18.04.1973
Neðri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3818 í B-deild Alþingistíðinda. (3460)

214. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða miklum tíma. Hæstv. ráðh. tók líka fram, nokkuð af því, sem ég hafði ætlað mér að segja, og þarf ekki að endurtaka það.

Það komu hér mótmæli fram í gær frá Pétri Sigurðssyni, hv. 10. þm. Reykv., en hv. þm. benti ekki á nein sérstök atriði, sem hann teldi að þyrfti að breyta. Sannleikurinn er sá, að við höfðum ákaflega nauman tíma, ég held, að þessu hafi verið vísað til n. á föstudag, og svo var fundur allan laugardaginn. Hins vegar virðist mér hv. 10. þm. Reykv. hafa verið dálítið fullyrðingagjarn, þegar hann fullyrti, að hvorki við í samgn. Nd.nm. í samgn. Ed. hefðum, lesið frv. Eðlilega vissi hv. þm. ekkert um þetta, og menn, sem eru svona hátt settir, mega ekki vera að fullyrða það, sem þeir vita ekki. Ég fór með frv. heim og held, að ég sé búinn að lesa það þrem sinnum, en ég get ekkert ábyrgzt um hina mennina:

Það er alveg rétt, sem var tekið fram af Sverri Hermannssyni, að hann var ekki á nefndarfundinum. Ég skal ekkert fullyrða um það, hvort nm. hafa lesið það eða ekki. En það er staðreynd, að ef menn ætla að lesa frv. eins og þetta, verða þeir að hafa það heim með sér og lesa það í næði. Á nefndarfundunum vill tíminn oft fara í mas, þannig að það er ekkert næði til að lesa frv. ítarlega.

Eins og ykkur er öllum kunnugt, er ég enginn fagmaður í siglingafræðum. En þetta frv. er samið af Jónasi Sigurðssyni, sem er skólastjóri stýrimannaskólans og kenndi hv. 10. þm. Reykv. hans fræði, svo að eðlilega ætti hv. þm. að bera virðingu fyrir læriföður sínum og alls ekki að þykjast honum snjallari að óreyndu. Ég skal ekkert fullyrða um það, en ég get vel gengið inn á það, að það þyrfti að gera meiri kröfur til náms bæði fyrir stýrimenn og skipstjóra og jafnvel vélamenn líka, ekki sízt þegar við erum að fá stærri skip með miklu flóknari og meiri tækjum en við höfum. En þó að við samþ. ekki þetta frv., breytir það engu. Það verða ekkert meiri kröfur gerðar til skipstjórnarmanna, þó að við samþ. ekki frv., og ekkert kennt meira í stýrimannaskólanum fyrir það. Og frv. er, eins og hæstv. ráðh. tók fram, til að samræma frv., sem við erum búnir að samþ. um kennslu í stýrimannaskólanum, og unnið af skólastjóranum með aðstoð annarra manna. (Gripið fram í.) Veit ég hvað? Að það sé samið af honum. Hann segir það í grg. Ég veit það, sem ég hef lesið. Ég er náttúrlega ekki alvitur, ég verð að lesa mér til, ef ég ætla að vita eitthvað. Kannske þessi hv. þm. viti hluti án þess að hafa kynnt sér þá. Ég er ekki svo vitur, ég verð að lesa mér til. Ég hélt yfirleitt, að við værum allir fæddir heldur fáfróðir og svo vissum við það, sem lífið kenndi okkur, mismikið náttúrlega; eftir þeirri aðstöðu, sem við höfum til að læra, og eftir námfýsi. Hvað sem þessu liður, sé ég ekki, að neitt sé unnið við þetta, en ég er sammála hv. 10. þm. Reykv. um, að það ætti að leggja meiri áherzlu á þetta. T.d. geta menn fengið skipstjóraréttindi á bátum innan við 30 tonn án þess að fara í skóla. Þeir verða að ganga undir próf. Og þetta getur verið mikið vafaatriði. Þeir geta sem sagt fengið kennslu utanskóla, en verða svo að ganga undir próf. Það er mikið vafaatriði, hvort ekki ætti að herða á þessu og gera meiri kröfur til þess arna. En þetta hefur verið svona, og þó að við samþ. ekki þetta frv., breytist það ekki til batnaðar. Það má líka vel vera, að það þyrfti að gera meiri kröfur til skipstjóra á stórum fiskiskipum. En þetta breytist ekkert, þó að við afgreiðum frv. ekki núna. Svo eru umsagnir. frá mjög hæfum mönnum, sem eru kunnugir þessum málum, og hæstv. ráðh. tók fram annað atriðið. Það er t.d. sameiginleg aths. frá báðum, sem svara þessu, frá Siglingamálastofnuninni og Farmanna -og fiskimannasambandinu, að í 16. gr. frv. er það orðað þannig: „Sá einn getur fengið skipstjórnarskírteini, á verzlunarskipi, sem: a) hefur staðizt skipstjórapróf 3. stigs frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík; b) hefur verið stýrimaður í 24 mán. á verzlunarskipi eða varðskipi yfir 100 rúmlestir og auk þess yfirstýrimaður í 12 mán. á verzlunarskipi eða varðskipi yfir 400 rúmlestir.“ Þarna er talað um, að maður geti fengið skipstjórnarréttindi án þess að hafa unnið á verzlunarskipi, ef hann hefur unnið á varðskipi. Báðir mennirnir gera aths. við þetta. Það væri ekkert því til fyrirstöðu, að við gerðum brtt. við þetta. Það þarf bara að fella niður eitt eða tvö orð, til þess að þetta breyttist. En það er enginn tími til að láta frv. fara aftur í Ed. En þó að við samþ. ekki frv., er þetta þannig í eldri lögum, þannig að það er ekkert unnið við það að samþ. ekki frv. vegna þessa ákvæðis. Og báðir mennirnir benda á þetta atriði.

