23.11.1972
Sameinað þing: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

68. mál, eignarráð á landinu

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Á síðasta þingi fluttu allir þm. Alþfl. till. af mjög svipaðri gerð og þá, sem hér er til umr. Till. sú fékk ekki fullnaðarafgreiðslu, en n. sú, sem till. hafði verið vísað til, klofnaði um málið. Meiri hl. n. lagði til, að því yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Ég var meðal þeirra nm., sem studdu dagskrártill.

Nú, þegar þetta mál kemur aftur til kasta þingsins, eða í þriðja sinn, að ég hygg, vil ég leyfa mér að fara nokkrum almennum orðum um málefnið. Það er þó rétt, að ég reki í höfuðdráttum efni till.

Till. gerir ráð fyrir algerri stefnubreytingu á þeirri skipan eignarréttar, sem ríkt hefur hér á landi. Till. miða að því, að allt land í byggð og óbyggð verði alþjóðareign. Auk þess verði stöðuvötn á afréttum og öll fallvötn lýst alþjóðareign. Ríkið eitt hafi öll fiskræktar- og veiðiréttarmál á sinni hendi og hirði allan arð til sín. Margvísleg önnur réttindi á ríkið enn fremur að taka til sín. Til þess að koma þessari stefnu í kring, eiga sérfróðir menn um lagagerðina að fjalla, og flm. till. telja hvorki meira né minna en að þessi till. þeirra muni leiða til úrlausnar eins hins mikilvægasta verkefnis, sem nú sé á sviði íslenzkrar löggjafar.

Það fer að sjálfsögðu ekki framhjá neinum, að hér eru á ferðinni einhver stórkostlegustu þjóðnýtingaráform, sem saga okkar geymir, og það verður alls ekki sagt, að hv. þm. Alþfl., flm. þessarar till., kveðji sér ekki hljóðs hér á Alþ. með þeim hætti, að um munar og eftir sé tekið, enda gat hv. 1. flm. till. um það, að eftir þessari till. væri tekið um land allt og áhugi manna mikill uppi að ræða hana og íhuga, hvaða efni hún geymir og til hvers hún megi leiða. Það var vitað, að Alþfl. taldi sig og sennilega telur sig enn fylgjandi þjóðnýtingu á ýmsum sviðum þjóðlífsins. En nokkuð mun þó hafa verið farið að fyrnast yfir þann þáttinn í stefnuskrá þessa flokks og þá ekki sízt meðan Alþfl. lifði í hinni einstöku og ástúðlegu sambúð við Sjálfstfl. hart nær um 12 ára skeið. En það verður að segja eins og er, að það er vissulega þörf þess, að ríkisvaldið láti til sín taka um ýmis þau atriði, sem grg. till. greinir, og þar beri að hafa af opinberri hálfu fulla gát á og færa til betra vegar það, sem aflaga kann að fara.

Nú er alkunna, að margs konar brask með lóðir og lendur á sér stað, og hefur svo verið lengi. En fyrst og fremst hygg ég, að það sé húsabraskið og lóða- og lendnabrask í sambandi við þéttbýlið eða í þéttbýli og þá einkum og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. Það er engan veginn heilbrigt, enda stríðir það gegn hagsmunum almennings, að eigendur lóða geti án minnsta eigin tilverknaðar hagnazt stórkostlega á aðgerðum hins opinbera, sem er að framkvæma verk, sem til almannaheilla horfa. Þá er enn fremur auðvitað, að fráleitt er, að erlendir jafnt sem innlendir geti keypt jarðir, sem þeir síðan skeyta ekki neitt um og leggjast í eyði. Okurleigu á veiðileyfum í ám og vötnum, þar sem um hana ræðir, ber að sjálfsögðu að koma í veg fyrir, eins og auðið er, og einnig þarf að gæta fyllstu varúðar til að spilla ekki landi, vatni eða lofti, svo að til tjóns horfi. Um þetta erum við öll að sjálfsögðu sammála, sem eitthvað hugsum til framtíðarinnar. Í þessum efnum er vissulega um margvíslegar og alvarlegar misfellur að ræða, — misfellur, sem oft og einatt leiða til ranglætis og félagslegra óþrifa. En spurningin er þá í raun og veru þessi, hvort sú kollsteypa í eignarréttarmálum Íslendinga þurfi til að koma, sem till. ber með sér, til þess að bæta megi úr því, sem úrskeiðis fer og mest kallar að að leiðrétta.

