17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3790 í B-deild Alþingistíðinda. (3405)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs hér í kvöld, var í fyrstu aðeins ætlun mín að leggja eina fsp. fyrir hæstv. forsrh., frekar en hv. þm., formann þeirrar stofnunar, sem hér hefur verið til umr. Hins vegar hafa mál þróazt þannig, að hér hafa komið fram margar athyglisverðar ekki aðeins upplýsingar, heldur og .fullyrðingar, sem ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um.

Sérstaklega fagna ég því, að hv. þm., sem hér talaði áðan, hv. 5. þm. Reykn., harmaði að svo væri komið í sambandi við störf þessarar stofnunar og byggðasjóðs, að dregin væri ákveðin lína í sambandi við veitingu lána. Ég fagna því, að hann skuli vera búinn að fá þá skoðun inn í sinn koll, að þetta sé hörmulegt fyrirbrigði, að slíkt geti skeð, og mætti kannske verða honum til varnaðar þegar hann er að draga ákveðnar línur í sambandi við veitingu veiðileyfa og hvernig hann eigi að skipta flota landsmanna til veiða við strendur landsins.

Minn ágæti flokksbróðir, hv. þm. Matthías Bjarnason, lætur ekki sitja við orðin tóm, þegar hann beitir sér fyrir því, að nokkur regla komist á um samskipti strjálbýlis og þéttbýlis. Nú er ég honum á margan hátt ákaflega sammála, þótt ég sé honum ekki á annan hátt sammála. Og þegar ég greip fram í fyrir honum, sem þm. hafa kannske ekki heyrt, — ég talaði um atvinnuleysi, og hann svaraði því, enda heyrði hann mitt framíkall, að atvinnuleysi væri ekki verkefni byggðasjóðs, það væri hins vegar verkefni atvinnuleysistryggingasjóðs að leysa úr því. Þetta má segja, að sé á nokkurn hátt rétt hjá honum, þegar um það er talað að bæta mönnum tekjumissi vegna atvinnuleysis. Hins vegar er það m.a. verkefni byggðasjóðs að fyrirbyggja atvinnuleysi með því að byggja upp atvinnufyrirtæki og atvinnurekstur bæði á vegum einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga, þannig að til þess þurfi ekki að koma, og þetta hefur einmitt verið eitt af meginverkefnum atvinnuleysistryggingasjóðs nú á síðustu árum. Leyfi ég mér að halda þessu fram, jafnvel þótt ég horfi hér framan í andlit hv. 3. landsk. þm., sem segir, að það sé einhver mafía, sem þar stjórni og fari ekki eftir neinum hagsmunum, hvorki verkalýðs né annarra. En ég vil halda því fram, að þessi sjóður eigi ekki síður að hafa þetta í huga í sínu starfi, og því tek ég undir það, sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson sagði, að það er auðvitað algerlega út í hött að ætla sér að fara að setja einhver slík mörk, eins og um hefur verið talað, vegna þess að við höfum haft þá reynslu nú á allra síðustu árum, að það hefur orðið hvað sárast atvinnuleysi einmitt hér á þéttbýlissvæðunum við innanverðan Faxaflóa. Því ber þessum sjóði eins og öðrum sjóðum, þegar slíkt ber að höndum í okkar litla þjóðfélagi, — hann á ekki að geta einskorðað sig við einhverjar ákveðnar byggðir — eins og aðrir sjóðir að koma til hjálpar öðrum byggðum í landinu. Hann verður auðvitað að taka til starfa og hjálpa til, þegar þannig stendur á. Ég álit, að þetta eigi ekki að vera neitt, sem heitir staðbundin ættjarðarást, hvorki hjá þessum sjóðum né einstökum þm., þegar þannig stendur á.

Þegar verið er að tala um stórfyrirtæki, sem hafa orðið til, eins og Straumsvík og Búrfell, að það hafi átt að draga úr fólksflótta með ráðstöfun fjár þess, ágóða og tollum og sköttum, sem frá þeim kæmi, þá álít ég, að nokkuð hafi unnizt þar með. Ég sé hins vegar ekki, hvar Búrfell ætti að valda fólksflótta. Það eru ekki mjög margir starfsmenn, sem þar vinna. Orkuverið verður hins vegar ákaflega stóru landssvæði að notum með þeirri orku, sem þaðan kemur. Og þannig mun auðvitað verða um þær virkjanir, sem eftir eiga að koma inná miðhálendinu, að það verður ekki mannfjöldinn á þeim stöðum, sem mun hafa einhver úrslitaáhrif. Hins vegar held ég og held því hiklaust fram, að það verði sú orka, sem frá þessum orkuverum kemur, sem mun hafa áhrif á þau byggðarlög, sem hún verður flutt til; þannig að það er ekki staðsetning orkuversins, heldur það, hvernig okkur tekst að flytja orkuna til þeirra staða, sem á henni þurfa að halda. Hitt get ég vel skilið, að bæði hann og aðrir þm., sem af Vestfjörðum koma, eru ekki á eitt sáttir um það, sem opinber stjórnvöld hafa gert í þessum efnum, þótt nokkuð hafi áunnizt nú á síðari hluta þings með því að samþykkja það, sem samþykkt var þá um virkjanir á Vestfjörðum. En ég held, að það þyrfti að gera miklu meira.

