16.04.1973
Sameinað þing: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3641 í B-deild Alþingistíðinda. (3252)

Skýrsla um utanríkismál

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Hér hefur nú verið lögð fram skýrsla af hæstv. utanrrh. um utanríkismálin og hafa ekki orðið um hana deilur, heldur hefur stjórnarandstaðan lokið upp einum munni um það, að skýrslunni sé fagnað og í meginatriðum sé á hana fallizt. það er fagnað m.a. auknu samstarfi utanrrh. við utanrmn., og er það á fullum rökum reist, því að á því sviði málefna hefur orðið framkvæmdabreyting mikil. Menn fagna því og, að núv. stjórn hafi rekið sjálfstæðari utanríkispólitík en áður, og má það einnig til sanns vegar færa, þó að gífuryrði um annað hafi einnig verið höfð hér uppi.

Hér hefur verið lögð á það mikil áherzla, að okkur Íslendingum beri hér eftir sem hingað til að ástunda einhug og samstöðu um landhelgismálið, og er það vel. Á því máli hefur verið haldið þannig, að auk þess sem ríkisstj. hefur á hverjum tíma tekið afstöðu, eins og málið hefur blasað við hverju sinni, hefur ávallt verið haft samráð við utanrmn. og landhelgisnefndina um framvindu málsins, og hingað til hefur tekizt að ná samstöðu um málið. Þessu ber að fagna. Og ég vona, að þetta haldist áfram, að menn séu það víðsýnir, að þó að okkur greini á um einhver einstök atriði málsins, verði þau skref fyrir skref tekin til athugunar og leitað eftir samstöðu um þau, því að án þess að ræða málin og skiptast á skoðunum um þau á hverju stigi, eins og þau blasa við, er holt undir fæti um samstöðuna og einhugurinn einskis virði, því að þá er hann falskur. Svona höfum við haldið á málinu, og svona skulum við halda á málunum, en við eigum að viðurkenna það, að við erum frjálsir að því að skiptast á skoðunum um málin og ræða þau, en markmiðið er að komast að sameiginlegri niðurstöðu um þau.

Hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, lagði áherzlu á þetta í sinni ræðu, að okkur bæri umfram allt að ástunda það að vernda einingu Alþ. og þar með einingu þjóðarinnar um málið. Hann lýsti síðan skoðun sinni á samningunum frá 1961 og taldi hann mikið þarfaþing, hann hafi bjargað miklu, því að hann hafi veitt okkur fulla viðurkenningu á 12 mílna landhelginni. Ég er honum ekki sammála um þessa skoðun og tel ekki stefnt til neins háska, þótt við séum ósammála um þennan samning. Það eru vafalaust mjög skiptar skoðanir með hann meðal þm. Ég tel, að þess hafi ekki verið nein þörf og einkum hafi reynzlan sýnt það, að engin þörf hafi verið að eiga kaup við Breta um það, að við öðluðumst 12 mílna landhelgi, því að við vorum búnir að vinna það stríð. Á eftir varð sú þróun, — það gátu samningamennirnir frá 1961 að sjálfsögðu ekki séð fyrir, — að þjóðir heims viðurkenndu 12 mílna landhelgi hið minnsta. Það hefur því verið réttilega sagt hér áður í þingsölum, að ef menn hefðu séð, hvernig þróunin yrði, hefði ekki þurft að kaupa þetta út af fyrir sig neinu verði. Ég tel þennan samning í heild hafa verið okkur óheillasamning, af því að hann batt okkur þeim skuldbindingum, að við færðum út okkar landhelgi, gæti annar hvor aðilinn, sá sem þess óskaði, borið fram kröfu um að skjóta þeim ágreiningi, til dómstólsins í Haag. Það er einkanlega vegna þessara ákvæða í samningnum, sem við erum bundin við Haag. Við höfum að vísu talið, að hann hafi náð sínum tilgangi, og sé úr gildi fallinn, og við þar að auki formlega sagt honum upp. En dómstóllinn virðist ekki hafa fallizt á þau sjónarmið okkar.

