14.11.1972
Sameinað þing: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

44. mál, leiga og sala íbúðarhúsnæðis

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er á dagskrá stórmál, sem er till. til þál. um leigu og sölu íbúðarhúsnæðis. En hér hefur komið sérstakur þáttur inn í þessar umr., sem hv. 5. þm. Vesturl. kom fram með. Það er vegna beiðni samtaka skólanemenda. Um þá beiðni vil ég aðeins segja, að það er sjálfsagt af hv. Alþ. að taka þessa beiðni alvarlega, ekki einungis að tala um hana, heldur að framkvæma eitthvað raunhæft. Hv. þm. hafa nú orðið áheyrandi og aðsjáandi, hvernig þetta mál hefur verið tekið fyrir, eins og síðasti ræðumaður sagði, með nokkuð mismunandi blæbrigðum. Annars vegar er það upplýst, hvernig hv. síðasti ræðumaður og hv. 2. þm. Vestf. hafa brugðið skjótt við og komið með till. um raunhæfar aðgerðir. Hins vegar hafa menn orðið aðsjáandi og áheyrandi leiksýningar af hálfu 5. þm. Vesturl. Ég fjölyrði ekki um þetta. Ég legg það í dóm skólanemenda sjálfra, hvort þeir meta meir raunhæfar aðgerðir í þessu máli til lausnar vandamálum þeirra eða leiksýningu þá, sem hér fór fram. Og læt ég útrætt um þennan þátt.

Ég vík þá að tali og ræðu hv. flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, hv. 4. þm. Norðurl. v. Eins og ég sagði áðan, er hér um mjög mikið mál að ræða. Ég verð að segja, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með ræðu hv. flm., vegna þess að mér fannst eins og hann gerði sér ekki grein fyrir, — eða a.m.k. það kom ekki fram í tali hans, — hve umfangsmikið þetta mál er. Ég mun koma nánar að því. En áður finnst mér ástæða til þess að leiðrétta ýmislegt, sem hv. þm. sagði og ekki fær staðizt, er ekki í samræmi við staðreyndir. En ég skal ekki eyða löngum tíma í þetta né eltast við allt, sem e.t.v. væri ástæða til að gera. En mér finnst sumt lýsa nokkrum misskilningi eða fákunnáttu, og vík því sérstaklega að því.

Það segir t.d. í grg. með till. þessari, að hér á landi séu nú engin lagaákvæði um hámark húsaleigu. Þetta fær ekki staðizt og er a.m.k. ekki nákvæmlega rétt. Ef hv. þm. hefur ekki verið þetta ljóst, er fullkomin ástæða til að benda honum á, að það eru í gildi lög, sem banna hækkun húsaleigu í dag. Þessi ákvæði voru sett í lög nr. 94, 1970, um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis. Þetta er löggjöf, sem fyrrv. ríkisstj. stóð að. En löggjöfin þótti góð, svo sem kunnugt er, því að núv. ríkisstj. setti brbl. í júlí 1971 til þess að framlengja þessi lög til áramóta það ár. Og með I. nr. 94 frá 1971, um breyt. á l. um verðlagsmál, nr. 54 1960, voru sett ákvæði til bráðabirgða, sem framlengdu stöðvunarákvæðin frá 1970. Ef hv. þm. hefur verið búinn að gleyma þessu öllu, þá hefði hann kannske átt að taka eftir því, að félmrn. gaf út yfirlýsingu 10. apríl í ár til þess að undirstrika, að þessi ákvæði gilda enn. Það er naumast rétt að segja, að það sé engin ákvæði í lögum um hámark húsaleigu nú. Ég er ekki hér að dæma um, hvaða þýðingu þessi ákvæði hafa, ég læt það ósagt. En þau virðast hafa haft þýðingu frá sjónarmiði núv. ríkisstj., vegna þess að ákvæðin hafa verið framlengd tvívegis að tilhlutan ríkisstj.

Það væri ástæða til þess að fara nokkrum orðum um það, sem hv. frsm. sagði um húsnæðisl. frá 1943, breytingar á þeim og endalok þeirra, en ég sé ekki ástæðu til að skýra það nákvæmar en hann gerði, þó að það mætti að sjálfsögðu gera. Ég læt því þetta nægja um það, sem mér þótti ónákvæmt hjá hv. þm.

