17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3755 í B-deild Alþingistíðinda. (3396)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og þm. hafa heyrt á orðum hæstv. forsrh., segir í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins, að áætlanir skuli sendar ríkisstj. til samþykktar og geri hún Alþ. grein fyrir þeim. Ríkisstj. skal gefa Alþ. árlega skýrslu um starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins. Framkvæmdastofnunin fylgist með framkvæmd þeirra áætlana, sem ríkisstj. hefur samþykkt. Áætlanir til lengri tíma en eins árs skal stofnunin endurskoða, eftir því sem tilefni gefst.

Nú hefur hæstv. forsrh. gefið þessa skýrslu hér á síðustu starfsklukkustundum Alþ., lesið hana hér upp og viðurkennt, að það væri erfitt fyrir þm. að fylgjast vel með lestri svo langrar og á margan hátt flókinnar skýrslu og því sé það ætlunin að gefa þessa skýrslu út ásamt reikningum Framkvæmdastofnunar ríkisins og deilda hennar. Þetta er allt gott og blessað. Þá kemur að því, að hér á að gefa árlega skýrslu, sem er . gefin með þessum hætti, og ef það hefur ekki verið nokkur möguleiki á að gefa þessa skýrslu fyrr og útbýta henni hér á Alþ., þá er þetta eitt af mörgu, sem bendir til þess, að of mikið kapp er á það lagt frá hendi hæstv. forsrh. og ríkisstj. að losna við Alþ. fyrir páska. Þetta er eitt dæmi af mörgum um það, hvað hefur verið lögð mikil áherzla á að losna við þingið, sennilega til þess að hafa meira næði til stjórnarathafna. Það má kannske segja og þó alveg sérstaklega eftir darraðardansinn, sem var hér í þingi í gær, að það sé léttara og kannske viðráðanlegra, að þeir glími 7, en að hafa 60 hér innandyra.

Eins og e.t.v. flestum þm. mun vera kunnugt, þá er 9 manna stjórn í Framkvæmdastofnuninni, og er ég einn af þeim níu, sem þar eiga sæti, og á síðasta fundi, sem haldinn var 10. apríl, voru lögð fram frumdrög að ársskýrslu stofnunarinnar, og gerði einn af framkvæmdaráðsmönnum í stuttu máli grein fyrir þessari skýrslu, og forstöðumaður áætlunardeildar rakti síðan efniságrip hennar og gerði grein fyrir, á hvern hátt efninu var raðað niður. Á þessum fundi urðu nokkrar umr. um skýrsluna, þar sem kom fram samhljóða álit stjórnarinnar um, að skoða bæri hana sem faglega skýrslu á ábyrgð framkvæmdaráðsins og forstöðumanna deilda stofnunarinnar, en ekki sem skýrslu stjórnarinnar. Því fór engin atkvgr. fram á stjórnarfundi, en hins vegar var það sameiginlegt álit stjórnarmanna, að skýrslan yrði sýnd í stofnuninni, þegar hún væri tilbúin, þó að hún væri gefin út á ábyrgð framkvæmdaráðs. Þetta höfum við í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar ekki fengið, a.m.k. ekki ég, — ég hef ekki fengið að sjá eða heyra heildarskýrsluna fyrr en nú í upplestri hæstv. forsrh. Þetta út af fyrir sig er einn kafli í vinnubrögðum, sem eru ekki upp á það allra bezta.