Formaður Alþfl. sagði fyrir nokkru í útvarpi, þegar rætt var um þessi mál, að framkvæmd á till. yrði áratugaverk, og sannarlega hlýtur að vera hægt að færa þetta til sanns vegar. Það getur ekki verið neitt áhlaupaverk að afnema eingarrétt einstaklinga, félaga og margs konar samtaka á lóðum og lendum um allt land, ásamt öllum þeim réttindum, sem fylgja eiga landareign, og færa síðan þessi allsherjareignarréttindi til ríkisvaldsins. Þetta hlýtur að taka sinn tíma, ef brugðið væri á það ráð. Og mundi þá vera langurinn að laga þær misfellur, sem kunna að teljast alvarlegastar í þessum efnum hér hjá okkur, að ekki sé talað um þær gífurlegu fjárhæðir, sem ríkið þyrfti að greiða í eignarnámsbætur til fyrri eigenda, því að enn þá eru í gildi ákvæði stjórnarskrár okkar um friðhelgi eignarréttar.

Fyrir þá, sem hafa mikinn áhuga á þjóðnýtingu alls landsins, væri auðvitað greiðasta leiðin að fella stjórnarskrárákvæði þetta hreinlega úr gildi. Þá væri gengið alveg brotalaust og beint til verks, og kem ég aðeins að því síðar. En óvíst er, að sú leið ætti fylgi að fagna meðal landsmanna, en það kæmi þá fram á sínum tíma.

Við Íslendingar höfum lítt verið kenndir við stórfelldar byltingar. Öll þróun, hröð eða hæg eftir atvikum, hefur verið okkur miklu fremur að skapi og til geðs og okkur þrátt fyrir það vegnað allsæmilega að kalla má. Getum við ekki sætt okkur við skynsamlega þróun, kannske af nauðsyn nokkuð hraða á sumum sviðum í þessum efnum, sem hér um ræðir, þ.e.a.s. til þess að komast frá óhóflegri eða óeðlilegri auðsöfnun eða fjárhagslegri ágengni til meiri jöfnunar og réttlátari þátta í efnahagslegu tilliti og félagslegum efnum.

Ríkisvaldið hefur á hendi sinni að stýra æskilegri þróun mála til þeirrar áttar, sem landsmönnum má bezt að gagni verða, og til meiri jafnaðar, án þess að mínu viti að kasta á hvaðeina sinni eign, þjóðnýta alla hluti. Hingað til hefur ríkisvaldið haft í hendi sér sköttun eigna og tekna til meintrar jöfnunar og færslu fjármuna til ríkissjóðs, sem síðan eru notaðir til sameiginlegra hagsmuna og þarfa fyrir alla þjóðina. Máttur þessa stjórnunartækis hefur verið og er mikill. Má ekki hefta margs konar óhæfilegan ofsagróða, sem mjög er hafður á orði, á vegum einstaklinga eða félaga með stjórnunaraðgerðum hins opinbera? Ef hugur fylgir máli, er þá ekki unnt með strangri löggjöf og eftirfarandi kröftugri framkvæmd að kveða niður að verulegu leyti það brask, sem talið er óhóflegt í húsa- og lóðasölum, t.d. hér í Reykjavík? Þarf ríkið endilega að kaupa upp allar lóðir og allar lendur og það dýrum dómum, til þess að sá ófögnuður verði kveðinn niður? Er nauðsynlegt, að ríkið slái eign sinni á alla afrétti landsins, til þess að þéttbýlisfólk, sem er allra góðra gjalda vert, geti notið útivistar þar?

