupstaður og sérstakt lögsagnarumdæmi, og ætla ég ekki að rekja gr. frv. Það er bara það form, sem á því þarf að vera til þess að ná þessu markmiði.

Beiðni hreppsn. Dalvíkurhrepps fylgdi svo hljóðandi grg., með leyfi forseta:

„Samþykkt hreppsnefndar Dalvikurhrepps frá 26. september 1972 um kaupstaðarréttindi fyrir Dalvíkurkauptún, sem hér fylgir með, á sér langan aðdraganda og hafa verið gerðar um það fjölmargar fundarsamþykktir á liðnum árum. Meginforsendur þeirra óska, sem fram koma í samþykktinni, eru: 1) Að fá inn í kauptúnið, íbúum þess til hægðarauka, alla þá þjónustu, sem bæjarfógetar veita. 2) Að skapa Dalvíkurhreppi þá réttarstöðu, sem kaupstaðir hafa. 3) Að losa Dalvíkurhrepp úr tengslum við Eyjafjarðarsýslu, þar sem áhrif hreppsins á stjórn málefna sýslunnar miðast við 1 fulltrúa af 12, en hluti hreppsins af gjöldum til sýslunnar nemur 1972 28,1%.

Af þeirri þjónustu, sem um ræðir í 1. lið, má nefna innheimtu tekna ríkissjóðs, stjórn lögreglumála, varðveizlu veðmálabóka, skrásetningu bifreiða, útgáfu ökuskírteina, umboð Tryggingastofnunar ríkisins og sýslusamlög. Enn fremur má benda á, að sífellt er verið með lagasetningu að gera greinarmun á sveitarfélögum eftir réttarstöðu þeirra. Má nefna t.d. lög um sjúkrasamlög, nr. 67 frá 1971, þar sem segir orðrétt í 37. gr.: „Í hverjum kaupstað og hverri sýslu skal vera sjúkrasamlag“ o.s.frv. Orsakir þessa verða t.d. tvö sjúkrasamlög á Húsavík, Akureyri, Sauðárkróki, en fjölmennt læknishérað eins og Dalvíkurlæknishérað verður án þjónustu sjúkrasamlags.

Varðandi 2. lið er bent á, að hver kaupstaður er sjálfstætt lögsagnarumdæmi, þar sem hins vegar hreppur er hluti af lögsagnarumdæmi sýslu. Bæjarfógeti fer með lögsögu í kaupstað og hefur þar aðsetur, en sýslumaður í hreppi þarf ekki að vera þar búsettur. Kaupstaðir lúta beint yfirstjórn félmrn., sem fer með sveitarstjórnarmálefni, en eiga enga aðild að sýslufélögum samkvæmt lögum.“

Ég læt nægja þennan lestur upp úr grg. Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. .og allshn.