11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3383 í B-deild Alþingistíðinda. (2924)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Við fjöllum hér um einn þátt skattal. Það er sá þáttur, sem snýr að hinum öldruðu og þeim, sem hafa orðið fyrir því bláni að verða öryrkar. Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkra grein fyrir því, með hvaða hætti núv. þingmeirihl. undir forustu hæstv. ríkisstj. hefði unnið að þessum málum á s.l. þingi og hverjar niðurstöður urðu af þeim verkum. Og gerði grein fyrir þeirri gagnrýni, sem fram kom á s.l. þingi varðandi starfsaðferðir, svo og þau grundvallarsjónarmið, sem urðu undirstaða þeirra brtt., sem hæstv. ríkisstj. hugðist beita sér fyrir á skattalöggjöfinni frá 1971. Það kom glögglega fram í þeirri gagnrýni, að þessar breytingar mundu verða til þess að gera stöðu atvinnuveganna lakari, sérstaklega iðnaðarins, vegna inngöngu Íslands í Fríverzlunarbandalag Evrópu, svo og vegna væntanlegra samninga, — sem nú hafa verið gerðir, — viðskiptasamninga við

Efnahagsbandalag Evrópu. Þá var enn fremur bent á það, að með þeim till., sem ríkisstj. lagði fram, væri mjög íþyngt skattbyrði einstaklinga, og voru í ræðum tekin dæmi, sem sýndu, með hvaða hætti þessum málum mundi lykta, ef þær till. yrðu samþ., sem þá lágu fyrir. Þá var sérstaklega vikið að þeim þætti skattalaganna, sem hér er til umr., þ.e.a.s. hver yrði hlutur aldraðra og öryrkja, ef þær till., sem lagðar voru fram, næðu fram að ganga. Ég skal ekki fjölyrða um þessa gagnrýni meir, heldur minnast á það, hvernig staðreyndirnar sýndu, að sú gagnrýni, sem hér var höfð í frammi, var á rökum reist.

Tekju- og eignarskattur af tekjum 1971 varð 4449 millj. í stað þess, að af tekjunum 1970 var tekju- og eignarskattur 1525 millj. Þessu mun e.t.v. einhver svara og segja: Tekjurnar voru miklu hærri. Og það er rétt, þær voru hærri. En þær voru ekki svo miklu hærri, að það réttlætti þá aukningu, sem hér er um að ræða, því að í skýrslu, sem ég fékk frá Framkvæmdastofnun ríkisins, hagrannsóknadeild, sem við birtum með áliti okkar fulltrúa Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. kemur fram, að álagðir skattar af tekjum 1971 voru 20,1%, en höfðu verið af tekjum 1970 18,1%.

Þetta sýnir, að það, sem sagt var hér, var rétt. Hér var um gífurlega mikla aukningu á skattinnheimtu ríkissjóðs að ræða. Hér var um að ræða íþyngingu á skattbyrðinni hjá skattborgurunum.

En hverjar voru niðurstöðurnar varðandi þá öldruðu og öryrkja? Í útreikningi, sem Styrktarfélag aldraðra í Hafnarfirði lét gera, kom í ljós, að skattbyrði hinna öldruðu jókst um hvorki meira né minna en 108,3%, rúmlega tvöfaldaðist. Ef borinn var saman tekjuskattur greiddur 1971, af tekjum ársins 1970, og svo 1972, þá sýndu dæmin varðandi þá öldruðu í Hafnarfirði, að 1971 var tekjuskatturinn 3 millj. 386 þús., en árið 1972 10 millj. 369 þús. Samtals voru þau gjöld, sem öldruðum var þar gert að greiða 1971, 8 millj. og 800 þús., en 1972 18 millj. 331 þús. Hér var um að ræða hækkun, sem nam 9 millj. 530 þús. eða 108,3%.