Ég vil leyfa mér að ræða svolítið um afréttina. Nú er það svo, að á þessum landssvæðum hafa bændur og búalið öldum saman haft umsýslu af ýmsu tagi, og svo mjög eru íbúar sveitarfélaga, sem notið hafa afrétta í búskap sínum, tengdir þessum löndum, að þeir lita nánast á þau sem heimalönd væru og þannig sameiginlegt umráða- og eignarsvið sitt. Um aldir hafa hreppsbúar haft mikinn kostnað og þó enn meira erfiði af umhirðu og gæzlu afréttarlanda sinna. Í öllum þessum viðskiptum hafa bændur landsins í tímans rás tengzt órofaböndum við þessi stórbrotnu og notasælu lönd. Á því er enginu vafi, enda er það komið í ljós, að afrétti okkar má rækta til nytja, ef sæmilega er á haldið, allt í 600–700 metra hæð. Þannig geta þeir orðið dýrmæt uppspretta í fóðuröflun, sem bændurnir fyrst og fremst og jafnvel einir geta staðið að og notfært sér og allri þjóðinni til ómetanlegs gagns. Þarf ríkið að svipta bændurna eignar- og umráðarétti þessara landssvæða, til þess að þéttbýlisfólk geti yfirleitt notið þar yndisleika náttúrunnar, andað að sér hreinu lofti, bergt á heilnæmu vatni og leikið sér við lind og læk í ljúfum friði? Eru sveitarfélögin og bændurnir í vegi fyrir því, að þetta geti orðið? Eða eru bændurnir líklegir til þess að bregða á það ráð að menga land, loft og vatn þar efra? Ég hygg, að það séu engir ólíklegri til þeirra hluta, enda eru þar óskalönd þeirra og unaðsríki.

Mörg sveitarfélög og jafnvel bændur eiga að minni hyggju ótvíræðan eignarrétt til afréttarlanda. Önnur sveitarfélög þurfa ekki endilega að hafa í höndum afsalsbréf fyrir afrétti, en telja sig eigi að síður hafa eignazt hann fyrir aldalanga notkun og hefð. Og ríkið hefur ekki sýnt í verki sérstaklega, að það hafi haft vilja eða áhuga á eignarráðum þar efra.

Til frekari skýringar og þó kannske meira til fróðleiks vil ég taka dæmi, sem mér er mjög nærtækt, um tengsl sveitarfélaga við afrétti í Rangárþingi og viðskiptalegar athafnir sveitarfélaga á hreinum eignarréttargrundvelli. Enn fremur mun ég aðeins drepa á tengsl Gnúpverjahrepps í Árnessýslu, að því er varðar þann hrepp og afréttareign hans.

Hinn 18. sept. 1917 var svofellt tilboð gefið af hálfu oddvita hreppsnefndar Ásahrepps í Rangárvallasýslu til h/f Titans, norsks fyrirtækis, en þetta fyrirtæki ásamt nokkrum Íslendingum hafði ætlað sér að koma rafaflsstöð við Þjórsá, eða á þeim slóðum, svo sem kunnugt er, — ég ætla að lesa hér upp þetta tilboð, sem hreppurinn gerir, og enn fremur afsal í sambandi við tilboðið, með leyfi hæstv. forseta:

„Guðjón Jónsson, oddviti, Ási, fyrir hönd hreppsnefndar Ásahrepps, gerir h/f Titan það tilboð að selja því eignarhluta hreppsins, helming í Gljúfurleitarfossi í Þjórsá ásamt rétti til þess að nytfæra sér á hvern hátt, sem vera skal, vatnsaflið í fossinum og ánni fyrir neðan fossinn og þúsund metra upp fyrir hann, eftir því sem félaginu kann að þykja hentugt, svo og með rétti til þess að gera í landi hreppsins þar umhverfis öll mannvirki, hverju nafni sem nefnist, sem félagið vill nota landið til, m.a. til áveitu og fráveitu vatns, vatnsgeymslustíflur, brautir, vegi o.s.frv. og taka byggingarefni úr þessu landi að eigin vild.“

