12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

286. mál, úrbætur í heilbrigðismálum í Ólafsfirði og Norður-Þingeyjarsýslu

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. 7. nóv. s.l. skall á hríðarveður um allt Norðurland, er stóð í 6 eða 7 sólarhringa. Snjómagnið var breytilegt frá einum stað til annars, en víða dreif niður miklum snjó, svo að flestir vegir urðu ófærir. Var talið, að snjódýptin í sumum héruðum væri á annan metra. Slíkt er ekki óvenjulegt á Norðurlandi, og má gera ráð fyrir slíkum snjó og jafnvel enn meiri, þó að inn á milli komi aftur snjóléttari vetur. Í fjölmiðlum í gærkvöld var frá því sagt, að 4 stórar vöruflutningabifreiðar hefðu verið í 30 klst. að komast frá Akureyri til Húsavíkur, en í öllu venjulegu er þessi leið farin á 11/2—2 klst. Snjódýptin á þessari leið er nú orðin svo mikil, að talið er, að engin leið sé að halda henni opinni að öllu óbreyttu. Því er svo komið, að a.m.k. í sumum sveitum norðanlands eru jarðýtur þau einu vélknúnu tæki, sem hægt er að nota til aðdrátta, nema þá þar sem snjóbílar eru fyrir hendi, en þeir eru því miður á mjög fáum stöðum.

Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla verður alltaf ófær í fyrstu snjóum, og í veðráttu eins og hefur verið í þessum landshluta nú á annan mánuð, er engin leið að halda þessum vegi opnum. Því má gera ráð fyrir, að Ólafsfirðingar séu innilokaðir langtímum saman flesta vetur. Þetta verður að hafa í huga t.d. varðandi heilbrigðisþjónustu á þessum stað. Henni verður ekki komið við, svo að nokkurt öryggi sé í, nema læknir sé staðsettur þar, a.m.k. yfir veturinn. Það verður að leggja ríka áherzlu á að fá lækni á þennan stað og aðra, sem eru ámóta og í Ólafsfirði.

Í Norður-Þingeyjarsýslu eiga nú að vera þrjú læknishéruð, en það er aðeins læknir á einum stað, þ.e.a.s. á Þórshöfn. Frá Húsavík og til Þórshafnar eru 224 km, þannig að menn sjá, við hvaða örðugleika þetta fólk á að búa í svona veðráttu. Heilbrigðisþjónustu hefur verið þannig komið fyrir í Norður-Þingeyjarsýslu, að læknirinn, sem nú er á Þórshöfn, fer einu sinni í viku til Raufarhafnar og læknar frá Húsavík koma hálfsmánaðarlega til Kópaskers, þegar færð leyfir. Ættu allir að sjá, að þetta ástand er alveg óviðunandi og þyrfti að vera læknir staðsettur á Kópaskeri, en þaðan er 101 km til Húsavíkur, og á þessari leið er erfiður farartálmi í snjóvetrum, þ.e.a.s. Auðbjargarstaðabrekkan, þar sem er líka mikil snjóflóðahætta, þegar mikill snjór er. Þess vegna hef ég leyft mér að koma með þessar fsp. til hæstv. heilbrmrh.:

„1. Hvað hefur verið gert til þess að reyna að fá lækni til Ólafsfjarðar í vetur? Er líklegt, að læknir fáist þangað, og þá hvenær?

2. Hvað hefur verið gert til þess að bæta heilbrigðisþjónustu í Norður- Þingeyjarsýslu?

3. Hefur verið reynt að fá lækni til Kópaskers eða Raufarhafnar yfir vetrarmánuðina?“

Það eru nú um 3 vikur síðan ég lagði þessa fsp. fram, og sem betur fer hefur orðið breyting síðan, þannig að læknir er nú í Ólafsfirði. En hvernig verður þetta í framtíðinni?