28.11.1972
Sameinað þing: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

277. mál, orkuflutningur frá Sigöldu til Norðurlands

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Fyrsta spurning hv. þm. er: „Hvað er áætlað, að háspennulína frá Sigöldu til Akureyrar muni kosta með núgildandi verðlagi, og við hve mikinn orkuflutning verður hún miðuð?

„Ekki er enn þá unnt að birta annað en bráðabirgðaniðurstöður um stofnkostnað orkuflutningslínu frá Sigöldu til Norðurlands. Ástæðan er sú, að endanleg hönnun línunnar bíður eftir niðurstöðum þeirra athugana, sem nú er unnið að af kappi, eins og ég hef nýlega gert grein fyrir á þessum stað. Orkuflutningslína, sem ætlað er fyrst og fremst að flytja raforku til almennra þarfa á Norðurlandi, hefði nálægt 50 megawatta flutningsgetu og mundi samkv. bráðabirgðaáætlun kosta nálægt 250 millj. kr. Flutningslína, sem nægir til flutnings á raforku til stóriðju á Norðurlandi eða til samtengingar milli stórvirkjunar á Norðurlandi, svo sem Dettifossvirkjunar, og kerfisins á Suðurlandi, þyrfti að hafa nálægt fjórum sinnum meiri flutningsgetu eða um 200 megawött, en hún mundi einnig samkv. bráðabirgðaniðurstöðum kosta um 800 millj. kr. Eins og lýst hefur verið yfir, er markmiðið með samtengingu Norður- og Suðurlands að tryggja einn sameiginlegan orkumarkað, er taki yfir báða þessa landshluta, og að þeir, sem þar búa, sitji við sama borð í raforkumálum, bæði um heildsöluverð raforku, um möguleika á orkufrekum iðnaði og um möguleika á gerð hagkvæmra stórvirkjana. Enginn vafi er á því, að stefna ber að síðarnefndu flutningsgetunni, um 200 megawött, í samtengingu Norður- og Suðurlands. Hvort slíku marki verður náð í einum áfanga eða hvort nauðsynlegt muni reynast að fara leiðina að þessu marki í tveimur áföngum, er mál, sem kanna þarf nánar, og er unnið að þeirri könnun.

Þá spyr hv. þm.: „Hvert verður kostnaðarverð þessa rafmagns komins til Akureyrar miðað við gildandi verðlag?“

Af því, sem ég sagði áðan, er ljóst að markmiðið með samtengingu Norður- og Suðurlands er miklum mun víðtækara en það eitt að sjá fyrir orkuþörf Norðlendinga til brýnna, almennra þarfa, en svo virðist sem fyrirspyrjandi hafi það einkum í huga. Línunni er sem sé ætlað að gegna samtímis margs konar hlutverkum. Það er því út í hött að leggja allan kostnað hennar á eitt markmið einungis, að flytja norður orku frá Sigöldu. Álitamál getur líka verið, hvernig skipta beri kostnaði línunnar á hin einstöku markmið með lagningu hennar, og um það verða ekki gefnar fastar reglur. Samtengingu Norður- og Suðurlands verður að ræða út frá allt öðru viðhorfi. Spurningin, hvort þessi samtenging skuli gerð eða ekki, er einfaldlega spurningin um það, hvort menn vilja eða vilja ekki skapa sameiginlegan orkumarkað norðanlands og sunnan, sem tryggi íbúum beggja landshluta sömu aðstöðu til notkunar raforku almennt,, til stofnunar orkufrekra iðjuvera og til stórvirkjana. Jafnri aðstöðu Norðlendinga og Sunnlendinga í þessu efni verður trauðla komið á með öðru móti en því að tryggja sameiginlegan orkumarkað með tengingu landshlutanna, Þetta er mergurinn málsins, og það verður að ræða út frá þessu sjónarmiði.

Svo virðist sem ýmsir líti svo á, að lína yfir hálendið og áframhaldandi virkjanir norðanlands séu andstæður. En svo er ekki. Þvert á móti gerbreytist öll aðstaða til hagkvæmra virkjana norðanlands til hins betra með tilkomu tengilínunnar.

Þriðja spurning hv. þm. er þessi: „Mega Norðlendingar vænta þess, að þeim verði ekki selt rafmagn leitt sunnan yfir fjöll á hærra verði en Sunnlendingum — þar með taldir Reykvíkingar, — verður selt rafmagn frá Búrfellsvirkjun á sama tíma?“

Eins og ég hef áður rakið, er það stefna ríkisstj. að jafna aðstöðu landsmanna í raforkumálum án tillits til búsetu. Áfangi á þeirri leið er sama heildsöluverð raforku um land allt. Þetta er sett skýrt fram í þeirri þáltill. um raforkumál, sem birt var sem stefnuyfirlýsing ríkisstj. á síðasta þingi. Að því verður vitanlega stefnt, að menn greiði ekki hærra verð fyrir raforku fyrir þá sök, að þeir búa á Akureyri, en ekki í Reykjavík. Þetta er margyfirlýst stefna ríkisstj., og byrja verður á því að jafna heildsöluverðið. En frumforsenda slíkrar jöfnunar raforkuverðs er vitanlega samtenging kerfanna, þannig að unnt sé að vinna raforkuna og flytja hana á sem hagkvæmastan hátt með nútímalegum vinnubrögðum.