Þá kemur afsalið, sem fylgdi á eftir þessu tilboði frá hreppsnefndinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Hreppsnefnd Ásahrepps lýsir h/f Titan réttan eiganda að eignarhluta hreppsins, helmings í Gljúfurleitarfossi í Þjórsá og allra þeirra réttinda, sem til eru tekin í framanrituðu tilboði, að engu undanskildu, allt þó með þeim skilyrðum og skilmálum, sem um getur í tilboðinu.“

Og þá kemur enn tilboð ásamt afsali, sem sama hreppsnefnd gerir, og það er á þessa leið: „Hreppsnefndin í Ásahreppi gerir h/f Titan tilboð um að selja því:

1. Allan rétt til vatns og vatnsafls í Köldukvísl.

2. Rétt til þess að stífla Þórisvatn og nota það sem vatnsgeymi.

3. Rétt til þess að veita Köldukvísl úr farvegi sínum, eftir því sem félagið vill.

Hefur félagið heimild til þess að gera í sambandi við þessi réttindi öll mannvirki á afréttarog öðru landi hreppsins, hverju nafni sem nefnast, eftir því sem félagið telur sér hentugt“ o.s.frv. Og þá vil ég leyfa mér að lesa afsalið, sem fylgir þessu tilboði. Það er á þessa leið:

„Hreppsnefnd Ásahrepps veitir h/f Titan afsal í samræmi við framangreint tilboð, og hreppsnefnd Ásahrepps lýsir hér með yfir, að hún selur og afsalar fyrrnefndu hlutafélagi til fullrar eignar öll réttindi, þau sem ræðir í tilboðinu, með nánari skilmálum, sem þar eru teknir fram.“

Sams konar viðskipti og við þetta erlenda félag er einnig um að ræða að því er varðar afrétt Landmanna sem er næstur fyrir austan afrétt Ásahrepps. Á þeim slóðum voru líka gerð tilboð og afsöl af hálfu hreppsnefndar Landmannahrepps, og ég ætla að lesa upp svolítið úr þeim plöggum til enn frekari skýringa. Tilboðið er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Eyjólfur Guðmundsson, fyrir hönd hreppsnefndar Landmannahrepps, gerir Einari Benediktssyni svofellt tilboð: Gegn 6000 kr. skal selja nefndum herra Einari Benediktssyni vatnsafl og rétt til notkunar þess í Þjórsá fyrir Landmannahreppsafrétt á landi frá Tungnárósi til Merkifosslands og frá Galtalækjarlandi til Skarfanesslands.“

Þetta tilboð er gefið Einari Benediktssyni, og nokkru síðar samþykkir svo sýslunefndin af sinni hálfu, að þetta tilboð megi gera og síðan megi fylgja eftirfarandi afsal. og það er á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Hreppsnefnd Landmannahrepps afsalar réttindum til h/f Titan, með því að fyrrv. sýslumaður Einar Benediktsson hefur með skjali frá 11. febr. 1917 framselt h/f Titan öll réttindi sín samkv. framanskráðu kauptilboði. Og með því að h/f Titan hefur fyrir lok s.l. árs greitt Landmannahreppi eftirstöðvar kaupverðs, þá lýsir undirrituð hreppsnefnd Landmannahrepps í Rangárvallasýslu hér með yfir, að h/f Titan er réttur eigandi allra réttinda, þeirra sem ræðir um í kanptilboðinu til Einars Benediktssonar.“

Um öll þessi kaup, sem ég hef minnzt hér á, er ekki annað vitað en þau hafi verið gerð með fullri vitund stjórnvalda og með aðstoð hinna færustu lagamanna á þeirri tíð.