Eins og fram kemur í skýrslu þeirri, sem hæstv. forsrh. las upp, er Framkvæmdastofnuninni skipt í deildir. Í fyrsta lagi er um að ræða hagrannsóknadeild, sem annast nauðsynlegar rannsóknir til undirbúnings áætlanagerða stofnunarinnar, gagnasöfnun og skýrslugerð um framkvæmd þeirra áætlana, sem gerðar hafa verið og samþ. af ríkisstj. hverju sinni. Þessi deild annast gerð þjóðhagsreikninga og almennra þjóðhagsáætlana. Það er stefnt að því, eins og hefur í raun og veru verið gert á undanförnum árum, að þessar áætlanir verði gerðar til langs tíma um þróun þjóðarbúsins. Þessi deild er alveg sjálfstæð innan stofnunarinnar og heyrir undir ríkisstj. og er henni til ráðuneytis í efnahagsmálum, en er ekki háð Framkvæmdastofnuninni að öðru leyti. Mér er bæði ljúft og skylt eins og öllum öðrum, sem eitthvað hafa komið nálægt þessum störfum, að meta það, að þessi deild og eins Efnahagsstofnunin á sínum tíma hafa verið mjög mikilvægar í sambandi við áætlanagerð, og þegar ég lít á þær breytingar, sem urðu með tilkomu Framkvæmdastofnunar ríkisins, get ég ekki sagt fyrir mitt leyti, að ég telji, að breyting á þessari starfsemi hafi orðið mjög mikil. Áætlanagerð á Íslandi er tiltölulega ung að árum, miðað við, að hún var tekin upp með stofnun Efnahagsstofnunarinnar á sínum tíma. Hún þróaðist þar og þar náðu starfsmenn þessarar stofnunar mjög góðum árangri. Sú þróun hefur haldið áfram með tilkomu Framkvæmdastofnunar ríkisins, því að í raun og veru hefur ekki orðið nein stórbreyting hvað snertir þennan þátt efnahagsmála.

Það, sem fyrst og fremst var gert með tilkomu Framkvæmdastofnunar ríkisins, var að færa saman undir eina stjórn áætlanadeild, sem er nú, eins og ég sagði áðan, tvær sjálfstæðar deildir: hagrannsóknadeild og áætlanadeild, og svo aftur að færa saman lánadeild, sem er þriðja deildin innan Framkvæmdastofnunar ríkisins, og undir hana heyra bæði framkvæmdasjóður og byggðasjóður. Þessir sjóðir voru báðir til, áður en þessi stofnun var til, og starfsemi þeirra og hlutverk er samkv. lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins mjög svipað því, sem áður var. En sá er munurinn, að framkvæmdasjóðurinn var undir sjálfstæðri, þingkjörinni stjórn, sem hafði með þessi mál að gera, en Seðlabanki Íslands hafði aftur með starfsemi og skrifstofuhald fyrir þennan sjóð að gera. Atvinnujöfnunarsjóður var einnig sjálfstæður sjóður með sjálfstæðar tekjur og sjálfstæðar lánveitingar, og honum og hans lánveitingum stjórnaði 7 manna þingkjörin stjórn. Þessi sjóður gegnir nákvæmlega sama hlutverki innan Framkvæmdastofnunarinnar og áður, að öðru leyti en því, að hann heitir nú byggðasjóður í staðinn fyrir atvinnujöfnunarsjóður, en er undir einni og sömu stjórn.

Í sjálfu sér hefðu ekki risið neinar stórdeilur um að færa þessa sjóði og þessar stofnanir saman undir eina og sömu stjórn, sem væri með svipuðum hætti og áður var, þingkjörin stjórn. En það, sem vakti sérstakar deilur um þessa stofnun og hefur haldið áfram, var það óheillatiltæki núv. hæstv. ríkisstj. að setja inn í þessi lög, að ráðnir skyldu 3 pólitískir framkvæmdastjórar, sem kallast framkvæmdaráð þessarar stofnunar, og það var haft með þeim hætti, að hver stjórnarflokkur fyrir sig tilnefndi þar einn mann. Ég tel, að sú reynsla, sem hefur fengizt af þessari svokölluðu framkvæmdastjórn, fari fullkomlega og jafnvel meira en það eftir því, sem við héldum fram, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, þegar þetta frv. var hér til umr. Hins vegar lýstum við því þá yfir og töldum eðlilegt og sjálfsagt, að það væri einn forstjóri fyrir þessa miklu stofnun, og þá auðvitað lá í hlutarins eðli, að ríkisstj. hafði öll tök á því, hver sá maður yrði, sem þar yrði fyrir valinu. Ég hygg, að flestir séu sammála um, að það hefði verið ólíkt skynsamlegra og hefði verið eðlilegra, að undirbúningur að afgreiðslu mála hefði komið frá hlutlausum og ágætum starfsmönnum og forstöðumönnum þessarar deilda til Framkvæmdastofnunarinnar, en þau þyrftu ekki að þvælast í gegnum þriggja stjórnarflokkakerfi, þar sem jagazt væri og metizt um einstakar lánveitingar og listi yfir umsóknir, sem liggja fyrir, ekki lagður fyrir stjórnina, fyrr en eftir dúk og disk. Það get ég nefnt dæmi um, ef einhver óskar eftir því, ef einhver kemur til með að véfengja þessi orð mín hér á eftir .

