16.10.1972
Neðri deild: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

5. mál, orkuver Vestfjarða

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni fyrir mjög öflugan stuðning við þá stefnu, sem kemur fram í þessu frv., og að sjálfsögðu er það sá stuðningur, sem skiptir meginmáli. Ég kynntist honum vel á fundi, sem ég mætti á í Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Þar var almenn ánægja með þessa ákvörðun.

Um það atriði, sem hv. 2. þm. Vestf. gerði aths. við, að það hefði verið viðfelldnara og skemmtilegra, að ráðh. hefði haft samráð við heimamenn, þ. á m. þm. kjördæmisins, áður en þessi lög voru sett, get ég verið honum fullkomlega sammála. En eins og ég rakti hér áðan, lágu niðurstöður Orkustofnunar um valkosti í þessu sambandi ekki fyrir fyrr en 19. júlí í sumar, og minn vandi var sá, að ef framkvæma átti eitthvað í sumar, varð að taka þessa ákvörðun á fáeinum dögum. Ég taldi það skipta svo miklu máli fyrir kjördæmið, að hafizt yrði handa í sumar um vinnu á þessu sviði, að þess vegna hafði ég ekki þetta samráð, sem hv. þm. réttilega telur, að hefði átt að hafa. Ég skal fúslega á það fallast, að þetta hefði mátt vinnast betur, en mér fannst nauðsynin knýja þannig á mig, að ég gæti ekki skotizt undan henni.

Hv. þm. vék hér að þáltill., sem samþ. var hér á þingi fyrir nokkrum árum og rakti efni hennar. Ég fæ ekki annað séð en núv. ríkisstj. sé að framkvæma öll atriði þessarar ályktunar. Þar er í fyrsta lagi farið fram á auknar framkvæmdir í raforkumálum á Vestfjörðum, og sú ákvörðun hefur verið tekin. Það var óskað eftir því, að stefnan yrði miðuð við það að fullnægja raforkuþörf Vestfirðinga næstu 10 árin, og fæli í sér aukna notkun á raforku til húshitunar. Það felst einnig í ákvörðunum um Mjólká Il. Og í þriðja lagi var það í þessari þáltill., að kanna skyldi óskir sveitarfélaganna í sambandi við það, að stofnað yrði sameignarfyrirtæki ríkis og sveitarfélaga til orkuframleiðslu og aðalflutninga. Eins og menn vita, felst einmitt þetta atriði í þeirri stefnuyfirlýsingu ríkisstj. í raforkumálum, sem kynnt var á síðasta þingi. Þar var kynnt sú stefna, að í öllum landsfjórð. skyldu rísa landshlutafyrirtæki, sem yrðu sameignarfyrirtæki ríkisins og sýslu- og sveitarfélaga, sem þess kynnu að óska á hverjum stað. Að framkvæmd þessarar stefnumörkunar er nú unnið, og að sjálfsögðu verður að því unnið að kanna óskir sveitarfélaganna á Vestfjörðum í þessu sambandi. Ég hygg, að einmitt á Vestfjörðum eigi breyting í þessa átt að verða auðveldari en á flestum öðrum stöðum. Ég ítreka svo enn þakkir mínar til hv. þm. fyrir stuðning við þetta frv.