Svo kom að því, að ég held ég megi segja, að árið 1951 leysir ríkissjóður til sín þessar eignir h/f Titans, sem er náttúrlega orðið afhuga öllum virkjunarframkvæmdum á þessum slóðum; leysir til sín þessar eignir, sem hrepparnir seldu á sínum tíma. Það má geta þess, að svipuð viðskipti um afrétti og ég gat um áttu Gnúpverjahreppsbúar eða hreppsnefnd Gnúpverjahrepps við sömu aðila að því er varðaði afrétt hreppsins, og er óþarfi að lesa það upp, því að það er mjög líkt að efni til, bæði kauptilboð og afsöl, eins og ég hef þegar greint, að því ér varðar hreppsnefndirnar tvær í Rangárvallasýslu.

Eins og sjá má af þessu, er ekki um það að villast, að sveitarfélögin, sem þarna er um að ræða, hafa talið sig eiga þetta land og enginn mælt því gegn á þeirri tíð, þannig að það er ofureðlilegt, að viðkomandi hreppar taki því ekki þegjandi, að þessi lönd verði af þeim tekin.

Þá vil ég leyfa mér í sambandi við þetta mál að lesa upp umsögn frá Dómarafélagi Íslands, sem lá fyrir á s. I. vetri um sama efni. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert er ráð fyrir setningu nýrra reglna um eignarráð og eignarréttindi yfir eignum, sem virðast geta verið 1) eign almennings eða ríkisins, 2) eign einstaklinga, félaga, sveitarfélaga eða annarra eignarréttaraðila, og 3) fullkominn vafi er á, hvort séu einstaklingseignarrétti háðar eða ekki. Ekkert sýnist því til fyrirstöðu, að ríkisvaldið setji lagareglur um meðferð skýlausra eigna ríkisins eða almennings. En vara verður mjög eindregið við því, að setja lagareglur um eignar- og yfirráð yfir eignum, sem annaðhvort er ljóst, að háðar eru einstaklingseignarrétti eða mikill vafi er um eignarrétt. Sé talin brýn þörf á, að ríkið eða sveitarfélög eignist hinar fyrrgreindu eignir, þarf að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir því, hver útgjöld yrðu af eignarnámi og hvort sveitarfélög kynnu að kæra sig um þær hugmyndir, sem koma fram t.d. í 3. tölul., en um hinar síðargreindu, eignir þær, þar sem vafi er á um eignarréttinn, telur félagið eðlilegri leið, að hæstv. ríkisstj. láti rannsaka, hvar slíkar vafaeignir eru, og fái skorið úr um eignarrétt fyrir dómstólum, áður en til lagasetningar komi. Telur félagið það hæpna afgreiðslu, að ríkið lýsi yfir eignarrétti sínum á slíkum vafaeignum og láti síðan borgarana, sem telja á stjórnarskrárverndaðan rétt sinn gengið, þurfa að kosta málssóknir.“

Þetta segir Dómarafélag Íslands í sinni umsögn. há hef ég hér aðra umsögn. Hún er frá Búnaðarþingi Ísl., og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa úr henni nokkrar setningar:

„Í ofangreindum þingmálum kemur fram óþolandi ásælni í eignarrétt einstaklinga og hreppsfélaga. Búnaðarþing mótmælir því harðlega, að með einfaldri lagasetningu sé hægt að svipta þessa aðila landssvæðum og réttindum, sem þeir hafa frá öndverðu talið og farið með sem fulla og óskoraða eign sina, og leggja undir ríkið.

Búnaðarþing lítur svo á, að ríkið hafi frá öndverðu aldrei kastað eign sinni á ónumið land. Það eigi því ekki aðrar lendur eða réttindi en þau, sem það hefur beinar eignarheimíldir fyrir. Því hljóti sönnunarskylda í hverju tilviki að hvíla á ríkinu um rétt þess, ef um það er að ræða, að það hefji tilkall til annarra lendna eða réttinda.

