16.12.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er kannske erfitt að komast í gegnum þetta líf án þess að Jóhann Hafstein: Herra forseti. Það fer nú að verða gaman að hæstv. forsrh. Allur þingheimur kvartar undan því allajafna, að það heyrist aldrei neitt í honum, hann muldri í barm sér eitthvað, sem enginn heyrir í þingsölunum. En menn gera enga aths. við það og láta það gott heita. Hann fór þó að hvessa sig núna, blessaður.

Hæstv. forsrh. sagði hér, og það hefur einnig verið sagt í blaði hans, að það hafi aldrei verið hagað vinnubrögðum eins og nú í sambandi við lausn efnahagsmála og að stjórnarandstaðan hafi fengið álit sérfræðinga nokkurn veginn jafnsnemma í hendur og sjálf ríkisstj. Þetta vil ég leiðrétta. Nú verð ég að hressa upp á minnið hjá hæstv. forsrh. Við skulum taka haustið 1968, þegar við viku eftir viku, stjórnarliðar, sátum með fulltrúum stjórnarandstöðunnar, þ. á m. núv. forsrh. (Forsrh.: Við vorum látnir húka í biðstofunni.) Hæstv. forsrh. var sannarlega ekki látinn húka í biðstofunni, hann sat viku eftir viku á fundum með ríkisstj. (Forsrh.: Það eru fleiri til frásagnar um það en ég.) Ætlar hæstv. forsrh. að neita því, að hann hafi setið þá með ríkisstj. á fundum um lausn efnahagsvandamálanna? (Forsrh.: Á endanum boðið inn.) Á endanum boðið inn? Honum hefur líklega verið boðið að sitja á óæðri endanum, en var það svo merkilegt? Það er næsta furðulegt, hvernig forsrh. hagar sér, því að haustið 1968 var stjórnarandstæðingum boðið að hefja viðræður við fulltrúa ríkisstj. um þann mikla vanda, sem þá var í efnahagsmálunum. Þá var nefnilega við verulegan vanda að glíma í efnahagsmálunum. Og það var látið uppi af þáv. ríkisstj. og fulltrúum hennar, að einmitt viðræður, sem þá var stofnað til við stjórnarandstæðinga, gætu alveg eins leitt til þess, — ef þeir yrðu menn til þess að taka á sig einhverja ábyrgð á þeim hlutum, sem gera þyrfti, — þá gæti það alveg eins leitt til breytinga á ríkisstj., sem þá var. Þá var hvert einasta atriði, sem ríkisstj. sjálfri var kunnugt um í efnahagsmálunum, og álit sérfræðinga og hvers konar skýrslur í því efni látnar þessum mönnum í té, og þeir þurftu alls ekki að lesa það á biðstofum, því að þeir fengu að fara með það heim til sín og hafa það með höndum alveg eins og ráðh. En það endaði auðvitað með því, að engir af fulltrúum stjórnarandstöðunnar vildu bera neina ábyrgð á þeim aðgerðum, sem gerðar voru, þ.e.a.s. gengislækkun, þegar að henni kom.

Það var raunverulega ekki talað nema um tvo höfuðvalkosti þá, þar sem nú er talað um þrjá. Annars vegar millifærsluleið, sem nú er kölluð, og hins vegar gengislækkun. Stjórnarandstæðingar fengust þá aldrei til þess að flytja neinar till., sem nokkru máli skiptu í sambandi við lausn efnahagsvandans, — alls engar, og höfðu þeir þó öll plögg og öll gögn í höndum, eins og ég hef lýst. Þess vegna vil ég, eins og ég sagði áðan, hressa upp á minni hæstv. forsrh. og leiðrétta þetta, því að það er alrangt, að það sé einhver nýlunda nú, að stjórnarandstöðu séu látin í té öll þau sömu gögn og sama vitneskja og ríkisstj. sjálf hefur í höndum í sambandi við lausn efnahagsmála.

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri algert aukaatriði, hvað hann segði eða hefði sagt. Ég held, að þetta sé eini forsrh. í heimi, sem kemur fram fyrir þingheim og lýsir yfir: Það er alveg sama, hvað ég segi. — Þetta er einsdæmi, held ég. En þegar mönnum verður á að lýsa yfir einhverri glópsku eða gera eitthvað, sem er þannig vaxið, að ráðh. gerir sér grein fyrir því sjálfur, að þetta mátti betur fara og ætti betur að fara, þá er sú leið viðhöfð í þingræðislöndum, og það eru mörg dæmi þess, að þá kemur ekki ráðh. og segir: Það skiptir engu máli, hvað ég segi. — Hann segir: Því miður hef ég ekki sagt það, sem ég vildi sagt hafa. Ég hefði átt að segja annað, og ég tek afleiðingunum af þessu og segi af mér. — Það er nefnilega dálítið atriði, hvað forsrh. segir.