Þau dæmi, sem ég hef hér rakið, eru til áréttingar því, sem við stj.andstæðingar héldum fram við umr. á s.l. þingi, og sýna að sú gagnrýni, sem þar var höfð uppi, átti við rök að styðjast. Við ræðum hér sérstaklega um skattlagningu aldraðra og öryrkja. Á undanförnum árum hafa verið uppi um það till., að öldruðum yrði veittur sérstakur skattfrádráttur. Þá greiddu skattþegnar til almannatrygginga ákveðið iðgjald, sem þeir fengu skattfrjálst. Það var með skattal. frá 1971, sem samþ. var í þessari hv. d., við 3. umr. málsins þá, að í frv., sem þá var til umr. skyldi tekið upp ákvæði þess efnis, að öldruðum og öryrkjum skyldi veittur sérstakur frádráttur, sem væri 2/5 hlutar af persónu frádrætti, eins og hann væri á hverjum tíma. Hér var um að ræða aukafrádrátt til handa þeim, sem fengu greiðslur frá almannatryggingum, öldruðum og öryrkjum. Till. hér að lútandi höfðu verið uppi á Alþ., ekki hvað sízt frá stjórnarandstæðingum, þeim aðilum, sem nú fylla hóp stjórnarsinna. Þetta ákvæði kom því miður aldrei til framkvæmda, þrátt fyrir samþykkt þess vorið 1971 voru á s.l. þingi till. frá hæstv. ríkisstj., að þessi frádráttur skyldi niður felldur, og ríkisstj. fékk sér til fulltingis m.a. þá hv. þm., sem höfðu í þessari d. áður barizt fyrir því, að þetta ákvæði kæmist inn í skattalög, og var ákvæðið fellt niður. Það var hins vegar ljóst, þegar álagningu var lokið á s.l. ári, hversu gífurlega hlutur þeirra öldruðu hafði breytizt til hins verra. Þá voru ýmsir til að mótmæla og þ.á.m. miðstjórn Sjálfstfl., og er samþykkt miðstjórnarinnar birt með nál. okkar sjálfstæðismanna í fjh.- og viðskn. sem fylgiskjal. Í ályktun miðstjórnar Sjálfstfl. var skorað á ríkisstj., að hún þá þegar gerði ráðstafanir til þess að bæta hlut aldraðra og öryrkja. Þá var það, að ríkisstj. gaf út brbl. til þess að bæta um verk sín frá fyrra þingi og er frv. til staðfestingu á þeim brbl. hér til umr. Þegar til þings kom, ákvað þingflokkur Sjálfstfl. að bera fram brtt. við þetta frv., og fluttum við fulltrúar flokksins í fjh.- og viðskn, þá brtt., sem er á þskj. 84. Við litum svo á, að þau brbl., sem ríkisstj. hafði sett, gengju ekki nægjanlega langt, og í öðru lagi var skattþegnum þar mismunað eftir því, hvaða tekjur þeir höfðu. Till. okkar fulltrúa Sjálfstfl. í n. gekk hins vegar út á það, að öldruðum og öryrkjum skyldi veittur sérstakur frádráttur, sem næmi þeim upphæðum, sem þeir fengju greiddar frá almannatryggingum samkv. ákvæði í 11. gr. almannatryggingalaga frá 1971. Hér er um að ræða breytta till. frá því, sem var í lögum 1971, og er til samræmis þeim breytingum, sem gerðar höfðu verið á lögum um almannatryggingar. Þar til á síðasta þingi giltu þær reglur í sambandi við almannatryggingar, að iðgjöld einstaklinga til þeirra voru skattfrjáls. En á síðasta þingi er því breytt og skattþegn ekki lengur látinn greiða iðgjöld til almannatrygginganna. Hins vegar er allt það, sem til almannatrygginga gengur, tekið af skattgreiðslum borgaranna. Ef það sjónarmið, sem nú er lögfest í skattalögunum og ætlað er að viðhalda í sambandi við þá breytingu, sem ríkisstj. hér beitir sér fyrir, þá er um að ræða raunverulega tvísköttun hjá þeim aðilum, sem taka greiðslur frá almannatryggingum. Á tímabilinu frá 16 ára aldri til 67 ára aldurs greiða þessir aðilar skatta sína til ríkissjóðs, ríkissjóður greiðir til almannatrygginga. Þegar svo einstaklingurinn er orðinn 67 ára og tekur greiðslur frá almannatryggingum, þá er hann aftur látinn greiða af þeim skatt. Þess vegna sýnist okkur sjálfstæðismönnum eðlilegast, að það ákvæði verði tekið inn í skattalögin, að greiðslur til aldraðra og öryrkja frá almannatryggingunum samkv. fyrrnefndu ákvæði verði skattfrjálsar.

