17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3745 í B-deild Alþingistíðinda. (3389)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Umr. um utanríkismál, sem fóru fram hér í þingsölunum í gær, leiddu í ljós, sem í raun og veru var vitað áður, verulegt sundurþykki um það, hvort senda ætti málflytjanda til Haag eða ekki. Svo virðist sem stærri stjórnarandstöðuflokkurinn og einn ráðh. í ríkisstj., sem upplýsti, að það væri sinn eindreginn vilji að senda mann til Haag, hafi m.ö.o. allt aðra afstöðu en mótaða stefnu ríkisstj. í þessu máli. Það er mín skoðun, að það sé knýjandi þörf á því að ganga úr skugga um vilja Alþ. í þessu efni, þar sem einungis órofa samstaða og einhugur getur leitt til fullnaðarsigurs í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Því miður er það þannig, að blöð stjórnarandstöðunnar halda uppi látlausum áróðri og reyna á þann hátt að skapa sundurþykkju og deilur í þessu viðkvæma máli. Ég tel, að það sé mjög óheppilegt, ef svona heldur áfram. Af þeim sökum hef ég lagt fram hér þáltill., sem er vissulega of seint fram komin, til þess að hún geti komizt á dagskrá þessa fundar. En þar sem ég tel, að það sé varla stætt á því, að þinglausnir fari fram, án þess að afstaða sé fengin í þessu máli, vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að þetta mál verði tekið á dagskrá þessa fundar og hann góðfúslega leiti þá afbrigða fyrir því, að svo geti orðið.