Ég tel, að ein af mörgum ástæðum fyrir því, að við eigum að senda málsvara til sóknar og varnar fyrir málstað okkar fyrir dómstólnum í Haag, sé sú, að við eigum að gera glögga grein fyrir aðdraganda að samningsgerðinni 1961 og innihaldi þess samnings. Við eigum að staðfesta þar með góðum gögnum, dagbókum varðskipanna m.a., að Bretar beittu okkur hernaðarlegu ofbeldi, bæði með viðskiptabanni á árinu 1952 og svo hernaðarofbeldi í þorskastríðinu 1960 og 1961. Gylfi Þ. Gíslason, hv. 7. þm. Reykv., sagði einmitt, að samningurinn hefði verndað okkur fyrir vopnaðri íhlutun Breta á miðunum við Ísland. Þetta er í raun og veru viðurkenning á því sjónarmiði, sem ég held fram, að samningurinn var gerður undir nauðung, undir þvingun, frammi fyrir byssukjöftum Breta. En slíkir samningar munu ekki þykja haldgóðir sem alþjóðasamningar, og það er fyllsta ástæða til þess að láta ekki auða stóla tala um þetta í Haag m.a., heldur láta færustu menn okkar bera fram dagbækur varðskipanna og öll rök okkar og gögn fyrir því, að þetta var nauðungarsamningur, sem við gerðum undir þvingun.

Meginrök þeirra manna, sem að samningum stóðu, voru þau, að þeir væru að afstýra alvarlegum afleiðingum þess, ef ekki væri gerður samningur. Utanrrh. Breta lýsti því þá yfir í bréfi til utanrrh. Íslands, að hann vissi það vel, að ef samningar tækjust ekki, hefði það alvarlegar afleiðingar. Ef þetta er ekki hótun milli ríkja, þá skil ég ekki, hvað hótun er. Okkar réttur og skylda er að færa fram öll okkar rök og gögn í málinu, aðdragandanum að þorskastríðinu og því, sem gerzt hefur síðan 1. sept. s.l., og einnig um allan aðdraganda að samningnum 1961, sanna það, að stjórnarandstaðan þáv., núv. stjórnarflokkar, hélt því fram með réttu, að þetta væri nauðungarsamningur, sem okkur bæri ekki að virða.

Ég hef haldið því fram, að við eigum að senda málsvara til Haag, rökstyðja okkar góða málstað, rekja aðdragandann, rekja allan gang málsins og bera fram kröfur um sýknu af málsóknarkröfum Breta og Þjóðverja, og í annan stað sem varakröfu, að dómi verði frestað, þangað til hafréttarráðstefnunni sé lokið. Þessa kröfu á ekki að bera fram bara í tilmælaformi, það á að vera hreint og beint dómkrafa af okkar hendi, a.m.k. sem varakrafa. Hafréttarráðstefnan er sá alþjóðavettvangur, sem á að leggja lagagrundvöll, og þegar við vitum, að þar er að vænta hagstæðari stöðu en nú er á þessum vettvangi, eigum við auðvitað að bera fram kröfur um, að dómur sé ekki felldur, fyrr en niðurstöður hafréttarráðstefnunnar liggi fyrir. Það á ekki að gerast með neinu pukurssendibréfi til dómsins. Það á að gerast með réttarkröfu.

Ég skal ekki fara út í það að svara gífuryrðum hv. 3. uppbótarþm., sem hér talaði síðast. Þessi utanflokkaþm. getur haft sínar skoðanir og er frjáls að því. En þá hef ég líka frjálsræði til þess að hafa mínar skoðanir, setja þær fram sem umræðugrundvöll.

Það hefur verið viðurkennt af þeim, sem hér töluðu í dag um þetta mál, að hugmyndin um að senda menn til Haag yrði m.a. rædd í utanrmn. og reynt að komast að niðurstöðu þar um ákvörðunartöku, og það er auðvitað rétta leiðin. Fásinna er að fordæma skoðanir í þessum málum og segja, að enginn hafi frjálsræði til þess að bera þær fram. Þeir menn hafa ekki snefil af lýðræðislegri hugsun, sem bera slíkt fram. Og það er einskis virði yfirborðssamstaða Íslendinga og einhugur í málinu, ef það á að byggjast á því að viðurkenna aðeins einhverja ákveðna afstöðu til málsins og að skoðanaskipti megi ekki eiga sér stað. Við eigum að undirbyggja okkar samstöðu með umr. og ákvörðunartöku stig af stigi.

