12.12.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Vitanlega er það mikið vandamál, sem á hefur verið drepið hér utan dagskrár. En það er ekki nýtt, að vandræðaunglingar séu á ferðinni. Það var fyrir mörgum árum stofnað upptökuhæli fyrir vandræðadrengi í Breiðuvík vestur í Barðastrandarsýslu. Þetta heimili hefur starfað undanfarin ár. Mig minnir, að þar sé pláss fyrir 20 drengi. Mig minnir einnig, að ég hafi lesið í blöðum í haust, að það væri ekki helmingur þar af því, sem hægt væri við að taka. Hæstv. forsrh. var að lýsa vandræðabarninu, sem lögreglan réði ekkert við og virtist ekki vera iðrandi, eins og hæstv. ráðh, sagði. Það ráð var tekið að loka hann inni í kvennafangelsi. Hefur ekki verið athugað, hvort pláss er vestur í Breiðuvík fyrir þennan dreng og fyrir fleiri vandræðadrengi? Ég held, að það væri miklu betra að koma þessum vandræðadrengjum, sem nú ganga lausir og alltaf eru að brjóta af sér þangað vestur, heldur en loka þá inni í fangelsi, því að unglingar á þessum aldri eru viðkvæmir, og það er vissulega mikið vandamál, hvernig með þetta skuli fara. Unglingar, sem brjóta af sér, þurfa að verða fyrir uppeldisáhrifum, og þeir þurfa að komast á þá staði, þar sem líklegt er, að þeir geti betrazt. Unglingurinn betrast tæplega við að vera lokaður inni í fangelsi. En það var gert að loka þennan eina pilt inni, vegna þess að hann var að brjóta af sér æ ofan í æ. Og þannig er með allt of marga unglinga, sérstaklega hér í Reykjavík. Það virðist ganga yfir afbrotafaraldur unglinga. Þess vegna ætti að nota það hæli, sem til er fyrir afbrotadrengi.

Orsakanna er vitanlega erfitt að leita, en ýmsir velta því fyrir sér, að það geti verið vegna drykkjuskapar og eiturlyfjaneyzlu unglinganna sjálfra og þá einnig heimilanna, sem ekki gefa sér tíma til að hugsa um unglingana. Það er nú svo, að þótt við hér á Alþ. veltum þessum málum fyrir okkur, þá mun verða erfitt að leysa þau og finna heppilega lausn á þessum vandamálum. En ég er fylgjandi því, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan og einnig hv. 7. þm. Reykv., að eitthvað þurfi að gera í þessu efni, það þurfi að gera ráðstafanir fyrir þessa unglinga og vinna að því, að þeir geti orðið fyrir hollum og bætandi áhrifum. Það má ekki loka drengina inni. En þeir þurfa að verða fyrir hollum og bætandi áhrifum, og þeir þurfa helzt að fá eitthvert verkefni við sitt hæfi, læra að vinna. Og vinnuhælið eða upptökuheimilið í Breiðuvík er vísir í þessa átt. Mér finnst, að hæstv. forsrh. þurfi að stuðla að því, að þetta heimill verði notað til fulls, á meðan margir unglíngar, sem alltaf eru að brjóta af sér, ganga lausir. Það er sýnilegt, að þeir þurfa að komast á stað, þar sem þeir geta orðið fyrir bætandi áhrifum. Ég veit ekki annað en upptökuheimilið eða vinnuheimilið í Breiðuvík hafi fengið gott orð á sig. Ég hef heyrt það, að ýmsir unglingar, sem þar hafa verið, hafi komið batnandi eftir dvölina þar.