Hæstv. forsrh. sagði í lok sinnar ræðu, að hann hefði litið svo á, að hér þyrfti að koma einhver reynsla á, en hann væri sem sagt opin fyrir því, ef það sýndi sig að reynast ekki vel, að gera breytingu hér á. Hann las aðeins skýrslu, sem hann fékk í hendurnar, en mér fannst vanta mikið í hans ræðu, að hann lýsti ekki neinni skoðun, lýsti ekki skoðun sinni á því, hvort hann væri ánægður með þetta fyrirkomulag, sem tekið var upp með lögfestingu Framkvæmdastofnunar ríkisins, og þá jafnframt, hvort hann teldi eðlilegt að gera hér breytingu á. Ég er þeirrar skoðunar, og mér er alveg ljóst, að sú skoðun er almennt ríkjandi hjá þm. stjórnarliðsins, hvort sem menn vilja kveða upp úr með það hér í ræðustól eða ekki, að hér hafi ekki tekizt vel til og væri nauðsynlegt að breyta aftur í það form, sem kom fram í sambandi við umr. um þessa stofnun. Mér er líka bæði ljúft og skylt að geta þess, að það hefur margt verið unnið vel í þessari stofnun, sérstaklega hvað snertir áætlanadeild og hagrannsóknadeild, og störf starfsmanna lánadeildar eru ákaflega vel unnin. Þeir menn, sem þar eru við störf, hafa gengt þessum störfum prýðisvel. Og við stjórnarmenn höfum, hvort sem við erum stjórnarstuðningsmenn eða í stjórnarandstöðu, enga ástæðu til þess að setja út á störf þeirra manna, sem þarna hafa verið valdir. Það er aðeins þetta þunglamalega og leiðinlega kerfi, sem við erum fyrst og fremst að gagnrýna, hver einasta umsókn um lán þurfi að fara í gegnum pólitískt nálarauga, eins og á sér stað, og það er þetta kerfi, sem við sjálfstæðismenn leggjum höfuðáherzluna á og skorum mjög eindregið á hæstv. ríkisstj. að breyta aftur í það form, sem tíðkast yfirleitt í lánastofnunum hér á landi.

Í sambandi við framkvæmdaáætlun ríkisstj. sagði hæstv. fjmrh., þegar hann lagði fram áætlun um opinberar framkvæmdir á s.l. ári, sem fram var lögð 5. maí 1972, að þessi áætlun væri mjög seint á ferðinni, og hann bað Alþ. velvirðingar á því, hvað þetta væri allt síðbúið, en það stafaði af því, að hin nýja stofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, sem væri að taka við, hefði ekki hafið starfsemi sína fyrr en síðla í sept. það ár, en með framkvæmdaáætlun fyrir árið 1973 mundi verða um allt önnur vinnubrögð að ræða, þá yrði allt til áður en árið byrjaði, m.ö.o. það yrði stefnt að því að gera allan þennan undirbúning að hausti til, þannig að það væri hægt að afgreiða frv. um framkvæmdir ríkisstj. með afgreiðslu fjárlaga og þá jafnframt að leggja fyrir áætlun um stofnlánasjóðina og fjáröflun til þeirra. Hæstv. fjmrh. stóð við það að leggja frv. um opinberar framkvæmdir fyrir snemma á þessu þingi eða á s.l. hausti. En þá vantaði allar upplýsingar. Það vantaði allt, sem þurfti að vera með, hvernig átti að fjármagna stofnlánasjóðina og sömuleiðis endurskoðun á þessum framkvæmdum, og svo vita allir þm. um þá raunasögu, sem varð í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, þegar ríkisstj. þurfti að afla sér heimildar til að lækka fjárlagaliði sérstaklega til verklegra framkvæmda, og það er allt saman enn þá í lausu lofti.