Þegar við fórum af stað með þetta mál og gerðum hér einhuga samþykkt á Alþ. Íslendinga, vissum við ekki, hverjum tökum Haagdómstóllinn tæki þetta mál. Síðan hefur það gerzt, að hann hefur gert úr þessu tvö mál. Hann hefur boðið upp á sókn og vörn um lögsögurétt dómsins og kveðið upp sérstakan úrskurð um það atriði út af fyrir sig. Síðan hefur hann ákveðið, að hann skuli taka efnishlið málsins út af fyrir sig og kveða upp sérstakan dóm um hana. Við höfðum tekið þá afstöðu algerlega einhuga, að við skyldum á allan hátt mótmæla því, að hann hefði lögsögu um málið. Við höfum tapað því máli. Dómurinn er kominn, það verður ekki umflúið. Hann segist hafa hana, og það er ekki hægt að áfrýja þeim úrskurði til neins annars aðila. Hann hefur ákveðið, að hann skuli hafa lögsögu um málið. Næsta ákvörðun hans er sú, — að vísu var dómurinn um það skiptur, — að efnishlið málsins skuli tekin út af fyrir sig og kveðinn upp sérstakur dómur í henni. Þá, þegar þessi tímamót voru í málinu, var sjálfsagt, að Íslendingar tækju að ræða það mál, hvort ætti að senda málsverjendur til dómsins til þess að flytja sitt mál eða þegja og láta auða stóla tala. Þar er mín afstaða alveg óbreytt, og þá er ég að svara hv. utanflokkaþm., hv. 3. landsk., — hún er óbreytt enn. Ég tel, að við eigum að senda málsvara til Haag. Og ég þykist hafa fengið viðurkenningu fyrir því, að þetta sjónarmið verði rætt og gagnstæð sjónarmið af réttum aðilum, þ.á.m. landhelgisnefnd og utanrmn., og Alþ. er rétti aðilinn til þess að taka ákvörðun um það. Hvorki á ég neinn einkarétt að þessu sjónarmiði mínu né aðrir á gagnstæðu sjónarmiði. Alþ. er rétti aðilinn til að skera úr því að undangengnum hugleiðingum og umr. um þessa fleti á málinu. Og það er undir öllum kringumstæðum eðlilegast, að við notum tímann, þangað til við þurfum að taka ákvörðun um þetta, til þess að ræða málið innbyrðis hjá okkur, og það er ekkert veikleikamerki í málinu. Það er ekki hægt að umsnúa sannleikanum meira á nokkurn hátt en að segja, að þar með séum við búnir að gefa upp okkar afstöðu í landhelgismálinu. Dettur nokkrum í hug, að þó að við ákvæðum í dag að senda málsvara til Haag, hættum við að framfylgja íslenzkum lögum og berjast í okkar landhelgi til varnar? Mér dettur það ekki í hug. Ég hygg, að það hvarfli ekki að einum einasta þm. Bretar gera tvennt í senn. Þeir heita okkur ofbeldi hér á íslenzkum miðum innan 50 mílna landhelginnar, brjóta þar með íslenzk lög, en sækja málið fyrir dómstólnum í Haag jafnframt. Þó að við ákvæðum að senda menn til Haag, værum við sannarlega ekki að gefa upp eitt eða neitt í málstað okkar um að framfylgja íslenzkum lögum í landhelgismálinu.

Þessar skoðanir mínar hafa af hv. utanflokkaþm., 3. landsk., verið kallaðar óheillaskoðanir. Allar skoðanir eiga rétt á sér í lýðfrjálsu landi. (BGuðn: Jafnvel hjá Junior Chambers?) Er það einhver fyrirlitlegur félagsskapur? Ég var ekki í neinni veizlu hjá Junior Chambers. Ég lofaði að tala þar í 10 mínútur og gerði það. Það var fundur en ekki nein veizla. Ef hv. þm. heldur, að hann hafi orðið af einhverjum dýrlegum veigum þar, þá var það nú ekki.

Ég legg áherzlu á það, að í landhelgismálinu ber okkur að halda einhug og samstöðu. En þessi einhugur og samstaða verður að vera undirbyggð á skoðunum, sem hafa verið ræddar og komizt að réttri niðurstöðu um. Ég er reiðubúinn til þess að lúta þeim niðurstöðum, sem kynnu að ganga gegn mér, en ég tel mínar skoðanir í þessu máli eiga jafnan rétt á sér og aðrar skoðanir.

