13.04.1973
Neðri deild: 88. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3503 í B-deild Alþingistíðinda. (3035)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur þegar hlotið afgreiðslu í hv. Ed. Meginefni frv. er það, að lagt er til að auka allverulega við tekjur fiskveiðasjóðs á tilteknu tímabili, eða nánar tiltekið á framleiðslutímabilinu frá 1. júlí á þessu ári til 31. des. á árinu 1975. Gert er ráð fyrir því, að lagt verði sérstakt 1% útflutningsgjald á verðmæti útfluttra sjávarafurða, sem framleiddar eru á þessu tímabili og jafnframt, að ríkissjóður greiði til fiskveiðasjóðs jafnháa fjárhæð á móti á þessu sama tímabili. Er áætlað, að þessi tekjustofn gefi fiskveiðasjóði á ársgrundvelli í kringum 150—160 millj. kr. af útflutningsgjaldinu og yrði þá tekjuauki hans tvöföld sú upphæð, þar sem ríkissjóður legði fram jafnhátt framlag á móti. Á þessu ári yrði auðvitað um allmiklu lægri fjárhæð að ræða, þar sem útflutningsgjaldið reiknast aðeins af þeirri framleiðslu, sem til fellur frá 1. júlí og til áramóta. Framlag ríkissjóðs á þessu ári mundi koma til greiðslu til sjóðsins að langmestu leyti á næsta ári, þó að það væri út á framleiðslu þessa árs, þar sem innheimtan á gjaldinu fer fram með þeim hætti.

Ástæðurnar fyrir því, að farið er fram á þennan tekjuauka til fiskveiðasjóðs, eru í aðalatriðum þær, að verkefni fiskveiðasjóðs hafa farið mjög vaxandi. Lán hans í sambandi við endurnýjun skipaflotans hafa aukizt til mikilla muna, og auk þess koma stórhækkandi lán til fiskvinnslustöðva, alveg sérstaklega til frystihúsanna í landinu, þar sem nú stendur fyrir dyrum að byggja upp að nýju nokkur frystihús og endurnýja svo að segja öll húsin að talsverðu leyti. Þessi stóru verkefni hvíla að sjálfsögðu þungt á fiskveiðasjóði. Þá er einnig þess að geta, að það hvílir einnig mjög þungt á fiskveiðasjóði, að nú er farið að smíða miklum mun meira af skipum í landinu en áður var, en það eru einmitt þessar innlendu skipasmiðar, sem kalla á stóraukin lán úr fiskveiðasjóði. Sá háttur hefur verið hafður á í sambandi við öll hin stærri fiskiskip um langan tíma, að þau hafa mestmegnis verið keypt erlendis frá og hafa þá fylgt skipunum allveruleg erlend lán, sem fiskveiðasjóður hefur að vísu þurft að taka við og lengja, en það hefur verið sjóðnum miklu léttbærara en að lána beinlínis til innanlandssmíðarinnar.

Í stórum dráttum er fjárhag fiskveiðasjóðs þannig háttað, að áætlun hefur verið gerð um það, að á þessu ári þyrfti sjóðurinn að geta lánað í kringum 1730 millj. kr. Sá fjárhæð skiptist í aðalatriðum þannig, að gert er ráð fyrir því, að sjóðurinn láni til skipakaupa erlendis um 265 millj. kr., til endurbygginga innanlands og tækjakaupa um 230 millj. kr., til vinnslustöðva, aðallega frystihúsa, í kringum 500 millj. kr. og til innlendrar skipasmíði 700 millj. kr., og eru þá þegar taldar um 1700 millj. kr. Það hefur verið gengið út frá því, að sjóðurinn gæti a.m.k. lánað á árinu í kringum 1600 millj. kr., eða sem sagt nokkru lægri fjárhæð en þessi áætlun gerir ráð fyrir. Þá er talið, að fiskveiðasjóður hafi sjálfur yfir að ráða um 580 millj. kr. og þó ekki nema um 380 millj. kr., ef hann greiðir að fullu skuldir sínar, yfirdráttarskuldir, sem sjóðurinn á við Seðlabankann. En jafnvel þótt hann greiddi þær ekki að fullu, er augljóst, að sjóðinn vantar eitthvað yfir 1000 millj. kr. að láni, til þess að hann geti á þessu ári staðið við jafnmikil útlán og hér er gert ráð fyrir. Það hefur verið gert ráð fyrir því, að Framkvæmdasjóður Íslands lánaði Fiskveiðasjóði Íslands á þessu ári þessa fjárhæð og þannig væri starfsemi sjóðsins tryggð á árinu. Það er hins vegar svo, að þó að fiskveiðasjóður sé út af fyrir sig öflugur sjóður, einn af öflugustu lánasjóðum í landinu, — það er talið, að hann eigi rúmlega 1700 millj. kr. í eigin fé í útlánum, fer eigið fé sjóðsins sífellt lækkandi hlutfallslega af heildarútlánum sjóðsins, bæði vegna þess, að sjóðurinn hefur tiltölulega litla tekjustofna, eins og nú er komið, og eins vegna hins, að útlánin aukast svo mikið frá því, sem áður var. Það er því brýn þörf á því að auka við tekjur sjóðsins og að því stefnir það frv., sem hér liggur fyrir. Til þess að fiskveiðasjóður geti veitt útvegsmönnum jafnhagstæð lán og hann hefur sett sér að gera, verður sjóðurinn í sjálfu sér að hafa allmiklar tekjur, ef ekki á að ganga á meginstofninn í fjármunum sjóðsins.

