12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

99. mál, framkvæmd leyfisveitinga og annarra veiðitakmarkana í sjávarútvegi

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Þar sem svarbréf frá þeim fulltrúa í sjútvrn. sem með þessi mál hefur haft að gera, er þannig upp sett, að það svarar í rauninni öllum þeim spurningum í einu, sem hér er um að ræða, tel ég rétt aðeins að fara yfir spurningarnar og síðan yfir svarbréfið frá fulltrúanum. Spurt er: „Hvernig tekur sjútvrn. ákvarðanir um leyfisveitingar, fjölda báta, veiðitíma, veiðimagn og aðrar takmarkanir á veiði? Einkum er óskað upplýsinga um eftirgreind atriði: 1) Er ávallt leitað umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar? 2) Er leitað umsagnar annarra aðila? 3) Hefur ráðuneytið almennt farið eftir slíkum umsögnum, einkum Hafrannsóknastofnunarinnar?"

Svarbréf frá ráðuneytinu um þessi atriði er svohljóðandi:

„Þegar ráðuneytinu berast umsóknir um leyfi til veiða, sem leyfum eru háðar, en hér er einkum um að ræða rækju-, humar og skelfiskveiðar, þá eru þessar umsóknir nær undantekningalaust sendar Hafrannsóknastofnuninni og Fiskifélagi Íslands til umsagnar. Einnig eru oft og tíðum haldnir fundir með fulltrúum þessara tveggja stofnana, þar sem fyrirkomulag veiðanna er rætt. Eru slíkir fundir alltaf haldnir við upphaf vertíða, en bæði rækju- og humarveiðar eru árstíðabundnar, og bendir ýmislegt til þess, að skelfiskveiðar verði það líka.

Það mun óhætt að fullyrða, að hrein undantekning sé, ef ráðuneytið fer ekki í einstökum tilfellum eftir umsögnum Hafrannsóknastofnunarinnar, og einnig má segja, að heildarstefnan í þessum málum sé alltaf tekin í samráði við þá stofnun og Fiskifélag Íslands. Oftast hefur verið hægt að samræma skoðanir þessara tveggja stofnana, en í einu tilfelli á árinu 1971 greindi þær á um, hvort leyfa ætti rækjuveiðar á tilteknu svæði við Eldey vegna hættu á seiðadrápi. Í því tilviki fór ráðuneytið að ráðum Hafrannsóknastofnunarinnar.

Till. og umsagnir Hafrannsóknastofnunarinnar og Fiskifélagsins hafa einkum lotið að því að takmarka viðkomandi veiðar, og hefur þá annaðhvort verið miðað við, að leyft sé að veiða ákveðið magn á ákveðnu svæði, eða veiðarnar eru takmarkaðar við ákveðið svæði eða tiltekinn tíma eða hvort tveggja. Þannig voru humarveiðar stöðvaðar 1. sept. á síðustu humarvertíð hálfum mánuði fyrr en venja er til skv. till. Hafrannsóknastofnunarinnar og með samþykki Fiskifélagsins. Hafrannsóknastofnunin lýsti því yfir, þegar 1500 tonn af skelfiski höfðu veiðzt á Breiðafirði á þessu ári, að ekki væri óhætt að taka í ár meira en 3–5 þús. tonn á þessu svæði. Þegar þetta kom fram, var af rn. ákveðið í samráði við Hafrannsóknastofnunina og Fiskifélagið að takmarka frekari leyfisveitingar við báta skráða við Breiðafjörð, og þegar 5 þús. tonna markinu var náð, voru allar veiðar stöðvaðar að ráði sömu aðila. Rækjuveiðar verða ekki leyfðar í Breiðafirði a.m.k. til áramóta vegna tilmæla Hafrannsóknastofnunarinnar. Sömuleiðis eru rækjuveiðar nú bannaðar við Eldey og verða ekki leyfðar þar aftur, fyrr en Hafrannsóknastofnunin telur það óhætt vegna hættu á seiðadrápi. Rækjuveiði á Arnarfirði, Ísafjarðardjúpi og Húnaflóa hefur um langt skeið verið takmörkuð við báta skráða á þessum svæðum, enda séu eigendur þar búsettir. Er þetta gert til þess að draga úr sókn á þessi svæði. En aðrar till. um takmörkun á fjölda báta hafa aldrei verið gerðar fyrir þessi svæði eða önnur af Hafrannsóknastofnuninni eða öðrum aðilum. Rækjuveiðileyfi á þessum svæðum eru einnig bundin við ákveðið veiðimagn, þannig að ýmist er miðað við hámarksafla af ákveðnu svæði í heild eða við vikuafla einstakra báta eða allra báta á svæðinu eða þá að ákveðinn er dagsafli fyrir hvern bát. Við ákvörðun veiðimagns er alltaf og hefur alltaf verið farið eftir till. Hafrannsóknastofnunarinnar.

30. nóv. 1972.

Þórður Ásgeirsson.“

Þórður er fulltrúi í sjútvrn. og hefur haft með þessi mál að gera á undanförnum árum, að sjálfsögðu í samstarfi við ráðuneytisstjórann og í nokkrum tilfellum í beinu samráði við ráðh. En ég játa það, að síðan ég tók við ráðherrastörfum hef ég haft tiltölulega lítil afskipti af þessum málum, þar sem þetta er framkvæmdaatriði, sem unnið hefur verið að á þennan hátt, sem hér er greint, fyrst og fremst farið eftir till. Hafrannsóknastofnunarinnar.

Það er enginn vafi á því, að það er talsverðum vandkvæðum bundið að ætla að setja fastar reglur um það, hvernig fara skuli með veiðileyfi af þessu tagi, því að þar verða oft á snöggar breytingar. Reynslan hefur líka verið sú, að sitt sýnist hverjum um það, hvernig eigi að framkvæma takmarkanir af þessu tagi. Það kemur auðvitað fram gagnrýni, sumir telja allt of langt gengið í því að hamla veiðum og aðrir vilja hafa annan hátt á í sambandi við hömlukerfi en ákveðið hefur verið. En ég held, að kjarni þessa máls sé sá, að það hafi verið farið að ráðum Hafrannsóknastofnunarinnar og Fiskifélagsins í öllum þeim atriðum, sem hér skipta máli, og það er í rauninni, eins og segir í bréfi fulltrúans, undantekning, ef annað er gert.

Í sambandi við skelfiskveiðina á Breiðafirði vil ég segja það, að þar var í einu og öllu farið að tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, og þegar veiðin þar var stöðvuð, var hún í sjálfu sér ekki stöðvuð skyndilega, því að það hafði verið tilkynnt með löngum fyrirvara, hvert ætti að vera heildarmagnið, sem mætti veiða á svæðinu. En veiðin varð miklu meiri en menn höfðu gert ráð fyrir, það gekk hraðar á heildarmagnið, og þá kom að því að veiðin var stöðvuð.

Á meðan ég hef með þessi mál að gera, mun ég fylgja þeirri reglu að fara í öllum aðalatriðum að till. fiskifræðinga um allt það, sem lýtur að fiskifræðilegum efnum varðandi þessi mál, en útfærsla á vissum vinnubrögðum verður auðvitað að ákveðast af ráðuneytinu, því að um það eru fiskifræðingar ekki dómbærari en aðrir, t.d. í sambandi við bátastærðir eða annað, sem snertir veiðarnar sjálfar.

Ég vænti svo, að þetta sé fullnægjandi svar fyrir hv. fyrirspyrjanda.