17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3788 í B-deild Alþingistíðinda. (3404)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að segja nokkur orð, sem mætti segja, að væru að nokkru leyti þakkarorð fyrir góðar undirtektir við það, sem ég sagði hér áðan í sambandi við Suðurlandsáætlunina. En um leið vildi ég aðeins hrekja það, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan, að það væri á misskilningi byggt hjá mér, að sá kostnaður, sem talinn er hjá Framkvæmdastofnuninni 1972, væri ekki hærri, ef miðað væri við það, að stofnunin hefði starfað heilt ár í því formi, sem hún nú er. Til þess að sannfærast um þetta væri eðlilegt, að hv. 4. þm. Norðurl. v., formaður Framkvæmdastofnunarinnar, gæfi upp kostnaðinn fyrir síðasta ársfjórðung ársins 1972 og kostnaðinn fyrir fyrsta ársfjórðung á þessu ári. Þá mætti sjá með tö1um og með rökum, sem ekki verða hrakin, hvort það var rétt, sem ég hélt fram áðan, eða hvort það var aðeins misskilningur hjá hv. formanni, sem hann sagði, og það, sem hann fullyrti. Ég er anzi hræddur um, að svo hafi verið, og ég held, að það hafi verið miklu fleira af misskilningi sagt í hans ræðu hér áðan, þegar hann var að tala um föstu tökin og þegar hann var að tala um þær miklu framfarir, sem orðið hafi í áætlunargerð og ýmsu, eftir að Framkvæmdastofnunin tók til starfa. Ég held satt að segja, að það hafi verið hægt að vinna þessi störf, sem Framkvæmdastofnunin hefur haft með höndum, í þeim stofnunum, sem voru starfræktar, með miklu minni kostnaði og minna brambolti heldur en Framkvæmdastofnunin. En ég sagði hér áðan, að ég ætlaði ekki að ræða um Framkvæmdastofnunina að þessu sinni, vegna þess að við höfum ekki fengið í hendur þau gögn, sem við getum byggt okkar ræður á. En við höfum heyrt nægilega mikið til þess að fá nokkurn veginn staðfestingu á því, að það er margt, sem þarf að breyta í sambandi við löggjöf og framkvæmd þessarar stofnunar.

Ég gerði Suðurlandsáætlunina að umtalsefni hér í dag og ræddi þá nokkuð það missætti, sem hefur orðið á milli sveitarstjórnasambands Suðurlands og Framkvæmdastofnunarinnar. Ég er reiðubúinn til þess að segja, að það sé aðeins misskilningur, sem þar hafi átt sér stað, og einmitt þess vegna geti aftur orðið fullar sættir með þessum aðilum. Framkvæmdastofnunin hefur samþykkt þau vinnubrögð, sem sveitarstjórnasamband Suðurlands hefur haft. Það hefur ekkert verið gert í sambandi við áætlunargerðina öðruvísi en í samráði við og með vitund Framkvæmdastofnunarinnar. Þess vegna er það, sem ég er sannfærður um, að ekki skapast neinn ágreiningur um, hvort kostnaðurinn við þessa áætlunargerð eigi að greiðast eða ekki. Og ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir það, sem hann sagði hér í kvöld í sambandi við þetta. Hann sagði, að ef þessi áætlun um framkvæmdaáætlun Suðurlands verður unnin eins og kröfur eru gerðar til, þannig að þetta verði fullkomin áætlun, þá ætlar hann, hæstv. forsrh., að beita sér fyrir því, að kostnaður verði greiddur, eins og hann hefur áhrif til. Þetta finnst mér drengilega mælt, og þetta met ég mikils. Ég er sannfærður um, að ef hann verður forsrh. í haust, þegar áætlunin verður gerð og till. gerðar um fjáröflun, þá munu hans áhrif verða mikil í þessu. Það er ekki um annað að ræða heldur en gera áætlun eins og fyllstu kröfur eru gerðar til. Undirstaðan hefur verið lögð í samráði við Framkvæmdastofnunina, og þess vegna hefur verið rétt að þessu unnið.

Það er rétt, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan, að enn er áætlunin ekki til. Það er búið að safna gögnum, sem eru forsenda fyrir því, að það geti orðið til áætlun. Og þessi gagnasöfnun er komin fram í bókarformi og er kölluð fyrri hluti áætlunarinnar. Hitt er svo ekki rétt, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan, að það hefði mátt spara mikið fé við gagnasöfnun Suðurlandsáætlunarinnar, ef öðru vísi hefði verið farið að. Þetta er ábyggilega á misskilningi byggt og stangast alveg í við rannveruleikann. Hvers vegna skyldi Framkvæmdastofnunin hafa samþykkt þessa aðferð sveitarstjórnarsambands Suðurlands við gagnasöfnunina, ef hún hefði verið unnin á óhagkvæman hátt? En svona misskilning hjá hv. þm. er vel hægt að fyrirgefa. Hans yfirlýsing var ekki eins afdráttarlaus og hæstv. forsrh. Hins vegar sagði þm., að það mætti vel taka til athugunar að greiða þann aukakostnað, sem á væri fallinn umfram það, sem Framkvæmdastofnunin hefur greitt á árinu 1972 og hún mun greiða á þessu ári og verður haldið áfram að greiða, eins og hv. þm. orðaði það. Hann sagði, að það mætti vel taka það til athugunar að greiða kostnaðinn. Það má vel vera, að það sé rétt hjá hv. þm. að orða þetta ekki sterkar en þetta. Ég tek þetta svo, að hans vilji sé fyrir hendi í þessu, og er það þá einnig mikils virði. — Þess vegna endurtek ég það, sem ég sagði hér í dag, að ég hef aldrei kviðið fyrir því, að þessi kostnaður yrði ekki greiddur. Ég hef ekki talið, að ágreiningurinn væri um það, heldur aðeins, hvenær hann yrði greiddur. Það má afsaka það, þótt Framkvæmdastofnunin borgi ekki allan áfallinn kostnað á þessu ári, ef fjárveiting er ekki fyrir hendi til þess. En þá þarf að muna eftir því að taka í fjárlög upphæð, sem nægir til þess að greiða áfallinn kostnað á næsta ári, því að það er allt of dýrt að bíða lengur eftir greiðslu. Það kostar vexti, og þá fara menn að verða óþolinmóðir, ef til þess kæmi.