21.11.1972
Sameinað þing: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

82. mál, söngkennsla í skólum

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Í rauninni er um að ræða þrjár fsp. af hálfu hv. 6. landsk. þm.

Fyrsta spurningin er: Hefur verið hugað að því sérstaklega, hvernig efla megi alhliða tónlistaruppeldi í skólum? Svarið við þessari spurningu er já. Í ágústmánuði s.l. kom út á vegum menntmrn. — skólarannsóknadeildar — nál. um endurskoðun námsefnis og kennslu í tónmennt í barna- og gagnfræðaskólum. Í álitinu er fjallað um tíma til kennslu í tónmennt, námsmarkmið, námsefni, tengsl tónmenntanáms við nám í öðrum greinum, kennsluaðferðir, vinnuaðstöðu, kennslutæki, próf, kennaramenntun, kórstarf o.fl., auk þess sem álitinu fylgir rækileg framkvæmdaáætlun. Í till. n. að markmiðum náms í tónmennt er einmitt mjög mikil áherzla lögð á alhliða tónlistaruppeldi. Till. n. hafa verið athugaðar og yfirfarnar í rn., og er undirbúningur að framkvæmd tiltekinna þátta nál. þegar hafinn.

Þá er í öðru lagi spurt um, hversu leysa megi vanda þeirra skóla, sem enga söngkennslu hafa. Svar við þeirri spurningu, hvort að því hafi verið hugað, er einnig játandi. Þetta atriði hefur verið athugað, og eru till. þar að lútandi m.a. gerðar í fyrrgreindu nál. um tónmenntakennslu, einkum á bls. 116–121. Er þar lögð áherzla á það, að á svæðum, þar sem skólar eru of litlir og of dreifðir til þess að geta fengið sérmenntaða tónmenntakennara í fastráðinni stöðu, verði athugað, hvort leysa mætti vandann að einhverju leyti með því að veita almennum kennurum, tónlistarskólakennurum, kirkjuorganistum og kórstjórum viðbótarmenntun í tónmennt á námskeiðum, til þess að þeir gætu tekið að sér stundakennslu í tónmennt í barna- og gagnfræðaskólum og þá að nokkru leyti sem eins konar farkennslu milli skóla. Auk þess leggur n. til. að komið verði á fót í Reykjavík miðlunarstofnun fyrir tónmenntakennara, er rekin verði sameiginlega af tónlistarkólum og fræðsluyfirvöldum, og yrði stofnuninni falið að safna upplýsingum um kennaraþörf, í tónmennt í dreifbýli og reyna að útvega skólum kennara í greininni. Ljóst er, að hér er um mikinn og torleystan vanda að ræða, sem enn þarf að huga að á rækilegan hátt, eigi ekki ný námskrá og fyrirhuguð aukin kennsla í tónmennt á skyldunámsstigi að verða í reynd viðbótarforréttindi fyrir skóla þéttbýlisins.

Loks er í þriðja lagi spurt: Hvað voru þeir skólar margir á skyldunámsstigi s.l. skólaár, þar sem ekki átti sér stað tónmenntakennsla? Stefán Ólafur Jónsson fulltrúi í fræðslumáladeild menntmrn. hefur tekið saman upplýsingar um söngkennslu í skyldunámsskólum á grundvelli haustskýrslna skólanna fyrir skólaárið 1971 og 1972. Niðurstöðurnar eru þessar:

1. Barnaskólar: 65 skólar af 185 alls höfðu ekki reglulega söngkennslu.

2. Unglingaskólar: 46 skólar af 66 samtals höfðu ekki reglulega söngkennslu.

3. Skyldunám, 1. og 2. bekkur unglingastigs í héraðs-, mið- og gagnfræðaskólum: 42 skólar af 62 samtals höfðu ekki reglulega söngkennslu.

Samandregið af 1.–3. lið: 153 skólar af 313, sem höfðu skyldunám s.l. vetur, höfðu ekki reglulega söngkennslu.

Taka verður fram, að áður greindar upplýsingar eru ekki öruggar, þar sem það er ekki fullvist, að öll söngkennsla sé færð á skýrslurnar. Auk þess er aðeins miðað við tilfærða söngkennslu sem fastan lið á stundaskrá skólanna, en ekki talið t.d. kórstarf eða önnur söng- og tónlistariðkun utan reglulegrar stundaskrár. Þess skal getið, að þar sem unglingaskóli, miðskóli, héraðs- eða gagnfræðaskóli eru í tengslum við barnaskóla, eru þeir í þessu yfirliti taldir sér, eins og um tvo skóla sé að ræða.