Ef við skoðum þetta mál örlítið betur ofan í kjölinn og lítum á það frá því sjónarmiði, að meðalaldur Íslendinga í dag er talinn 73½ ár rúmlega, þá kemur dæmið þannig út, að skattþegn, sem greitt hefur til ríkisins í hálfa öld, fær þær greiðslur, sem ríkið sér honum fyrir frá almannatryggingum, frá því hann er 67 ára og þar til hann er rúmlega 73 ára, skattfrjálsar. Hann fær m. ö. o. það, sem hann hefur greitt til almannatrygginga í 50 ár skattfrjálst í rúm 6 ár. Ég held í raun og sannleika, þegar menn skoða þetta ofan í kjölinn, miðað við þá skipulagsbreytingu, sem gerð er á almannatryggingalögunum, að hér sé ekki um ósanngjarna till. að ræða.

Ég hef ekki hér á reiðum höndum, hvað þetta gæti þýtt fyrir ríkissjóð, það hefur aldrei verið reiknað út. Það var ekki reiknað út 1971. Það var ekki heldur reiknað út við útgáfu brbl. Og ég held, að það sé mjög erfitt að reikna þetta út. Hins vegar ef það gæti orðið þessari till. til framgangs, væri ég fús til þess, ef hæstv. fjmrh. vildi beita sér fyrir því, að koma með það lagaákvæði, að þetta tæki ekki gildi fyrr en 1974, ef hann teldi, að þetta raskaði fjárlögum 1973, þ.e.a.s. tekjum ríkissjóðs á því ári. Ég held, að það væri mjög til þess vinnandi til að ná þessu ákvæði inn í skattalögin, að frestað væri gildistöku ákvæðisins um eitt ár, þannig að við fjárlög 1974 væri þetta tekið með í reikninginn.

Eins og fram kemur í nál. okkar fulltrúa Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn., munum við, ef svo fer, að till. okkar verður felld, styðja frv. Við gerum okkur grein fyrir því, að þær tölur, sem í frv. eru, standast ekki miðað við aðrar tölur og þá miklu dýrtíð, sem er og hefur aukizt mjög, síðan þessi brbl. voru gefin út. Við munum því við 3. umr., ef svo fer, að þessi till. verður ekki samþ., beita okkur fyrir brtt. í þeim efnum, þannig að betur verði séð fyrir þeim öldruðu en þetta frv. gerir ráð fyrir. Það kom líka fram í ræðu hv. b. þm. Austf., form. fjh.- og viðskn., að hann sem formaður og meiri hl. ásamt honum mun taka málið til athugunar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera frekari grein fyrir þessu máli. Ég vonast til þess, að ég hafi gert hér grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem eru grundvöllur þeirrar till., sem við flytjum á þskj. 84, og ég vonast til þess, að hv. þm. geri sér grein fyrir því, að það er ekki óeðlilegt, eftir að skattþegn hefur greitt til ríkissjóðs í hálfa öld og hann á rétt á umbun frá samfélaginu í gegnum Tryggingastofnun ríkisins, að það fjármagn komi til hans óskert.

Varðandi þær brtt., sem formaður n. flytur, skal ég taka það fram, að ég er þeim samþykkur. Hann hefur gert grein fyrir þeim till. Sumar hverjar eru aðeins orðalagsbreytingar, aðrar eru um viss efnisatriði og sumar hverjar eru um atriði, sem þeir, sem fara með álagningu, fyrst og fremst ríkisskattstjóri, telja að þurfi að breyta. B-liður 1. brtt. er fluttur vegna hæstaréttardóms, þar sem það var ekki viðurkennt, að félag gæti talið til skuldar ógreiddar uppbætur eða ógreiddan afslátt af seldum vörum samkv. þeim samningum, sem það félag hafði. Mér sýnist því hér ekki um óeðlilegt ákvæði að ræða. En það kallar að sjálfsögðu á það, að þeir aðilar, sem eiga þær ógreiddu upphæðir og þann ógreidda afslátt, sem hér um ræðir, telji fram á sínu framtali til samræmis við það félag, sem mundi eftir samþykkt þessarar brtt. notfæra sér þá heimild, sem þar kemur inn.

2. og 3. brtt. eru aðeins til samræmis við endur útgáfu á skattalögunum.

A-liður 4. brtt. er að verulegu leyti orðalagsbreyting og nánast til þess að staðfesta, að mér skilst, þá framkvæmd, sem hefur verið á þessum málum hjá skattstjórum.

