27.11.1972
Neðri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

93. mál, almannatryggingar

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Mig langar til þess að leggja örfá orð í belg í þessum umr., en ætlunin var að beina þeim til hæstv. trmrh. Hér er til umr. frv., sem fjallar aðeins um þrjú einstök og aðgreind atriði í tryggingalöggjöfinni, en hæstv. ráðh. hefur sjálfur notað umr. til þess að hefja allsherjar eldhúsumr. um þróun tryggingamála undanfarinn hálfan annan áratug. Síðan sýnir hann Alþ. þá vinsemd og virðingu að rjúka af fundi með fylgdarlið sitt, sem sat hér í hliðarsölum, áður en þessari umr., sem hann sjálfur stofnar til, er lokið.

Það er orðið harla einkennilegt ástand á þessu þingi, þegar annar af ráðh. Alþb. má ekki vera að því að sinna hér skyldustörfum, þó að allir viti, að hann situr í skrifstofu rétt hjá þessu húsi. Hinn rétt stingur inn nefninu til að koma af stað almennum umr., en er svo rokinn, áður en fleiri en tveir eða þrír þm. fá tækifæri til að taka þátt í þeim umr. (Forseti: Ég vil benda hv. ræðumanni á það, að hinum venjulega umræðutíma er að ljúka. Ég er fús til þess að fresta þessari umr., ef hv. þm. leggur kapp á, að hæstv. trmrh. verði við framhald umr.) Ég ætla að þiggja þetta höfðinglega boð forseta og þakka honum fyrir það, en það var töluvert eftir af venjulegum fundartíma, þegar ráðh. hvarf af fundi. Ég mun því gera hlé á ræðu minni og ef tækifæri gefst til aftur segja þau fáu orð, sem ég ætlaði að segja við ráðh.