Það er skoðun mín, að við höfum verið beittir þvingunum og nauðung, bæði í fyrra þorskastríði og í þessari deilu við Breta, og það eigum við allt saman að leiða fram fyrir dómstólnum í Haag í skýru, rökstuddu formi. Við eigum ekki neinn rétt á því að láta það undir höfuð leggjast. Þá værum við að svíkja íslenzkan málstað að mínu áliti.

Hinn þátturinn í skýrslunni, sem sérstaklega hefur verið gerður að umtalsefni, er varnarmálin, og þar hafa menn harmað, að litið sé í skýrslunni um þau mál. Það er af þeim eðlilegu ástæðum, að við höfum, eftir því sem ég bezt veit, verið sammála um það hingað til að láta landhelgismálið hafa algeran forgang og reyna að freista að koma því í höfn helzt, áður en við færum að taka upp annað stórkostlega viðkvæmt og vandasamt utanríkismál og berjast þannig á tveimur vígstöðvum. Menn hafa verið nokkuð sammála um, að það væri ekki skynsamlegt að tvískipta kröftunum um þessi tvö stóru mál. Hvoru tveggja mega teljast örlagamál og þó fyrst og fremst landhelgismálið, enda var það látið sitja í fyrirrúmi.

Hvað erum við svo komnir langt í hinu málinu? Á þetta stig, að það er búið að hafa einar könnunarviðræður vestur í Bandaríkjunum um varnarsáttmálann og ákveðið að hefja innan skamms sjálfar endurskoðunarviðræðurnar. Ég veit ekki, hvort það er skoðun allra hv. þm., sem hér var túlkuð af hv. utanflokkaþm., 3. landsk. áðan, að hann teldi, að orðið „endurskoðun“ þýddi burtför hersins úr landinu. Það væri gaman að vita, hvort þessi skýring á orðinu „endurskoðun“ fyndist í íslenzkum orðabókum. Prófessorinn veit kannske um það. Ég held, að þetta sé nokkuð lausleg þýðing, varla vísindalega undirbyggð.

Nei, ríkisstj. hefur skuldbundið sig til þess, samkv. stjórnarsáttmálanum að gera tvennt í varnarmálunum, ef á þarf að halda: að endurskoða varnarsamninginn eða segja honum upp og láta herinn hverfa burt úr landinu á kjörtímabilinu. Og við erum í þann veginn að hefja fyrri þáttinn. Framhaldið fer allt eftir því, hvernig fyrri þættinum lýkur. En um það getur enginn fullyrt, fyrr en endurskoðunarumr, hafa farið fram og niðurstaða af þeim liggur fyrir Alþ. Þá getur komið til þess að taka ákvörðun um síðari þáttinn. Það stendur þarna: „Endurskoðun eða uppsögn samningsins með það fyrir augum, að herinn hverfi burt af landinu á kjörtímabilinu“. (BGuðn: Og framhaldið, hvernig er það?) Framhaldið er, að að því skuli stefnt, að herinn hverfi burt úr landinu. Endurskoðun eða uppsögn samningsins og brottför hersins burt úr landinu, það skal stefnt að því. Og á öðrum stöðum í stjórnarsáttmálanum þótti heldur lauslega og linlega að orði kveðið, þegar var verið að lofa því, að stefnt skyldi að einhverju máli. En höfundurinn að þessu orðalagi er m.a. hv. utanflokkaþm. núv., 3. landsk., Bjarni Guðnason. Hann var í stjórnmálanefndinni, sem samdi þetta. (BGuðn: Má mér þá ekki vera kunnugt um, hvað er á eftir?) Jú, þér átti að vera kunnugt um það, hvað orðið „endurskoðun“ þýddi. Nei, hv. utanflokkaþm., 3. landsk., Bjarni Guðnason, lýsti yfir eindregnum stuðningi sínum við hæstv. utanrrh., og gleður það mig. Ég álit, að hann eigi það einmitt skilið að njóta trausts manna fyrir frammistöðu sína sem utanrrh., og ég treysti honum fyllilega til þess að halda á varfærinn, öruggan og skynsamlegan hátt á endurskoðunarumr., sem nú fara í hönd. Að þeim loknum kemur málið vafalaust til kasta Alþ., og það er skylda okkar allra að lúta meiri hl. Alþ. í þessu máli sem öllum öðrum, ef við viljum þingræðis- og lýðræðisþjóð heita.