Það er enginn vafi á því, að fiskveiðasjóður gæti komizt af, án þess að þessara nýju tekna væri aflað, en þá kæmi það aðeins fram í því, að sjóðurinn þyrfti að taka enn þá meira af erlendum lánum og framlána þau til þeirra, sem eru að kaupa ný skip, eða þeirra, sem eru að byggja nýjar fiskvinnslustöðvar eða endurnýja fiskvinnslustöðvar. Erlendum lánum fylgir að sjálfsögðu gengisáhætta, því að fiskveiðasjóður hefur veitt sín lán þannig um langan tíma, að hann hefur yfirleitt endurlánað með sams konar lánakjörum og hann hefur þurft að taka lán sín með.

Annan kost á fiskveiðasjóður einnig, en það er að taka eitthvað af innlendum lánum og framlána þau, en þá eru þau yfirleitt vísitölubundin, og mundi hvíla þungt á lántakendum að taka mikið af slíkum lánum.

Það er rétt, að það gjald, sem hér er gengið út frá að leggja á, mundi verða bein skattlagning á útgerðina í landinu, jafnt fiskiskipareksturinn sem fiskvinnsluna í landinu, og einnig á sjómenn. En þó eru allar líkur til þess, að þetta mundi ekki hvíla á þessum aðilum í beinu formi, eins og nú er háttað, vegna þess að verð á útflutningsafurðum sjávarútvegsins hefur hækkað mikið að undanförnu. Að óbreyttum öllum reglum, mundi verulegur hluti af hinu hækkaða útflutningsverði renna í verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og þannig ekki koma fram í hækkuðu fiskverði eða auknum launakjörum sjómanna. Hér er því að talsverðu leyti um það að ræða, að greiðslur til verðjöfnunarsjóðs yrðu nokkru minni en ella, en hins vegar greiðslurnar til fiskveiðasjóðs meiri.

Það leikur enginn vafi á því, að öflugur fiskveiðasjóður, sem getur gert kleift að endurnýja fiskiskipaflotann, hefur mikið gildi einnig fyrir afkomu sjómanna. Það er enginn vafi á því, að ný skip, oft og tíðum stærri skip og betur útbúin, veita sjómönnum meiri tekjumöguleika og aukið öryggi frá því, sem áður var. Því er það, að þessi mál snerta hagsmuni sjómannanna einnig á óbeinan hátt. Hitt gefur svo einnig auga leið, að hér er um beint hagsmunamál útgerðarinnar í landinu að ræða í sambandi við lánveitingar fiskveiðasjóðs.

Það hafa komið fram í sambandi við þetta frv. athugasemdir við það frá samtökum sjómanna og samtökum útgerðarmanna. Þær athugasemdir eru ofurskiljanlegar. Þessir aðilar vilja hafa allan fyrirvara á um það, að þeir haldi sínu launahlutfalli á við aðra og afkomu, þannig, að hún verði að teljast eðlileg. En ég hygg, að þessir aðilar hafi þegar gert sér grein fyrir því, að hér er einnig um mikið nauðsynjamál fyrir þá að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja hér frekar við 1. umr. málsins, um fram það, sem ég hef þegar gert. Það er þörf á því, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, og þinglok nálgast. Ég vil því fara fram á það við hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hún hraði afgreiðslu þess, svo að það geti náð fullnaðar afgreiðslu á þinginu.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til hv. sjútvn. til fyrirgreiðslu.