Búnaðarþing telur hér um mikið alvörumál að ræða, og má leggja á það sérstaka áherzlu, að land, það eigi því ekki aðrar lendur eða réttindi arfélaga og sveitarhluta, sem seilzt er eftir.“ Það var áður en allar jarðir bænda á Íslandi áttu að renna undir ríkið, en það er sú breyting m.a. í þessari síðustu till. — „Því vill Búnaðarþing skora fastlega á hið háa Alþ. að móta afstöðu sína til ofangreindra þingmála út frá þeim sjónarmiðum, sem hér hefur verið haldið fram.“

Af öllu þessu, sem hér hefur verið rakið, tel ég, að ríkinu sé í raun og veru með öllu þarflaust, hvað sem annað má segja, að ásælast rétt bænda eða sveitarfélaga á afréttarlöndum, hvað þá heldur að leysa til sín allar bújarðir landsins í einu lagi eða svo til. Nú er það vitað, að ríkið mun eiga um 20–25% af öllum jarðeignum hér á landi. A.m.k. hefur mér verið sagt það, og ég leyfi mér að trúa því. En hitt er svo allt annað, að ríkissjóður hefur vafalaust engin fjárhagsleg tök á því að leysa til sín allt þetta land, og í raun og veru er alveg óþarfi að eyða að því orðum. Það er mitt mat og margra fleiri, að ríkið hafi full tök á því að koma flestu, ef ekki öllu sínu fram, án þess að hafa á hendi allsherjareignarréttindi, getur í raun og veru gert hvað eina, sem lýtur að skynsamlegri notkun og meðferð landsins, svo að til hagsmuna horfi fyrir bændur og þjóðina alla. Ríkið getur sett reglur um sölu jarðeigna, beizlað fallvötn, skipað reglur um veiði í ám og vötnum, sett reglur, eins og það hefur líka gert, um umgengni og afnot almennings á upplendinu hvarvetna. Þar er náttúruverndarlöggjöfin gleggst dæmi. Þessi merka löggjöf hefur leitt til þess, að nú er tekið til að stjórna af opinberri hálfu þeim mikilsvarðandi málefnum, sem sú löggjöf fjallar um, án þess að ríkisvaldið hafi nokkur eignarráð á þeim svæðum, sem þar er um að ræða. Það má t.d. minna á stofnun útivistarsvæða. Þetta er unnt að gera, þó að ríkið eigi ekki neitt í þessum útivistarsvæðum eða því landssvæði, sem þar um ræðir. Og eins má segja um framkvæmd friðlýsinga. Ríkið getur friðlýst þarna lönd, án þess að eiga, svo sem sneið úr landinu. Þetta er unnt að gera í mýmörgum öðrum tilvikum, að hafa stjórnun á vissum hlutum, sem aflaga kunna að fara.

Ef vilji er til þess, er margs konar löggjöf, eins og ég gat um, fær til að leysa þann vanda, margan, sem um getur í grg. fyrir till. Mér er t.d. kunnugt um, að n. manna er að vinna að lagagerð með því markmiði að tryggja sem eðlilegasta og hagkvæmasta nýtingu landsins utan skipulagsbundinna þéttbýlissvæða. Sjálfsagt mun stefnt í þessu efni að því, að sem mest þjóðfélagslegt hagræði megi verða af búsetu á jörðum og að eignarhald á jörðum og landi yfirleitt sé í sem fyllstu samræmi við hagsmuni sveitarfélaganna, allra þeirra, sem búskap stunda, og þjóðarinnar í rauninni í heild. Þau landssvæði, sem hljóta að falla undir slíka stjórnun, eins og hér er stefnt að, eru m.a. jarðir og jarðahlutar, afréttalönd, lóðir og landspildur ásamt tengdum réttindum, eins og vatnsréttindum, veiðiréttindum o.fl., sem leiðir af landeign. Með skipulegum hætti mætti ráðstafa þessum eignum, ef um eignarskipti ræðir, og ráðstöfun yrði þá háð, ef því skiptir, opinberu stjórnunarvaldi. Reglur af svipuðu tagi, sem ég hef vikið að hér lauslega, geta vafalaust þjónað, svo að um munaði, alþjóðarhagsmunum og komið í veg fyrir óeðlileg eignaskipti á réttindum þeim, sem ég taldi upp. Þá mætti álíta, að ekki væri úr vegi að skipa með stjórnunarlöggjöf lóðum og lendum í þéttbýli á skipulagsbundnum svæðum til þess að sporna við óhæfilegu braski með húseignir og leigu húsnæðis, sem talið er eiga sér stað, aðallega þó hér í Reykjavík. Allflestum þeirra réttinda, sem í till. getur, er löngu skipað með lögum. Slík réttindi eru varin af ákvæðum stjórnarskrár og verða ekki fengin öðrum í hendur, þ.e.a.s. ríkisvaldinu í þessu tilviki, nema með lagasetningu, og þá þarf brýna nauðsyn að bera til og komi fullt verð fyrir.

