23.11.1972
Sameinað þing: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

68. mál, eignarráð á landinu

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þess er getið í grg. með þeirri þáltill., sem hér er til umr., að till. svipaðs efnis hafi verið fluttar af þm. Alþfl. á tveimur undanfarandi þingum. Það er rétt að minna á þetta, ekki sízt fyrir það, að mér sýnist, að þróunin, þegar maður ber saman till., sem lagðar hafa verið fram frá þingi til þings, stefni í þá átt að herða á þeirri kröfu, að allt land verði þjóðnýtt. Á síðasta Alþ. ræddi ég nokkuð um þetta viðhorf, þegar sú þáltill. var til umr., og ég lýsti þá áhyggjum mínum yfir því, að hér væri farið inn á braut, sem bryti algerlega í bága við þær hugmyndir, sem Íslendingar hefðu haft um eignarrétt, og eins og bent hefur verið á af hv. 5. þm. Norðurl. v., brýtur þetta einnig í bága við stjórnarskrána.

Ég tel mig ekki þurfa að hafa mörg orð um þessa till. á þessu stigi. Hér hafa aðrir talað á undan mér, og get ég tekið undir fjölmargt af því, sem hefur komið fram í þeirra ræðum, og á ég þar sérstaklega við ræður þeirra 4. þm. Sunnl. og 5. þm. Norðurl. v. En mér þykir rétt að geta um það, að ég kem ekki auga á, að það þjóni neinum tilgangi að breyta um þessi eignarráð, þótt svo maður féllist á það að öðru leyti. Það hefur verið bent á, að þeim eigendum landsins, sem núna eru, hafi orðið á mistök í nýtingu landsins, og það má vel vera rétt, að það hafi orðið í ýmsum tilvikum. Og þess hef ég að sjálfsögðu orðið var, að bændur hafa sér til óhagræðis látið af löndum sínum, án þess að gera það með skipulegum hætti. En ég er ekki alveg öruggur um, að það væri algerlega komið í veg fyrir. að slík mistök gætu gerzt, þótt ríkið ætti löndin. Og ekki verður komið í veg fyrir slík mistök með neinum öðrum ráðum en þeim, sem eru tiltæk einnig til að forða því, að bændurnir eða eigendur landsins nú geri mistök. Á ég þar við, að það er að sjálfsögðu skylda Alþ. að ganga þannig frá reglum og lögum, að skipuleg nýting landsins fari fram. Og ég hygg, að ég tali fyrir munn flestra þeirra, sem hér eru kallaðir aðeins 3000 landeigendur, þegar ég segi, að það er ekki okkar ætlun, sem löndin eigum, að vera í stríði við þéttbýlisfólkið, og það mun ekki vera hægt að benda á. að við höfum staðið þannig að málum yfirleitt. Ég held, að það sé vaxandi skilningur á því meðal bænda og landeigenda, að þeir, sem ekki eiga lönd, þeir, sem búa í þéttbýli, hafi þörf fyrir að komast í snertingu við landið og þeir eigi að fá tækifæri til þess. Og ég hef ekkert á móti því að geta þess hér að láta það koma fram, þannig að eftir því verði tekið, að sveitarstjórnin í mínu sveitarfélagi, Gnúpverjahreppi, hefur nú þegar tekið til hliðar dálitla landspildu, sem hún er að láta skipuleggja fyrir sumarbústaði, og ég hygg, að það séu einmitt einhver slík viðbrögð, sem þarf að styrkja landeigendurna til að gera og örva þá til að gera, til þess að við getum verið sátt, allir Íslendingar, um þá nýtingu, sem á landinu þarf að vera.

Það var um það rætt, að það væri öðru máli að gegna nú um það, á hvern hátt skyldi haga eignarráðum landsins, heldur en á meðan þjóðfélagið var bændaþjóðfélag. Það má vel vera, að það megi komast að þessari niðurstöðu. En ég vil þó á þessu stigi alvarlega vara við því, að þannig verði staðið að málunum, að það ýti bændum burt af jörðum. Og ég hygg, að það verði töluvert öðruvísi, það þjóðfélag, sem yrði í landinu, eftir að enginn sjálfseignarbóndi væri til, því að það er fullvissa mín, að bændastéttin og þjóðfélagið hafi nokkurn annan svip fyrir þá kjölfestu, sem eignarrétturinn hefur gefið bændastéttinni.

Ég gat um það í upphafi máls míns, að þó að andi till. frá síðasta þingi og þeirrar, sem nú er til umr., sé að nokkru sá hinn sami, þá hefur sú þróun átt sér stað, að nú er gengið miklu lengra í átt til þjóðnýtingar, eins og ég orðaði það áðan, heldur en í fyrri till. Og ég verð að segja það, að ég furða mig á því, fyrst farið var inn á þá braut að benda hér á jafnmikla þjóðnýtingu og talað er um, að ekki skuli þó gengið enn lengra. Þegar maður lítur t.d. á 4. liðinn, þá segir þar, að „allur jarðvarmi undir 100 metra dýpi og aðstoðar hins opinbera þarf til þess að bora eftir og virkja, verði lýstur alþjóðareign“. Því ekki líka það, sem flýtur ofan á? Ef það er það, sem menn hugsa sér með þessari till., að þess sé gætt vandlega, að jarðeigandi fái ekki að auðgast, hann fái ekki hagnað af því, sem hann hefur á milli handa, þá er vissara að taka líka það, sem flýtur ofan á. Til þess hefur hann ekki þurft að kosta neinum verulegum fjármunum, og þann jarðvarma, sem kemur sjálfkrafa upp á yfirborðið, hefur tekizt að nýta ekki síður en þann, sem borað var eftir. Ég bendi á þetta til þess að undirstrika það, sem ég sagði áðan, að mér sýnist, að þessi þróun og þessi tillöguflutningur leiði til þess að gera kröfu um, að alger þjóðnýting verði á landeignum í landinu, þótt í till. sé gert ráð fyrir því, að enn þá megi þó bændur eiga jarðir sínar, ef þeir kjósa þann hátt fremur en vera á löndum með erfðafestu. Og ég hygg, að við þurfum ekki að fráfælast það, að bændur eigi löndin, ef við aðeins gætum þeirrar skyldu okkar að hafa á því skipulag, hvernig farið er um nýtingu þess lands og þeirra gæða, sem landið býður okkur.