Þessi siðbúna áætlunargerð gerir það að verkum, að bæði einstaklingar og fyrirtæki í félagsrekstri, sem og opinberar framkvæmdir, allir eða mjög margir vonast til að geta farið í framkvæmdir, aðrir verða svo fyrir vonbrigðum, en þeir, sem eiga að fá að fara í framkvæmdir, fá í raun og veru ekkert enn að vita. Hæstv. forsrh. minntist á hraðfrystihúsaáætlunina, og ég skal ekki gera hana að umtalsefni hér, það verður væntanlega tækifæri til þess síðar. En þá kemur í ljós, að þeir, sem eru byrjaðir með framkvæmdir á grundvelli þessarar áætlunar og fyrri áætlana, vita ekki enn í dag, hvort þeir fái lán til þessara framkvæmda á þessu ári eða ekki. Það geta allir skilið, hversu vont það er og óhagstætt fyrir fyrirtæki að vita ekki, þegar komið er langt fram í aprílmánuð, hvort það verður lánað til framkvæmda á þessu ári eða ekki.

Sama er að segja um flestallar opinberar framkvæmdir, að menn vita alls ekki um það, þó að þeir hafi fjárlög fyrir framan sig, hvaða framkvæmd verður skorin alveg niður, hvaða framkvæmd heldur þeirri upphæð, sem er á fjárlögum, eða hvaða framkvæmd verður skorin niður eitthvað lítillega. Um þetta er ekki hægt að fá neina vitneskju enn, og Alþ. fer svo heim án þess að vita neitt um, hvernig niðurskurði fjárlaga verður háttað. Mér er kunnugt um það, að ein hafnarframkvæmd, tiltölulega ódýr hafnarframkvæmd, sem var á fjárlögum á s.l. ári, var skorin niður s.l. haust, og fékkst ekki leyfi til að fara út í þá framkvæmd. Þessa sömu framkvæmd tók fjvn. upp í fjárlög fyrir árið 1973 eða 75% af þeirri áætlun, sem lá til grundvallar frá hafnamálastjórninni. Nú, um miðjan apríl, segir hafnamálastjóri við forustumenn þessa sveitarfélags, að hann viti ekkert enn þá, hvort verði leyft að fara í þessa framkvæmd eða ekki. Svo kannske þegar komið er fram á mitt sumar, á að leyfa þessa framkvæmd og banna aðra. Hvar á þá að taka vinnuafl, fá menn til þess að vinna að þessum framkvæmdum? Þeir bíða ekki eftir svari, eins og nú er háttað í þjóðfélaginu; þar sem barizt er um vinnuaflið. Þrátt fyrir alla þá skipulagningu, sem mikið var gumað af í byrjun valdatímabils þessarar ríkisstj., er hún þannig í raun og veru ekki komin lengra áleiðis en þetta. Unnt væri að benda á margfalt fleiri dæmi, sem yrði of langt mál upp að telja. Þó get ég ekki stillt mig um að nefna það, að í vegáætlun, sem Alþ. afgreiddi á s.l. ári, fyrir 1972-1975, er tekin inn Norðurlandsáætlun, vegafé til hennar, 120 millj. kr. á s.l. ári. Þessu fé var skipt í Norðurlandsáætlun, en í áætlun fyrir næstu 3 árin er reiknað með til Norðurlands í vegamálum á þessu ári 150 millj. kr., á næsta ári 175 millj. kr. og árið 1975 175 millj. kr. Nú var það ætlunin, að Framkvæmdastofnun ríkisins eða stjórn hennar skipti þessu fjármagni til vegamála og annarra samgönguþátta í Norðurlandsáætlun. Og nú spyr ég þá, sem mest hafa gumað af skipulagningu, hvort þeim finnist ekki vera anzi síðbúið að fara að skipta þessu, þegar á að fara að vinna verkin eftir öllum eðlilegum ummerkjum, og hvenær á þá að undirbúa vinnuna við hina einstöku vegi, hafnir og flugvelli, sem hér er um að ræða. Ég tel, að hér sé eitt dæmi þess enn, hve þetta er allt saman á eftir og hvað skipulagningin er í raun og veru afar léleg.

Hæstv. forsrh. gat um starfsemi og lánveitingar úr bæði framkvæmdasjóði og byggðasjóði, og ég ætla því ekki að fara að þreyta menn með því að fara að endurtaka það. Þó vil ég geta þess, að samþykkt lán til fiskiskipa fyrir tilstuðlan ríkisstj. samkv. hinum svonefndu sjálfvirku reglum, sem giltu fyrir árin 1971 og 1972, námu samtals 272 millj. kr., til nýsmíði báta 10% lán og til nýsmiði skuttogara 10% lán og svo 5% lánin. Ekki er sérstök fyrirgreiðsla vegna skuttogarakaupa í þessu dæmi. Fjárútvegun frá ríkisstj. nam ekki nema 70 millj. kr., svo að vegna þessara sjálfvirku reglna og þeirra reglna, sem ríkisstj. ákvað sjálf, vantaði 202 millj. kr. til byggðasjóðs um síðustu áramót.

