16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3666 í B-deild Alþingistíðinda. (3278)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, klofnaði hv. iðnn. við afgreiðslu málsins, og örlögin höguðu því þannig, að ég lenti — eigum við að segja hægra megin í n., aldrei þessu vant. Þetta mun vera eina dæmið, að ég hygg, eftir stjórnarskiptin, þar sem stjórnarandstaðan hefur fengið stuðning í n. í ákveðnu nál. um annað en stjórnin hefur viljað, og þykir mér rétt að skýra, hvers vegna ég valdi þessa leiðina.

Fyrst er þess að geta, að um nauðsyn þessa máls er alger samstaða. Hér er hreyft mjög brýnu máli, þ.e. að stuðla að auknum útflutningi iðnaðarvarnings og aukinni framleiðni í íslenzkum iðnaði, og útvega þar með aukið rekstrarfé. Um þetta eru allir sammála. Hins vegar vaknar sú spurning, hvort ástæða sé til að mynda nýjan sjóð, og þar stendur hnífurinn í kúnni. Ég tel, að þetta stangist beinlínis á við málefnasamning ríkisstj. Í málefnasamningnum er sagt eitthvað á þá leið, að það eigi að endurskoða bankakerfið og einfalda og sameina fjárfestingarsjóðina. Í bankaálitinu, sem gefið var út og þm. hafa lesið sér til fróðleiks og skemmtunar síðustu daga, er beinlínis látin uppi sú eindregna skoðun, að fjárfestingarsjóðunum þurfi að fækka, þeir séu núna 17 að tölu, en það megi með auðveldum hætti fækka þeim niður í 9, um tæpan helming. Þetta er beinlínis atriði í málefnasamningi ríkisstj., og ég hef látið þau orð falla, að ég sé ekki reiðubúinn að styðja mál, sem ganga gegn málefnasamningi ríkisstj. Þetta er ástæðan. Þarna er m.ö.o. gert ráð fyrir að stofna nýjan sjóð og setja sjóðnum 5 manna stjórn. Er ekki nóg komið af öllum nefndunum, ráðunum og stjórnunum o.s.frv. og nýjum sjóðum? Á ekki að fara að snúa við? Á ekki að fara eitthvað að spyrna við fæti? Menn segja sem svo: Það er ekki til neinn sjóður, sem nákvæmlega sinnir þessu verkefni. Það er alveg rétt. En ég vil benda á, eins og fram hefur komið hér, að það er til iðnlánasjóður, sem er stofnlánasjóður iðnaðarins. Nú hagar svo til, að það eru frá nútímasjónarmiði ekki lánuð nein stofnlán til fyrirtækja, nema rekstrargrundvöllur sé kannaður. Það er alrangt að líta á þessa hluti sem tvo þætti: eitt heiti stofnlán og eitt heiti rekstrarlán, og hafa það í tveimur aðskildum sjóðum. Þetta á auðvitað að vera undir einum og sama hatti, því að þetta er nátengt og verður ekki aðskilið, og engin stofnlán eru að sjálfsögðu lánuð til fyrirtækja, sem hafa ekki rekstrargrundvöll, eða a.m.k. ætti tæpast að vera svo. Þá ættu menn að geta fengið á einum og sama stað bæði stofnlán og rekstrarlán. Þetta er m.ö.o. eitt og hið sama og hlýtur þannig að vera, ef menn ætla að hafa einhverja stjórn á hlutunum.

Hins vegar hafa komið vöflur á Ed: menn út af þessu, og þeir hafa því sett inn ákvæði til bráðabirgða, þar sem segir, að lög þessi, svo og önnur lög um lánasjóði iðnaðarins skuli taka til endurskoðunar hið fyrsta, með það fyrir augum að sameina sjóðina og verkefni þeirra.

Þið, herrar mínir, vitið gerla, að í munni stjórnmálamanns, er margt mjög óljósrar merkingar, og það lá ekki fyrir nein yfirlýsing um, hvað þetta hugtak merkti. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé miklu örðugra að sameina sjóðina, eftir að búið er að fjölga þeim. Sú er einmitt reynslan af bankakerfinu. Örðugleikarnir við að sameina banka stafar af því, að þeir eru orðnir svo margir með sérstökum stjórnum, að hagsmunirnir rekast hvarvetna á. Þess vegna tel ég, að úr því að það liggi fyrir yfirlýsing um að sameina þessa sjóði, sé hið skynsamlega og eina rétta að setja ekki upp nýja stjórn, heldur bíða með það og hafa ákvæði um, að þetta sé sérstök deild iðnlánasjóðs.

Þetta er mitt viðhorf. Ég skal ekki fara neitt út í það, að pólitískt hljómar það miklu kröftugar að stofna nýjan sjóð. En það er röng stefna engu að síður. Og ég er þeirrar skoðunar, að Alþ. og kannske ekki sízt ríkisstj. sjálf eigi að fara sér mjög hægt í því að vera að mynda ný ráð og nýjar stjórnir yfir hina og þessa sjóði og stofnanir, heldur reyna að líta á málin í heild. Af þessari ástæðu, sem ég hef nú greint frá, tel ég skynsamlegt, að þetta verði hluti af iðnlánasjóði. Hv. 4. þm. Reykv. benti á, að stjórn þess sjóðs væri kannske ekki samsett á heppilegastan hátt, og um það skal ég ekki deila. Það örvar þá kannske ríkisstj. til þess að flýta sér með endurskoðunina. M.ö.o.: einföldun er ekki fólgin í því að setja upp nýja sjóði, síður en svo. Þess vegna hef ég að þessu sinni stigið í hægri fótinn.