En það, sem vakti meiri vonbrigði hjá mér, var, að mér fannst ekki koma nægilega fram hjá hv. frsm. hið raunverulega eðli þessa máls. Hann talaði í einu orðinu um, að það þyrfti að setja heildarlöggjöf um leiguhúsnæði, og í hinu orðinu ræddi hann um málið, að því er virtist, á miklu þrengri grundvelli, þ.e.a.s. að setja sérstök ákvæði um hömlur varðandi leiguhúsnæði. En hér er um tvennt að ræða, að sjálfsögðu skylt, en samt grundvallarmismunur. Það er sjálfsagt og eðlilegt að setja almenna löggjöf um húsaleigu, — löggjöf, sem kveður á um réttarstöðu og viðskipti leigusala og leigutaka. Við höfum í dag enga slíka löggjöf í landinu, og við erum á eftir í því efni borið saman við flestar eða allar þær menningarþjóðir, sem okkur eru skyldastar. Það eru mörg ár og áratugir, síðan slík löggjöf var sett á hinum Norðurlöndunum. Það var einn færasti lögfræðingur Dana á sinni tíð, Vinding Kruse, sem vann sérstaklega að gerð þessarar löggjafar, og löggjöfin í hinum Norðurlöndunum mun vera sniðin eftir og samræmd við hina dönsku. En við hér höfum algerlega orðið eftirbátar.

Það er ekki svo, að mönnum hafi ekki komið í hug, að það þyrfti að setja slíka löggjöf hér á landi. Árið 1948 var borið fram á hv. Alþ. frv. til l. um slíka löggjöf. Það var stjórnarfrv., sem var vandlega undirbúið og viðamikið. Málið náði ekki fram að ganga á því þingi. 1951 kom málið aftur fram og var þá flutt af allshn. Nd. að beiðni félmrh. Það frv. náði ekki heldur fram að ganga. 1952 var frv. aftur flutt eftir miklar umr. um það í þinginu. Frv. náði ekki fram að ganga. Og 1953 var málið loks flutt og enn fór á sömu leið. En í raun og veru voru flestir, ef ekki allir alþm. sammála um nauðsyn frv. og sammála um efni þess nema að því leyti, að það var ágreiningur um það, hvort blanda ætti inn í þetta frv., sem fyrst og fremst fjallaði um atriði einkaréttarlegs eðlis, ákvæðum opinberréttarlegs eðlis um takmörk húseigenda á umráðarrétti húseigna.

Það er einmitt þetta, sem mér finnst að hafi komið fram í ræðu hv. flm., að hjá honum sýndist mér þessu ægja öllu saman. Árin 1948, 1951, 1952 og 1953 gerðu allir þeir, sem ræddu þessi mál, sér grein fyrir þeim mismun, sem hér er á. Það virtist mér ekki koma fram í framsöguræðu hv. frsm.

Það, sem ég hef sagt um þetta mál, þýðir ekki, að það sé mín skoðun, að það megi aldrei setja í löggjöf ákvæði, sem takmarka umráðarrétt húseigenda yfir íbúðum sínum. Það getur verið fullkomin ástæða til þess að gera slíkt, ef einhver sérstök atvik ber til, ef einhver sérstök óáran er í landinu, ef það er t.d. ófriðarástand. Og þetta hefur hið háa Alþ. viðurkennt í verki, þegar á hefur þurft að halda. í fyrri heimstyrjöldinni voru sett lög um húsaleigu. Þau voru sett 1917. Og strax í upphafi síðari heimstyrjaldarinnar voru sett lög um húsaleigu. Þetta var af styrjaldarástæðum. Það var enginn ágreiningur um þetta. Það þurfti að gera neyðarráðstafanir á neyðartímum. En þegar þessum neyðartímum lauk, voru þessar ástæður ekki lengur fyrir hendi. Neyðarástandið var ekki lengur fyrir hendi, og þess vegna áttu neyðarráðstafanir ekki lengur við. Lögin frá 1917 voru t.d. afnumin 1927. Eftir það höfðum við enga löggjöf, sem takmarkaði umráðarétt húseigenda yfir húseignum sínum varðanda leigumál. Það komu ekki hugmyndir fram um slíkt, eftir því sem ég bezt veit. Og það var ekki fyrr en það kom nýtt neyðarástand, að það þurfti á ný að heita neyðarráðstöfunum. Og það eru neyðarráðstafanir, sem beitt er, þegar eignarrétturinn er svo takmarkaður, beittur slíkum hömlum, sem gert er með húsaleigulöggjöf eins og lögunum frá 1939, 1940 og 1943. Lögin voru endurskoðuð 1943, og þau lög giltu lengst af.

