13.04.1973
Neðri deild: 88. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3505 í B-deild Alþingistíðinda. (3036)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég get ekki varizt því að brosa með sjálfum mér, þegar ég heyri hæstv. sjútvrh. taka upp í sig sömu rök og notuð voru hér fyrir nokkrum árum, á svokölluðum viðreisnarstjórnarárum, þegar þáv. hæstv. ráðh. okkar voru að ræða um ýmsa skattlagningu, sem þurfti að leggja á útveginn í heild, til þess m.a. að stuðla að endurbyggingu fiskveiðaflotans þá, sem hann að sjálfsögðu býr enn þá við. Ég minnist þess, að það, sem hann heldur fram nú, að með öflugum fiskveiðasjóði og nýjum skipum muni tekjumöguleikar sjómanna auðvitað eflast, þótti honum fáránlegt þá og að verið væri að leggja gjöld á fiskimenn til þess að stuðla að nýjum skipum. Þetta þótti honum fáránlegt þá. Hins vegar verð ég að viðurkenna það með hæstv. ráðh., að þetta er auðvitað alveg rétt. Ný skip, ný tæki og betri búnaður skapar auðvitað bæði útgerðarmönnum og sjómönnum betri möguleika til þess að afla meir og betur, þannig að ég a.m.k. held mér við þau rök, sem ég fylgdi þá. En það er ánægjulegt að heyra, að hæstv. sjútvrh. hefur náð þeim þroska á þessum stutta tíma, að hann er farinn að viðurkenna þetta.

En það er nokkuð eftirtektarvert, að það eru ekki nema örfáir dagar síðan við vorum að samþykkja hér ný lög á hv. Alþ., þess efnis, samkv. loforði ráðh. og ríkisstj. í sambandi við fiskverðssamninga í vetur, að afnema launaskatt af fiskimönnum. Og m.a. vegna þess, að sá skattur var afnuminn, tókst að hækka fiskverð til sjómanna það mikið, að þeir gátu vel við unað og samningar tekizt. Aðeins nokkrum vikum síðar er lagður hér á nýr skattur, sem virðist ósköp sakleysislegur, en er samt 1% útflutningsgjald. Það er vitað, að þessi skattur mun hafa bein áhrif á fiskverð til sjómanna við næstu fiskverðsákvörðun. Miðað við það útflutningsverð, sem er í dag, mundi þessi nýi skattur hafa mikil áhrif á verðið til sjómanna, skiptaverðið. Mundi hann kannske þýða það, að fiskverð til þeirra ætti að lækka um 2–3%, getur það verið? En þetta er auðvitað spurning, sem okkur hefur ekki tekizt að fá svarað enn þá. Ég vænti þess, að okkur í sjútvn. gefist tími til þess að kanna bæði svör við þessu og öðrum spurningum, en vera má, að hæstv. ráðh. geti nokkuð flýtt fyrir með því að svara þessu strax, þannig að svörin liggi fyrir n., þegar hún tekur til starfa.

Okkur þm. er ekki kunnugt um það, að ríkissjóður hafi haft neitt fé í geymslu hjá sér, sem hægt væri að grípa til, a.m.k. lá þetta ekki fyrir á þeim tíma, sem við vorum að ræða hér um hamfarirnar í Vestmannaeyjum og ráðstafanir til þess að mæta þeim. Þá lá ekkert fyrir um það, að ríkissjóður Íslands ætti 100 millj. kr., sem nú allt í einu virðast vera til staðar í sambandi við þau mörgu frv., sem verið er að samþykkja eða á að samþykkja, um ný; stór framlög úr ríkissjóði. Á ársgrundvelli á ríkissjóður að koma með 150–160 millj. kr. á móti þessum skatti. Gott er, ef svo er. En hvaða breyting hefur orðið? Hvað veldur því, að ríkissjóður er svo miklu betur settur nú en þá, þegar það var helzt ekki hægt að koma með krónu úr ríkissjóði, aðeins fyrir nokkrum vikum? Okkur var talin trú um það þá, að ríkissjóður væri á slíkri heljarþröm, að þar væri ekkert fé að hafa og það þyrfti að leggja tveggja milljarða kr. nýja skatta á þjóðina til þess að mæta þessum hörmungum, vegna þess að ekkert væri til í ríkissjóði. Vera má, að átt hefði að fara örlítið hægar í veizluhöldin hér á fyrstu mánuðum ríkisstj., þegar gengið var á þá sjóði, sem voru þrýstnir og bústnir, eftir að hv. þm. Magnús Jónsson vék frá því að gæta þeirra. En það var því miður ekki gert.

Það kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að af þessum um 1700 millj. kr., sem fiskveiðasjóður þarf að hafa til ráðstöfunar á þessu ári, eiga um 500 millj. kr. að fara til fiskvinnslustöðva, ef ég hef tekið rétt eftir, og til skipasmiðastöðva innanlands fast að því sama upphæð, eða 300 millj. kr. (Gripið fram í: Um 700 millj. kr.) Um 700 millj. Þá sjáum við, að þetta útflutningsgjald, sem m.a. mun koma fram á fiskverði til útgerðarmanna og sjómanna, á fyrst og fremst að fara til þess að endurnýja fiskvinnsluna í landinu og stuðla að innlendri skipasmíði. Ég álít, að hv. n., sem fær málið til meðferðar, ætti að taka það mjög til athugunar, hvort ætti ekki að setja inn í þessi lög eða þá önnur, þar sem það á við, að þessi nýi skattur eigi ekki að hafa áhrif á fiskverðákvörðun verðlagsráðs sjávarútvegsins, þegar það kemur til ákvörðunar á næstunni, því að þarna er í sjálfu sér verið að stuðla að allt öðrum atvinnuvegi fyrst og fremst, með þessum nýja skatti, en sjálfri útgerðinni í landinu. Ég vil beina því til, — nei, það er ekki hægt að beina því til formanns n., enda er hann svo sjaldan í þessari d. — en til allra annarra, sem í n. eru, að þeir athuguðu, hvort ekki væri hægt að gera þetta. Auk þess vitum við, að það verður ekki staðið á móti því að reyna að flýta fyrir, að málið verði afgreitt. Hins vegar verður það að segjast, að það er náttúrlega, — og það veit ég, að hæstv. ráðh. viðurkennir sjálfur, því að það er ekki svo sjaldan, sem hann hefur gagnrýnt slík vinnubrögð, a.m.k. hjá fyrrv. ríkissj., — það er fyrir neðan allar hellur að vera að demba yfir okkur hverju skattafrv. á fætur öðru á síðustu dögum þingsins, auk þess, sem önnur stórmál eru í farvatninu líka, og ætlast til, að við samþ. þau.