En þegar við erum að tala um þetta mál í sömu andrá og almenn byggðamál og vandkvæði byggða hér á landi, þá skulum við hafa það í huga, að það, sem talið hefur verið til gildis þessum byggðum víðs vegar um land, er framleiðsla útflutningsafurða, sjávarafurða og annarra slíkra afurða. Annað hvort í dag eða í gær var frá því sagt í opinberum málgögnum og fjölmiðlum, að hér á Suðvesturlandi vantaði 1.050 manns til þess að geta mannað þann bátaflota, sem stundar héðan veiðar. Ef sá bátaútvegur er talinn hættulegri byggðinni í landinu og gjaldeyrissöfnun og okkar útflutningi en í öðrum byggðum, þá tel ég það alls ekki rétt. Hins vegar mætti kannske segja, að þegar verið er að tala um það, að við eigum að byggja hús í mjög grónum og góðum útvegsbæjum, þar sem líka vantar fólk, eins og vantar reyndar til starfa í kringum allt land við okkar sjávarútveg, þá er auðvitað ekki verið að reikna með að fólk frá Reykjavík eða fjölbýlinu við Faxaflóa flytji í þau hús eða komi til vinnu við þennan atvinnuveg þar. Það er auðvitað verið að leita eftir fólki úr sveitunum í viðkomandi héruðum, að það fólk flytjist til þessara sjávarbæja til þess að vinna að sjávaraflanum. Það er þetta, sem nú er unnið að markvisst um allt land af þeim mönnum, sem stjórna sveitarstjórnarmálum á Íslandi. Það erum ekki við hér í Reykjavík, við höfum ekki óskað eftir fólksfjöldanum hér, þótt við getum vel nýtt hann í dag, bæði í sambandi við þau nýju skip, sem við höfum fengið, og eldri skip, en þó kannske sérstaklega okkar skip, sem landa afla sínum annars staðar og fá ekki að landa honum hér í Reykjavík af ástæðum, sem allir þekkja, og jafnvel ekki í landshöfnum, sem við höfum lagt fé, til þess að traustar væru.

Erindi mitt var ekki, eins og ég tók fram, herra forseti, að ræða þetta mál hér. Hins vegar var mitt ákveðna erindi að spyrja hæstv. forsrh. um það, hvort nokkur lagaheimild væri fyrir hendi, svo að stjórn þessa ágæta sjóðs og þeirrar ágætu stofnunar, sem við höfum verið að ræða um hér í kvöld, svo og þeir pólitísku kommissarar, sem hér hefur verið nokkuð lýst í ræðum ýmissa manna, hefðu nokkurt lagalegt leyfi til þess að gefa öðrum sjóðsstjórnum, jafnvel þingkjörnum sjóðsstjórnum, fyrirskipun um, hvernig þeir ættu að haga sínum lánum og sínum lánveitingum. Ég hef setið á þingi, frá því að þessi stofnun varð til, illu heilli, og ég leyfi mér að halda því fram, að hér sé um freklegt brot á öllu venjulegu velsæmi gagnvart Alþ. að ræða, þegar þeir leyfa sér að skrifa undir bréf til stjórnar atvinnuleysistyggingasjóðs, — en 4 af 7 mönnum í þeirri stjórn eru kjörnir hér á hæstv. Alþ., — þegar 3 kommissarar leyfa sér að skrifa til stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs ítrekað og segja: Við mælum með ákveðnu láni til ákveðins aðila, þó að því tilskildu, að atvinnuleysistryggingasjóður láni svo og svo stóra upphæð, ella sé, — svo má skilja orðalagið, — þetta lán ekki fyrir hendi. Það er verið sem sagt að setja þingkjörinni stjórn stólinn fyrir dyrnar með þeim samþykktum, sem þessir pólitísku kommissarar ríkisstj. eru þarna að gera. Og það er þetta, sem ég tel, að sé fyrir neðan allar hellur, þegar þeir fara að taka sér slíkt vald. Auðvitað má segja sem svo, að það sé okkur, sem erum í stjórn þessa ákveðna sjóðs, ekki til neinnar upplyftingar út á við að gangast undir slíkt jarðarmen, enda veit ég ekki, hvað lengi það verður gert af sumum mönnum, sem þar eru. En þar eins og annars staðar, þar sem pólitískar stjórnir eru, hefur verið leitast við að vega og meta mál á sanngjarnan hátt og þá að afgreiða þau án þess að vera með pólitískt nöldur, þótt sumir hv. þm. telji, að meðan pólitískir aðilar á Alþ., fulltrúar fjöldans eða fulltrúar þjóðarinnar, taki slíka stjórnun að sér, hafi þeir aldrei neitt annað í huga en sinn pólitíska flokk. En þetta er alrangt. Það er auðvitað horft á allt annað og miklu meira. En þetta er sem sagt mín spurning til hæstv. forsrh. Ef hann er ekki hér, þá veit ég, að alvitur hv. þm., formaður Framkvæmdastofnunarinnar, mun geta svarað þessu.

Herra forseti. Eins og ég tók fram áðan, er þetta erindi mitt hingað upp í ræðustól í kvöld, og ég skal ekki tefja umr. um þetta lengur, þótt ærnar ástæður hafi gefizt til að ræða það, sem fram hefur komið hér í kvöld.