Ég hygg, að það liggi nokkuð í augum uppi, hvers vegna það er, sem ég kalla slíka löggjöf sem lögin frá 1943 neyðarráðstafanir. Ég geri ráð fyrir, að það þurfi ekki að benda á, hvílík óþægindi og réttarskerðing þau eru í mörgum tilfellum gagnvart húseigendum. Það þarf ekki að benda á áhrif missættis, sem verður milli húseigenda og leigjenda, þegar ekki er hægt að segja upp húsaleigusamningum með eðlilegum hætti. Það þarf ekki að benda á, hvaða áhrif þetta ástand hefur á sjálft framboð húsnæðis og byggingu nýs íbúðarhúsnæðis. Það er staðreynd, að meðan slík neyðarúrræði gilda í löggjöfinni, þá dregur úr viðhaldi búsnæðisins, þá dregur úr nýbyggingu húsnæðis og þá leitast húseigendur við að binda ekki íbúðir sínar í leigu. En þrátt fyrir öll þessi óþægindi er sjálfsagt að gera þetta allt sem neyðarúrræði á neyðartímum. En það á ekki að láta slík ákvæði gilda lengur, bæði vegna þess, að þetta er óréttlátt, og ekki síður vegna þess, að þetta er engin lausn á húsnæðisvandanum til langframa, þótt það geti verið bót í bili, og í þriðja lagi hefur það tilhneigingu til þess að gera húsnæðisástandið almennt lakara, vegna þess að það dregur úr framkvæmdum í íbúðarhúsabyggingum.

Það væri margt fleira hægt að segja um þann þátt í ræðu hv. frsm., sem fjallaði um húsaleiguna. En ég mun ekki gera það nú frekar, nema þá síðar að gefnu tilefni.

Annar þáttur í ræðu hv. flm. fjallaði um sölu húseigna. Ég skal vera stuttorður um þann þátt. Mér fannst, að eins og hv. flm. tók á því máli, þá gæfi það ekki tilefni til þess að fjölyrða um það á þessu stigi. Hann talaði mest um fasteignasalana. Mér skildist, að hann teldi, að sú stétt væri ekki fullkomlega starfi sínu vaxin. Hann benti á, að það kæmi m.a. fram í því, að þeir gæfu rangar upplýsingar í sambandi við milligöngu þeirra um samninga um húsasölu og að þeir væru ekki látnir bera ábyrgð gerða sinna. Ég efast ekki um það, að í stétt fasteignasala sé hægt að finna einstaklinga, einn eða fleiri, sem vinna störf sín þannig, að ábótavant er. En ég veit ekki um neina stétt í íslenzku þjóðfélagi, sem ekki kann að hafa einhverja slíka einstaklinga innan sinna vébanda. Mér er ekki kunnugt um það. Ég held, að þessi röksemd hv. frms. hafi lítið gildi í sjálfu sér.

Það kann vel að vera, að koma megi betra skipulagi á fasteignasöluna en nú er, en það er annað mál. Ég hef ekki trú á því, að það verði gert með því að setja upp eina allsherjar ríkisstofnun í þessu efni. Ég hef ekki heldur trú á því, að það sé eðlileg lausn að fela sveitarfélögunum eða Sambandi ísl. sveitarfélaga að annast þessi mál. Og ég sé ekki með fullri virðingu fyrir Sambandi ísl. samvinnufélaga, að það sé réttmætt eða eðlilegt að láta það verzlunarfyrirtæki hafa einhvern einkarétt á þessari þjónustu við almenning. Ég leyfi mér að halda, að það fyrirtæki mundi vísa þessu algerlega á bug. Því er stjórnað, eftir því sem forustumenn þess segja, undir merki hinnar frjálsu samkeppni. Og ég held, að þegar á allt er litið þrátt fyrir veikleika okkar mannanna, bæði fasteignasala og okkar hinna, sem ekki fást við þau mál, sé affarasælast að reyna að koma á sem mestri samkeppni í þessu efni til þess að tryggja, að þessir þjónustumenn við almenning inni störf sín, sem bezt af hendi.

