14.04.1973
Neðri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3562 í B-deild Alþingistíðinda. (3157)

222. mál, atvinnuleysistryggingar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að staðfesta þau orð, sem komu fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að það, sem hér liggur fyrir Alþ. í frv.-formi, er það síðasta og lengsta, sem hægt hefur verið að ganga til samkomulags á milli þeirra aðila, sem þarna eiga hlut að máli. Ég skal taka undir það með hv. þm. Bjarna Guðnasyni, að ég hef lengi haft nokkra samúð með því tiltölulega bæði fjölmenna og þýðingarmikla landssambandi, sem er Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, vegna þess að frá þeim og fyrir þá er greitt í þennan sjóð. Hins vegar ber þess að geta, að þeir voru ekki aðilar að þessu samkomulagi á sínum tíma, sem hv. síðasti ræðumaður vitnaði til.

Þarna kemur inn í kannske frá minni hendi sama skoðun og ég var að lýsa í sambandi við það mál, sem var til umræðu í Sþ. fyrir nokkrum dögum, um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, þegar till. bæði fyrr og síðar og nú hér á þinginu eru uppi um það, að þeir lífeyrissjóðir, sem fyrir eru, verði grundvöllur að allsherjar lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn og þá fyrir þá, sem ekki eiga lifeyrissjóð í dag. Þarna var á sínum tíma um samkomulagsatriði að ræða á milli aðila, og þeir, sem sömdu, alla vega þeir, sem komu úr launþegastétt, voru þá jafnvel um leið að fórna því, sem þeir kannske hefðu getað fengið fram í þessum samningum, til þess að leggja í þessa sparifjármyndun, sem þar varð til. Og það er enginn vafi á því, að það er sáralitið brot af þeim miklu eignum, sem atvinnuleysistryggingasjóður á í dag, sem hefur farið til þess fólks sjálfs, sem sjóðurinn var vissulega myndaður fyrir og er fyrir. Hins vegar hefur hann orðið aflgjafi fyrir allan atvinnurekstur í kringum allt Ísland, ekki aðeins hér í höfuðborginni, heldur sérstaklega í okkar strjálbýli, orðið aflgjafi þar til aukinnar atvinnu og til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi.

Ég tek undir þau orð, sem komu fram hjá síðasta ræðumanni, að það væri óvarlegt að fara að breyta þessu frv. allmikið. Auk þess fæ ég ekki séð annað en að allflestir, sem hér eiga sæti á Alþ., geti verið fulltrúar atvinnuvega alveg eins og þeir menn, sem koma frá einstökum samtökum beint. Ég álít t. d., að þessi hv. þm., Bjarni Guðnason, sé mjög verðugur fulltrúi Háskóla Íslands, háskólaprófessoranna, meðan við erum hér hins vegar margir, sem enn þá vinna allt okkar starf utan þings í þágu verkalýðsfélaga og sjómannafélaga eða landssamtaka verkalýðshreyfingarinnar. Ég fæ því ekki séð annað en að hér innan Alþ. megi finna marga verðuga fulltrúa til þess að eiga setu í stjórn þessa sjóðs, eins og mér sýnist, að Alþ. hafi tekizt á undanförnum árum, þegar það hefur kosið í þessa stjórn.