Af því er varðar eignarréttindi á afréttum, má geta þess, að það er kannske eitthvað um, að það sé ekki alveg víst, hver sé eigandi að afrétti, og þurfi að gera gangskör að því að rannsaka, hvernig með skuli fara og hverjir eigi. Íslenzk lög gera ráð fyrir því, að í þeim tilvikum sé hægt að höfða eignardómsmál svokallað til þess að fá úr því skorið af hálfu dómstólanna, hver sé hinn eðlilegi eigandi, þegar á allt er litið. En ég tel, að það sé alveg fráleitt, að ríkið lýsi yfir eignarrétti sínum á vafa- og umdeildum eignum, síðan verði svo þeir landsmenn, sem verða fyrir barðinu á slíku, að hefja málssókn á hendur ríkisvaldinu með ærnum tilkostnaði og margháttuðum öðrum vandkvæðum. í raun og veru er það gersamlega úr vegi, að ríkisvaldið leiki þegna sína á þann hátt að neyða þá til slíkra varnaraðgerða, og ætti ekki að þurfa um það að ræða.

Og að lokum þetta: Ég álít, með skírskotun til þess, sem ég hef lítillega rakið hér, að af forsendum þeim, sem um getur í grg. fyrir till., sé dregin óhæf ályktun í tillgr. sjálfri:

1. Ríkisvaldið hefur ýmis önnur ráð en eignarnám, bæði nærtækari og skjótvirkari til lausnar vanda þeim, sem í tillögunni er talinn upp.

2. Eignarnámsbætur yrðu þvílíkar fjárhæðir, að fullvíst má telja, að ofraun væri ríkisvaldinu að greiða þær af hendi að óbreyttum ákvæðum stjórnarskrár um vernd eignarréttar.

3. En sé það aftur á móti ætlun flm. till., að almenn eignaupptaka á öllu landi í byggð og óbyggð ásamt tilheyrandi öðrum réttindum eigi fram að fara, væri það ólíkt hreinlegra að mínu viti, að flm. flyttu brtt. við ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttarins í því skyni að fella það ákvæði niður að einhverju leyti eða kannske öllu leyti. Þá væri komið í raun og veru að kjarna þess máls, sem hér um ræðir, og þá yrði hverjum landsmanni auðvelt að skilja, hvað í rauninni er átt við með till., og enn auðveldara yrði þá að skipa sér í sveit með eða móti áformaðri eignaupptöku.

Ég gat þess í upphafi ræðu minnar, að formaður Alþfl. hefði í útvarpi m.a. sagt, að það væri ekkert áhlaupaverk að koma þessu í kring, og það er sjálfsagt alveg hárrétt hjá honum. En hann bætti því líka við: Þetta er ekkert eignarnámsfrumhlaup. Gæti maður haldið, að þetta þýddi einvörðungu, að það ætti alls ekki að koma til eignarnáms samkv. þeim lögum, sem nú gilda. í raun og veru er ekki önnur skýring á þessum orðum formanns Alþfl. en að tilgangurinn sé að ganga framhjá eignarnámsbótum með öllu, nema hann hafi meint eitthvað allt annað en það, sem orð hans virðast segja til um. — Herra forseti. Þá hef ég lokið máli mínu.