B-liður 4. brtt. er um samræmingu á dráttarvöxtum milli ríkissjóðs og sveitarfélaga, og sýnist eðlilegt, að þar gildi eitt og hið sama. Síðar í þeirri brtt. er farið inn á þá braut að veita fjmrh. heimild til þess að ákveða með reglugerð, hvernig „innheimta skuli fyrir fram upp í væntanleg þinggjöld yfirstandandi árs hjá hverjum gjaldanda fjárhæð,“ eins og þar segir, „er nemi ákveðnum hluta þeirra þinggjalda, sem honum ber að greiða næstliðið ár: “ Og svo koma nýmælin:

„Við ákvörðun fyrirframgreiðslunnar skal gætt þeirra tekjubreytinga, sem orðið hafa, og almenns efnahagsástands í landinu. Ráðh. er heimilt að miða fyrirframgreiðslu samkv. þessari mgr. við hlutfall af tekjum yfirstandandi árs í stað hlutfalls af gjöldum næstliðins árs, telji hann þá aðferð betur henta. Þar sem innheimta opinberra gjalda er sameiginleg, sbr. lög nr. 68/1962, skulu heimildir þessarar mgr. taka með sama hætti til innheimtu annarra gjalda en þinggjalda.“

Hér er farið inn á að innheimta þinggjöld, þ.e.a.s. gjöld til ríkissjóðs og sveitarfélaga, þar sem um er að ræða sameiginlega gjaldheimtu, samkv. hlutfalli af tekjum yfirstandandi árs. Hér er verið að nálgast staðgreiðslukerfi, og ég held, að það sé mjög skynsamlegt að taka þetta ákvæði inn og sjá, hvernig það kemur út og hvort okkur tekst ekki með þessu ákvæði og þá e.t.v. nokkrum öðrum breytingum á skattal. að gera þau þannig úr garði, að við þurfum aldrei inn í staðgreiðslukerfið að fara. Það er skoðun mín, að það sé mun skynsamlegra og það sé hægt að gera þær breytingar á skattal., sem þarf, til þess að við nálgumst svo staðgreiðslukerfið sem mögulegt er, en um það skal ég ekki fjölyrða. Ég vil hins vegar benda á það, að þetta ákvæði kallar að sjálfsögðu á breyt. á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem þeim sveitarfélögum, sem ekki hafa sameiginlega innheimtu með ríkissjóði, yrðu veittar sömu heimildir og þeim, sem hafa sameiginlega innheimtu, eru veittar. Ef það yrði ekki gert, þá gæti þetta þýtt t.d. það, að Reykjavíkurborg hefði heimild til þess að innheimta 60% af þinggjöldum næstliðins árs fyrir fram upp í þinggjöld þess árs, sem álagningin á sér stað, en sveitarfélög hér í nágrenninu, sem hafa ekki sameiginlega innheimtu með ríkissjóði, fái aðeins að innheimta 50%, eins og gert er ráð fyrir í lögunum um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem þeim sveitarfélög sem með þessi mál fara, munu athuga þetta. Hvort þessi breyt. gæti komið nú inn við umr. um frv. til l. um breyt. á tekjustofnum sveitarfélaga í Ed. það skal ég ekki um segja, en þar sem þetta ákvæði kemur ekki til með að gilda fyrr en við álagningu 1974, þá er hægt að koma þessari breytingu við á haustþinginu.

C-liður þessarar brtt. er ábendingar frá ríkisskattstjóra um viss undanþáguákvæði, sem hann telur eðlilegt og nauðsynlegt að hafa varðandi skattþegna, og sýnast þau vera þess eðlis, að sjálfsagt sé að veita þau.

N. hafði enn fremur til meðferðar brtt. á þskj. 186. Við fulltrúar minni hl. erum henni sammála. Enn fremur var tekið til athugunar frv. á þskj. 163 flutt af hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfi Jónssyni, o. fl. Eins og fram kom í ræðu form. n. og F. meiri hl., mun á milli 2. og 3. umr. verða reynt að komast að niðurstöðu um brtt. við frv., sem þá kæmi til afgreiðslu við 3. umr.

Þá hefur verið útbýtt brtt. hér frá hæstv. sjútvrh., sem mér skilst, að n. fái tækifæri til þess að athuga á milli umr., og væri þá e.t.v. ekki úr vegi, að brtt. á þskj. 186 yrði dregin til baka og n. fengi að skoða hana samtímis.

Ég sé svo ekki ástæðu, herra forseti, til að fjölyrða um þetta mál meira. Eins og ég gat um áðan, leggjum við fulltrúar Sjálfstfl. til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem við leggjum til á þskj. 84, en þar hefur orðið prentvilla, þ.e.a.s. í 1. mgr. 1. brtt., þar sem stendur: „Við 8. gr. laganna bætist ný mgr., er verði 4. mgr., svo hljóðauði“, en á að vera „5. mgr.