11.12.1972
Efri deild: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Sjútvn. Ed. hafði ekki langan tíma til að rannsaka þetta mál, enda má segja, að það hafi verið búið að ræða það mikið og athuga áður. Hins vegar verð ég að segja það, að mér þótti leitt, að við skyldum ekki geta fengið botn í það mál, á hvern hátt þetta er í raun og veru til komið. Eins og hv. þm. þessarar d. muna, varð allmikil deila um það við 1. umr., hvort það hefði verið að algeru frumkvæði eigenda sjóðsins, sem farið var fram á þessa leið, eða hvort þeir hefðu haft hugboð um það, að aðrar leiðir kæmu ekki til greina. Þetta er í sjálfu sér mjög mikilvægt mál, vegna þess að stöðvun bátaflotans var það, sem þessir menn urðu að koma í veg fyrir, en erfitt er að sætta sig við það, að þetta sé sú leið, sem þeir óskuðu helzt eftir. Það byggi ég ekki sízt á því, að í þessum l. er einmitt tekið fram, að aldrei skuli greiða meira en helming verðlækkunar á erlendum markaði. Og það virðist vera, að það sé þarna eindregið átt við, að þessi sjóður sé til þess ætlaður að bæta upp, þegar verðfall verður erlendis. í því sambandi væri kannske ekki úr vegi að minnast á það, að þegar þessi sjóður varð til, var vandinn tvenns konar. Það hafði orðið mikið verðfell erlendis, en það hafði einnig orðið mikill aflabrestur. Hefði þessum sjóði verið ætlað upphaflega að bæta aflabrest, tel ég alveg augljóst, að það ákvæði væri að finna í þessum l., einmitt vegna þess, að þá var öllum í fersku minni aflabresturinn, sem varð á þessum árum. Kannske er þó meginatriðið það, að hér virðist þurfa eitthvað úr að bæta. Við höfum að vísu aðra sjóði, við höfum aflatryggingasjóð til þess að bæta laun sjómanna, þegar lítið fiskast, en hér virðist einhvers staðar þurfa að kveða nánar á, ef verður verulegur aflabrestur.

Það hefur komið fram í þessum umr., að ekki er hægt að segja,, að um neinn verulegan aflabrest sé að ræða. Á Íslandi, held ég, að sé ósköp erfitt að gera ráð fyrir því, að afli aukist jafnan ár frá ári, og við, sem erum fæddir og uppaldir við sjó, gerum okkur það örugglega ljóst, að fiskveiðar eru misjafnar frá ári til árs. Þar að auki eru, eins og bent hefur verið hér á, ýmsar ástæður fyrir því, að afli er aðeins rýrari nú þetta árið heldur en var í fyrra, m.a. það, að bátar, sem áður voru á þorskfiskveiðum eða bolfiskveiðum, sneru sér á þessu ári í auknum mæli að öðrum veiðum, svo sem skelfiski, loðnu o.fl.

En það, sem hér er um að ræða, er verðbólgan, eins og fram hefur komið. Það er ekkert um það að deila, að kostnaður við rekstur bæði fiskiðju og útgerðar hefur stóraukizt á þessu ári og hefur vafalaust aukizt meira en búizt var við. Þegar þar við bætist, að við síðustu kjarasamninga þurfti að taka tillit til atriðis, sem var nokkur nýlunda, þ.e.a.s. mikillar styttingar vinnuviku, finnst mér ekki ólíklegt, að það hafi gerzt, að vinnuveitendur hafi ekki metið til fulls þann kostnaðarauka, sem verða mundi við þessa ákvörðun. Ekki er vafi á því, að þetta atriði kemur einmitt harðast niður á fiskiðjunni, vegna þess að þar er ekki bægt að fresta vinnunni og þar er ekki hægt að stytta vinnuna. Þess vegna er kostnaðarauki fiskvinnslunnar mjög mikill í ár, og sumir hafa orð á því, að það muni vera 40–60% og þó allmisjafnt kannske eftir stöðum. Allt bendir því til þess, að það séu aðrar og veigameiri ástæður, sem liggja til örðugleika útgerðarinnar, heldur en aflabresturinn, þó að hann sé sannarlega erfiður, og það versta er, ef þarf að horfa á áframhaldandi þurrð fisks. Er þá komið að því, að hér virðist vera um afleiðingu af auknum tilkostnaði í landinu að ræða, sem þýðir nánast það, að gengi okkar sé orðið skakkt skráð.

Hvað sem þessu líður, leggjum við til í n., eins og getið var um, að þetta fé verði lagt fram, en lagt fram sem lán en ekki framlag. Mér finnst það eðlilegt, á meðan verið er að leita eftir öruggum leiðum til að bæta aflatjónið.