Það, sem ég vildi segja að lokum, er, að þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, er allrar athygli verð. Ég lít svo á, að innan hennar rúmist sú hugmynd, að Alþ. setji almenna heildarlöggjöf um réttarstöðu leigusala og leigutaka. En ég tel, að það sé ekki neyðarástand í dag, sem gefi tilefni til þess að gera neyðarráðstafanir. Ég veit, að ástandið er ekki fullkomið í þessum efnum, og ég veit, að því hefur hrakað mjög á síðustu missirum. En ég neita að trúa því, að núverandi ríkisstj. hafi staðið sig svo slælega í þessum málum, að eftir rúmlega árs setu sé komið slíkt neyðarástand í þessum efnum, að það verði að gripa til ráðstafana, sem jafna verður við neyðarráðstafanir á ófriðartímum. Það kann að vera, að hv. flm. hafi þessa skoðun. Þá hefur hann minna álit á hæstv. félmrh. en ég hef, og hef ég þó ekki mikið álit á honum í þessum efnum.

En það, sem er kannske alvarlegast og vekur hvað mesta umhugsun í sambandi við ræðu hv. frsm., er það, hve mér finnst athygli hans bundin við það að gera neyðarráðstafanir til að bæta úr sárasta vandanum í stað þess að ráðast að vandanum á þann hátt, sem er eina raunhæfa úrræðið, og það er að auka byggingu íbúðarhúsnæðis í landinu. Það er það, sem athygli okkar þarf að beinast að. Og ég er undrandi yfir því, að hv. flm. skuli gera sig beran að þessu. Og ég hef sérstaka ástæðu til að undrast, af því að ég man eftir því, að hann bar fram frv. til l. á hv. Alþ. 1966 ásamt Einari Olgeirssyni og Eðvarð Sigurðssyni um að byggja á árinu 1967 500 leigu

íbúðir, að ríkið byggði 500 leiguíbúðir. Þetta er nokkuð annað viðhorf. Þetta er jákvætt viðhorf, því að 500 leiguíbúðir mundu bæta úr húsnæðisskorti. Nú bar hv. þm. þetta fram 1966, hefur væntanlega treyst bezt viðreisnarstjórninni til að framkvæma þetta. Till. var ekki samþykkt, vegna þess að einmitt á þeim árum voru meiri íbúðarhúsabyggingar í landinu en nokkru sinni hafði þekkst. Það voru allar horfur á því, að mál þessi leystust farsællega með því einka- og félagsframtaki, sem leyst var úr læðingi, þegar húsaleigulögin gömlu voru afnumin. En ég spyr hv. þm.: Hvers vegna ber hann ekki nú fram till. sína um, að ríkið byggi 500 leiguíbúðir og byggi þær á árinu 1973? Þá fyndist mér málflutningur hans í samræmi við það, sem hann hefur áður látið til sín heyra hér á hv. Alþ. um þessi mál.

Ég vil enn fremur benda á það, að hv. þm., sem greindi frá því, hvernig húsaleigul. voru afnumin 1965, hefur ekki séð ástæðu til að bera fram till. á Alþ. um, að þessi ákvæði verði aftur í lög tekin. Hann hefur aldrei séð ástæðu til þess, meðan viðreisnarinnar naut við. Þá gerir hann ekki till. um, að gerðar séu neyðarráðstafanir. Ég vil ekki ásaka hann fyrir, að hann skyldi ekki gera till. um það. Það var rétt mat hjá honum, þá þurfti ekki neyðarráðstafanir. En núna eftir eitt ár vinstri stjórnar er það orðið hans mat, að það þurfi neyðarráðstafanir. Um þetta er ég honum ósammála. Þó að vinstri stjórnin sé slæm, er hún ekki svo slæm enn, að við getum jafnað afleiðingunum af setu hennar við ófriðarástand.

Ég vænti þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, athugi það gaumgæfilega. Sérstaklega vænti ég þess, að hún athugi það sem áður hefur komið fram á hv. Alþ. í sambandi við almenna húsaleigulöggjöf. Og ef þessi þáltill. getur ýtt undir það eða orðið þess valdandi, það verði sett ný almenn húsaleigulöggjöf, sem er nauðsynleg á venjulegum tímum, þá er vel farið. En hins vegar, ef þetta á að vera upphafið að stefnubreytingu á hv. Alþ. í þá átt að innleiða neyðarráðstafanir á venjulegum rímum, þá er það af hinu illa.