16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3685 í B-deild Alþingistíðinda. (3292)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Þó að það sé nú farið að fækka hér í hv. d., er það einn hv. þm., sem ég sakna alveg sérstaklega, Stefán Valgeirsson.

Það hefur ekki orðið neinn ágreiningur um það, að þetta frv. sem heild, sem flutt er af þm. úr öllum flokkum. er mikið nauðsynjamál, og það er orðin staðreynd. að landshlutasamtökin hafa verið að hasla sér völl um allt land. Nú alveg nýlega var gefin út mikil áætlanagerð fyrir Suðurland, sem landshlutasamtök þar virðast hafa unnið að verulegu leyti á eigin vegum. Þetta sýnir auðvitað, að þar, sem vel er unnið að þessum málum, verður verulegur árangur. Og um eitt vorum við hv. þm. Stefán Valgeirsson sammála, að hafa áhuga á framgangi málsins.

Fyrr í umr. um þetta mál kom berlega fram hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni, að hann vildi reyna að finna einhverja lausn á þessu máli, að því er varðar sérstök landshlutasamtök sveitarfélaga í Norðurl. v. Nú hefur hv. þm. Stefán Valgeirsson sagt, að hann botnaði ekkert í þeirri till., sem ég og hv. þm. Björn Pálsson flytjum um, að það ákvæði skuli gilda, að landshlutasamtökin fari eftir kjördæmum, eins og gerist alls staðar annars staðar en á Norðurlandi. Og af hverju hefur þetta atriði farið svo óskaplega í fínu taugarnar á hv. þm.? Ég álít, að bæði hæstv. forsrh. og ég vitum ofurlitið um það, sem fólk í okkar kjördæmi vill, kannske fullt eins vel og hann. Það var haldinn fundur á Sauðárkróki á s.l. hausti, þar sem sveitarstjórnarmenn úr stórum hluta kjördæmisins voru mættir og mikill meiri hluti þeirra vildi vinna að því. að sérstök landshlutasamtök yrðu gerð fyrir Norðurl. v. Ætli það geti hugsazt, að það sé út af því, að náttúrlega er Norðurl. e. miklu, miklu sterkari aðili í Fjórðungssambandi Norðlendinga? Á því er auðvitað enginn vafi, og með þessu er ég ekki á neinn hátt að kvarta undan því, að það hafi verið hallað á okkur í vestara kjördæminu. En hvaða rætur eru á bak við það að vilja alls ekki lofa íbúum í kjörd. að vestan að vera með sérstök landshlutasamtök? Fó1kið er búið að mjög verulegum hluta að taka afstöðu til þessa. Ég veit ekki betur en að í bæjarstjórninni á Sauðárkróki hafi þetta verið einróma samþykkt. Auk þess segir í okkar till.: „Heimilt er tveimur landshlutasamtökum að hafa sameiginlega fundi og framkvæmdastjórn, álíti þau það hagkvæmt“. Með þessum hætti geta þessi tvö landshlutasamtök unnið saman, á sama hátt og þau hafa gert, og ég get ómögulega skilið hinn mikla áhuga háttvirta þm. á því, að það megi ekki setja þetta í lög, öðruvísi en að hann vilji endilega hafa þetta óbreytt, ég sé að svipta umbjóðendur mína sjálfræði, eins og hann sagði í fallegri vísu. Ég er því miður ekki skáld, svo að ég get ekki svarað honum á sama hátt. En þetta er mesti misskilningur. A.m.k. umbj. hæstv, forsrh. og mínir og samtök Alþb. í kjördæminu — ég veit ekki betur — hafa beinlínis lýst því yfir, að þeir vilji þetta. Ég veit, að a.m.k. einhverjir af sjálfstæðmönnum hafa einnig lýst því yfir.

Rök okkar fyrir því, að þetta þurfi að gera, eru ósköp einföld. Fyrir hálfu öðru ári eða svo var samþykkt hér á hv. Alþ. till. um að gera landshlutaáætlun fyrir Norðurl. v., að ég ætla með öllum atkvæðum hv. þm. Ég spurðist fyrir um þessa till. snemma á þessum vetri, og þá sagði hæstv. forsrh., að það væri verið að vinna að henni og Skagaströnd væri langt komin. Skagaströnd er ekki allt kjördæmið. Ég spurðist fyrir um það í Framkvæmdastofnuninni fyrir nokkrum dögum. hvort Skagaströnd væri búin. Nei. aldeilis ekki, það er alveg verið að ljúka við hana. Hæstv. forsrh. spáði því í haust, að það mundi taka ár. Með þessu áframhaldi sýnist mér, að þetta muni taka 10 ár. Ég get þess vegna ekki séð annað en það muni vera hagkvæmara fyrir kjördæmið að vinna að þessum málum sjálft með sínum landshlutasamtökum á móti Framkvæmdastofnun ríkisins.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson gefur sér þá forsendu, að íbúar kjördæmisins vilji þetta ekki. Hvernig veit hann það? Það er alveg bjargföst trú okkar a.m.k. margra þm. úr kjördæminu og líklegast flestra eða allra, að það sé rétt að gera þetta. og það sem meira er. við höfum fengið tvímælalausar ábendingar frá sveitarstjórnarmönnum í kjördæmunum, að þetta verði gert. Þess vegna höfum við borið þetta fram. Hitt er svo annað mál, og því hef ég alltaf haldið fram, að ég álít, að þessi kjördæmi eigi með einhverjum hætti að vinna sterklega saman að mörgum málum. sem varða bæði kjördæmin, og það á við um, fleiri kjördæmi. Það getur vel verið, að það sé hægt að hugsa sér, að t.d. Vesturland og Vestfirðir gætu unnið saman að ýmsum málum, og þá á ég bæði við vegamál og ýmislegt annað. Og ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að þetta gæti einnig gerzt fyrir norðan. En ég sé heldur ekkert því til fyrirstöðu, að stofnuð séu sérstök landshlutasamtök fyrir Norðurl. v., m.a. til þess að vinna að áætlunargerðum og uppbyggingu atvinnulífsins og öðru því, sem slík samtök gera í kjördæmunum. Hv. síðasti ræðumaður var einmitt að lýsa því, hvað landshlutasamtök Austurlands hefðu gert hér mikið átak, Suðurlandið vitum við um, en svo kemur hv. 4. þm. Norðurl. e. og fer að predika fyrir okkur, að það sé verið að taka sjálfræði af okkar umbjóðendum. Ég fyrir mitt leyti a.m.k. þori alveg að standa andspænis mínum umbjóðendum og veit, að þeir eru sammála því, sem ég var að segja hér. Og mér finnst satt að segja, að þessi hv. þm. ætti að lofa okkur að fást við þessi mál sjálfum, en vera ekki að ganga þarna fram fyrir skjöldu. Þar að auki efast ég um, að allir í eystra kjördæminu séu endilega sammála um, að ekki megi gera þetta.