Svo er talað um það af Ingólfi Stefánssyni, að það þyrfti að endurskoða þessi lög. Hann segir t. d.: „Þar sem ný lög um stýrimannaskólana koma til framkvæmda á þessu ári, ásamt breyttri námsskrá, þar sem krafizt er ákveðins lágmarksnáms til inntöku í skólana, ætti að veita svigrúm til aukins sérnáms skipstjórnarmanna. Leggjum við til, að lög um stýrimannaskóla og atvinnuréttindi skipstjórnarmanna verði endurskoðuð í heild, þegar betur eru í ljós komin áhrif nýgerðra skólalaga“.

Ingólfur Stefánsson leggur sem sagt til, að þetta sé endurskoðað allt sameiginlega, og ég efast ekkert um, að það sé réttmætt og viturlega mælt. Þá er ekkert óeðlilegt, að gerðar yrðu meiri kröfur og m.a. til ákveðins náms hjá mönnum, sem eru að taka skipstjórapróf á litlu bátana, því að það getur verið vandasamt að stjórna litlum bát engu síður en stórum bát. Ég hef oft talað um þetta við fiskiskipstjóra, síðast í dag, og þeir játuðu, að það gæti verið engu minni vandi að stjórna litlum bát. En það er ætlazt til, að þeir geti lært utanskóla.

Ég get vel fallizt á að gera meiri kröfur til náms vélstjóra og stýrimanna og skipstjóra, en það verður ekkert frekar gert, þótt þetta frv. verði ekki samþ. Það er gert til að samræma námið og réttindin, eins og þau eru nú. Eins og hæstv. ráðh. kom inn á áðan, lét hann að því liggja, að þetta mundi verða framkvæmt. Það kom líka frv. um ferðamál til okkar. Við höfum nauman tíma þar, og ráðh. bað okkur um að skila áliti inn í þingið. Við gerðum það. Svo varð samkomulag um það milli stjórnarandstöðunnar og ríkisstj., að það bíði, og auðvitað hef ég ekkert um það að segja. En þegar frv. koma svona seint, er ekkert þægilegt að koma með miklar brtt. eða vinna þetta ítarlega.

Einn af hv. þm. lét orð falla um það, — það er bezt, að ég svari fyrir hönd n., úr því að ég er kominn hér upp í pontu, — að við hefðum þrefaldað framlög til flóabátanna. Þetta er ekki rétt. Það var 20 millj. fyrir 2 árum, en nú er það 33 millj. Svo á að lækka það um 3 millj. kr., þannig að það verður um 90 millj. Ég náttúrlega ræð ekkert meiru í n. en hver annar nm., þannig að mér verður hvorki eignaður heiður né vanheiður af því, sem n. gerir. En þetta verða um 30 millj. kr. og af því fer helmingur til báta á Faxaflóa og Breiðafirði. Reikningslega séð munar það miklu, hvort það eru 20 millj. eða 30 millj. eða hvort þær eru þrefaldaðar, því að ef 20 millj. þrefaldast verða þær 60 millj. Sennilega kemur þetta af misminni, en ekki af því, að það skorti reikningshæfni, en ég vildi leiðrétta þetta samt. Þessi hækkun er tæpast fyrir því, sem verðlag hefur hækkað. Þó höfum við bætt inn ýmsum fjárveitingum, einkum til snjóbíla. Það skal ég játa, að ég hef fyrir mitt leyti ekki viljað vera á móti því. Þegar ekki er hægt að hafa viðunandi læknisþjónustu í héruðunum, er ekki þægilegt að neita fólki um að styrkja það til þess að hafa snjóbila, þannig að það geti komizt leiðar sinnar, þótt ófærð sé.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta meira og vona, að þm. afsaki það, þó að við höfum ekki getað unnið betur þessi frv., sem komu svona seint til okkar.