18.10.1972
Efri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til staðfestingar á brbl. Þegar reglugerðin um stækkun fiskveiðilandhelginnar var gefin út 1. sept. miðað við gildistöku 1. sept., þá kom upp nokkur vafi um það, hvernig skilja bæri gildandi lög um veiðiheimildir í fiskveiðilandhelginni frá 1967 og 1969, en þar eru ákvæði um það, að þær veiðiheimildir, sem þar er fjallað um, skuli gilda í fiskveiðilandhelginni eins og hún er ákveðin samkv. landgrunnslögunum. Það gat því verið nokkur ágreiningur um, hvernig ætti að túlka viss ákvæði þessara laga, eftir að búið var að breyta fiskveiðilandhelginni eins og gert var með síðustu reglugerð. Þetta frv. miðar því að því að slá föstu, að þau lagaákvæði, sem þarna er um að ræða, skuli gilda um hina nýju fiskveiðilandhelgi alla, eins og hún hefur nú verið ákveðin, þ.e.a.s. yfir 50 mílna svæðið.

Þá er ákveðið einnig, að veiðiheimildir allar skuli standa óbreyttar frá því, sem var, til næstu áramóta. En þannig hafði verið gengið frá málunum áður, að til þess hafði verið ætlazt. Og því er einnig slegið föstu, að allar þær veiðar, sem ekki verða stundaðar í fiskveiðilandhelginni nema með leyfum, verði einnig að vera háðar leyfum hér eftir á öllu landhelgissvæðinu, þ.e.a.s. út í 50 mílur. En strangt tekið var það auðvitað svo, að áður þurftu menn ekki sérstök leyfi til þess að stunda veiðar utan 12 mílna markanna.

Þetta eru meginatriðin, sem hér var um að ræða. Það varð að taka af vafa í þessum efnum, gera þessi ákvæði skýr, og ég ætla, að það sé í fullu samræmi við það, sem allir höfðu hugsað sér og raunverulega var tilætlunin með lögunum um veiðiheimildir í fiskveiðilandhelginni frá 1967 og 1969.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. óska eftir því, að frv. gangi til sjútvn. til frekari athugunar.