Hæstv. forsrh. gat um í upplestri skýrslunnar, að lán og styrkir úr byggðasjóði á árinu 1972 hefðu numið 480,4 millj. kr., sem er alveg hárrétt tala. Þar af voru lán til nýsmíði fiskiskipa og kaup á notuðum skipum, sem giltu fyrir landið allt, alveg án tillits til búsetu, 297,7 millj. kr., svo að eftirstöðvar af því, sem byggðasjóður hafði til að lána á s.l. ári, námu 182,7 millj. kr. Skipting á þessu lánsfé, sem ekki var háð sjálfvirku reglunum, var þannig eftir kjördæmum, að Vesturlandskjördæmi fékk 24,3 millj. kr., Vestfjarðakjördæmi 23,3 millj. kr., Norðurl. v. 30,5 millj. kr., Norðurl. e. 45 millj. kr., Austfirðir 48,7 millj. kr. og Suðurl. 14,8 millj. kr.

Um skiptingu á lánum byggðasjóðs er auðvitað ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir og segja, hvað er rangt og hvað er rétt í þeim efnum. Það getur verið eðlilegt að veita mikið fé annað árið í tiltekin byggðalög, en aftur minna hitt, það fer eftir því hvernig atvinnuástand er og hvernig stendur með uppbyggingu atvinnuvega, sem nauðsynlegt er að byggja upp, svo að það er auðvitað aldrei til ein endanleg eða sanngjörn lausn á þessu máli, og um þessa skiptingu eða skiptingu lána almennt úr þessum sjóði má auðvitað endalaust deila.

Þegar við tökum tillit til þess, að lánveitingar framkvæmdasjóðs námu 1.348 millj. kr., en lánveitingar byggðasjóðs, heildarlánveitingar með lánum til fiskiskipanna, námu 480 millj. kr., verðum við að gera okkur grein fyrir því, að af lánveitingum framkvæmdasjóðs eru 95 millj. kr. lán til byggðasjóðs og svo aftur, að ríkissjóður fékk á því ári 594,6 millj. kr. og stofnlánadeild landbúnaðarins var næst með 200 millj. kr., en síðan kom ríkissjóður, sem tók lán vegna Austurlands- og Norðurlandsáætlunar 178 millj. kr. Þetta voru langstærstu liðirnir.

Hæstv. forsrh. gerði nokkra grein fyrir sundurliðun á rekstrarkostnaði Framkvæmdastofnunar ríkisins á árinu 1971. Þá var heildarkostnaður við rekstur þeirra þriggja stofnana, sem voru sameinaðar undir Framkvæmdastofnun ríkisins, samtals 20 millj. 840 þús., en rekstrarkostnaður Framkvæmdastofnunarinnar á hennar fyrsta ári, árinu 1972, nam 32 millj. 817 þús. kr. Þar af voru laun og launatengd gjöld 25 millj. 855 þús. Auk þessara 32,8 millj. kr. var stofnkostnaður rúmar 7 millj. Það voru breytingar á húsnæði og skrifstofuáhöld, gluggatjöld og gólfteppi og þess háttar upp á 7 millj., þannig að rekstrarkostnaðurinn nam 32,8 millj. kr. á s.l. ári, en fært á stofnkostnað 7 millj. kr. Heildarkostnaðurinn, rekstrarkostnaður og sú upphæð, sem færð var á stofnkostnað, nemur 39 millj. 818 þús. kr. Þetta eitt sýnir, að þessi stofnun hefur þurft miklu meira fé til sinnar starfsemi en þeir sjóðir og stofnanir, sem áður gegndu þessu hlutverki. Hins vegar skulum við vera sanngjarnir í því að láta það koma fram, að auðvitað hefur orðið töluverð hækkun á vinnulaunum, hækkun á öllum rekstrarkostnaði, en þó hefur það engan veginn náð þeirri 60% hækkun, sem orðið hefur á rekstrarkostnaði, fyrir utan þær 7 millj. kr., sem eru færðar á stofnkostnað.

Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði verið tekið á s.l. ári erlend lán til Norðurlands- og Austurlandsáætlunar frá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, sem nam 179 millj. kr., miðað við þáv. gengi, og aftur er ætlunin að taka lán hjá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins. Þetta er sjóður, sem er gamalkunnur og þekktur og hefur mjög oft komið til umræðu hér á Alþ. og sér í lagi í því kjördæmi, sem naut fyrstu lánanna frá honum, að þar var þetta fast umræðuefni á hverjum þingmálafundi í nokkur ár, eða frá því að sú samgönguáætlun, sem þar var unnin, hófst og alveg til loka hennar og meira að segja töluvert eftir það. En það verður kannski dálítið erfitt fyrir suma að sætta sig við nafnið á þessum sjóði, að kalla hann viðreisnarsjóð Evrópuráðsins, því að þeim var orðið svo tamt að kalla þennan sjóð, sem lánaði þetta fé, flóttamannasjóð. Og þeim fannst það mjög niðrandi fyrir hina stoltu íslenzku þjóð að taka lán frá svona „simplum“ sjóði, sem hét flóttamannasjóður í þeirra munni og hugsun, og áttu ákaflega erfitt með að sætta sig við þær framkvæmdir, sem unnar voru fyrir fé úr þessum „simpla“ sjóði. Við hinir, sem samþykktum að taka lán úr þessum sjóði, höfum kallað hann frá byrjun viðreisnarsjóð Evrópuráðsins, og við munum ekkert breyta því nafni, þó að breytt hafi verið um stjórn og það sé tekið nú lán úr þessum sama sjóði. En þetta eitt sýnir, að menn eiga ekki að snúast gegn framkvæmdum eða snúast gegn því að taka lán til nauðsynlegra framkvæmda, ef þeir eru í stjórnarandstöðu. Nú verða þessir sömu menn að sætta sig við þetta. Það er auðvitað ekkert sjálfsagðara en að sem flestir landsmenn fái að njóta fjármagns úr bæði þessum sjóði og öðrum til uppbyggingar í sínum landshlutum.

Það er mjög ánægjulegt til þess að vita, að framkvæmdir hafa verið miklar á undanförnum árum í samgöngumálum og í atvinnulífi víðast hvar um landið. Þessum framkvæmdum er haldið áfram. Hins vegar er það, sem hefur verið deilt á, hvort það hafi ekki verið gengið of langt, þegar orðinn er tilfinnanlegur skortur á vinnuafli. Hefur það komið hér fram margoft í umr., að það hlýtur að vera ríkisstj. og Alþ. áhyggjuefni. Þegar skortur er á vinnuafli við framleiðsluatvinnuvegina, verður auðvitað einhvers staðar að spyrna við fæti, til þess að allt fari ekki úr skorðum.

Eins og ég sagði áðan, er unnið að hinum ýmsu áætlanagerðum í Framkvæmdastofnuninni eða áætlanadeild, og þar hefur verið unnið að mínum dómi mjög mikilvægt starf. Einstaka áætlun hefur verið unnin með aðstoð annarra, og ég vil mjög eindregið fyrir mitt leyti styðja þessa áætlanagerð og tel hana mjög mikilsverða, bæði þá áætlanagerð, sem unnin er innan áætlanadeildarinnar sjálfrar, og sömuleiðis þá áætlanagerð, sem unnin er af t.d. landshlutasamtökum og öðrum með aðstoð þeirra fyrirtækja, sem vinna að áætlanagerð. Ég tel, að allar þessar áætlanagerðir og kostnaður við þær eigi auðvitað að heyra undir Framkvæmdastofnun ríkisins.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég fagna því, sem hæstv. forsrh. sagði, að hann ætlar að sjá um það, að þm. verði send þessi skýrsla. Jafnframt sagði hann, að það gæfist kostur á því að taka hana síðar til umræðu, og þá verða hann og hans skoðanabræður, sem standa að núv. ríkisstj. sjálfsagt búnir að gera það upp við sig, hvort það er ekki þörf á því að gera nokkrar breytingar á starfsemi og stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins. Ég efast ekki um, að ef hann setur sig inn í þau mál, komist hann á mjög svipaða skoðun og ég hef hér lýst.