16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3675 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Frsm. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., sem hér hafa farið fram, en mér finnst rétt að gefnu tilefni að taka fram, að það er reginmisskilningur, að einhver deila standi hér um það, hvort stofna eigi sjóðinn eða ekki. Það eru allir sammála um að stofna þennan sjóð, þó að menn séu líka sammála um, að það eigi síðar að taka til endurskoðunar allt sjóðakerfi iðnaðarins með það fyrir augum að gera það einfaldara. Því til sönnunar, að allir séu sammála um að stofna þennan sjóð, skal ég lesa upp 1. gr. frv., sem allir nm. í iðnn. Nd. voru sammála um, eða a.m.k. kom ekki annað fram þar. 1. gr. hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Stofna skal sjóð til að stuðla að auknum útflutningi iðnaðarvarnings, breyttu skipulagi og aukinni framleiðni í íslenzkum iðnaði. Sjóðurinn skal vera sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins“.

Um þetta atriði voru allir sammála. Það kom engin brtt. fram um það. Sjóðurinn skal vera sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Það var þess vegna alger samstaða um að stofna þennan nýja sjóð, þó að menn væru jafnframt fylgjandi því, að allt sjóðakerfi iðnaðarins yrði tekið til endurskoðunar strax á eftir og stefnt að því, að frv. um þessa sameiningu lægi fyrir á næsta þingi. En eins og málin standa í dag, voru menn samt allir sammála um að stofna þennan sjóð og hann ætti að vera sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins.

Svo vil ég aðeins víkja að því, sem kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. Hann lýsti því sem sinni skoðun, að hann teldi, að í sambandi við framtíðarskipun þessara mála væri ekkert óeðlilegt, að stjórnin væri skipuð eins og 3. gr. gerði ráð fyrir. Hann var með þá aths., að það væri kannske rétt, að Útflutningsmiðstöð iðnaðarins ætti þar líka fulltrúa. Mér sýnist af þessum ummælum hv. frsm., að hann telji það eðlilegt, að t.d. aðili eins og Samband ísl. samvinnufélaga eigi aðild að stjórn slíks sjóðs. Mér skilst líka á hv. frsm., að hann telji það eðlilega framtíðarskipun, að Alþýðusamband Íslands eigi einnig aðild að stjórn þessa sjóðs. En fyrst hv. þm. lítur þannig á, að það sé eðlileg framtíðarskipun, að samvinnusamtökin og alþýðusamtökin eigi aðild að þessum sjóði, hvers vegna er hann á móti því, að þessir aðilar fái aðildina strax? Hvaða rök liggja til þess? Eftir hverju á að bíða í þessum efnum, ef þetta er talið rétt? Hvers vegna á að fresta þessu? Ég sé enga ástæðu til þess, ef menn eru á annað borð sammála því, að samvinnusamtökin og verkalýðssamtökin eigi aðild að stjórn sjóðsins, að vera að fresta því til næsta þings. Hvers vegna ekki að gera það strax? Hvaða ástæður eru það, sem valda því, að menn vilja fresta þessu?