Það var gripið fram í hér áðan, þegar hæstv. forsrh. minntist á Bjarna heitinn Benediktsson og vildi taka hann sem fordæmi. Auðvitað mátti af því skilja, að hann ætlaði sér að hafa skjól af Bjarna Benediktssyni, og þá var réttilega gripið fram í, að hann mundi lítið skjól geta haft af þeirri persónu, og ég hygg, að það hafi verið sannmæli. En þegar Bjarni Benediktsson lýsti því yfir, — eins og hæstv. forsrh. segir, að ekki yrði gripið til gengislækkunar haustið 1968, þá vil ég minna á, að þá var gengislækkun gerð, eftir að pundið var fallið, og við Íslendingar höfum jafnan verið, og vorum þá alveg sérstaklega háðir pundinu. Og það var, held ég, enginn, sem gat álitið þá, að við yrðum ekki fyrir áhrifum af þeirri gengisfellingu.

Ég minni á, að það er ekki fyrst núna, sem ríkisstj. er að lækka gengi íslenzku krónunnar. Hún lækkaði gengið í fyrra um 8% eða eitthvað því um líkt, þegar dollarinn féll. Og hún hefur ekki verið ásökuð sérstaklega fyrir það, að krónan félli þá um leið og dollarinn. Ég hef hins vegar bent á það mörgum sinnum, að ríkisstj., — ég held, að ég fari rétt með það, — að bæði hæstv. viðskrh. og ég held seðlabankastjórinn einnig hafi haft orð á því á opinberum vettvangi, að færi svo, að dollarinn félli, þá væri það þó að athuga, að um það bil 60% af gjaldeyrisöflun okkar væru í dollurum, en um 40% í Evrópugjaldeyri, þá kæmi til álita að fara bil beggja, ef til gengisbreytinga kæmi, með hliðsjón af þeim hlutföllum, sem í gjaldeyrisöflun okkar væru, annars vegar í dollurum og hins vegar í öðrum gjaldeyri, sem þá féll ekki, en þvert á móti hækkuðu a.m.k. sumar tegundir gjaldeyrisins, eins og þýzka markið.

Hæstv. forsrh. talaði með miklum hávaða um skítkast Morgunblaðsmanna. Ég held nú, að hæstv. forsrh. sé ekki meiri þörf á neinu í dag heldur en aurhlíf fyrir því moldviðri, sem hann sjálfur þyrlar upp í kringum sig. Hann er tvisvar sinnum búinn að gefa þessar dæmalausu skýringar á stjórnarsáttmálanum og ætlar að skýla sér á bak við það, að þar væri ekki lýst yfir, að núv. ríkisstj. mundi ekki grípa til gengislækkunar. Það hefur verið uppistaða í málflutningi stjórnarsinna, að það væri einn meginmunur á fyrrv. ríkisstj. og þessari, að þessi ríkisstj., sem nú væri, hefði gerbreytt um stefnu, hún ætlaði sér ekki að fara gengislækkunarleiðina, sífellda gengislækkunarleið. En slíkar leiðir hafa meira að segja verið álitnar svo slæmar, að þær eru taldar koma af stað afbrotum unglinga. Eftir að stjórnarsáttmálinn var kunngerður, hefur þetta verið áframhaldandi uppistaðan í málflutningi þeirra, og ég hef alveg sannar fréttir af því, að á fundum hjá framsóknarmönnum sjálfum, — og það getur vel verið, að svo hafi verið hjá öðrum stjórnarsinnum, en sérstaklega á ég hér við fundi framsóknarmanna á s.l. hausti um allt land, — þá hafi einmitt komið fram hjá þeim sá boðskapur, að það yrðu fundnar aðrar leiðir en gengislækkunarleiðin, því að þessi ríkisstj. ætlaði sér ekki að brenna sig á sama soðinu og fyrirrennarar hennar í þeim efnum. Og með staðfestingu á þessu m.a. var hv. 1. þm. Sunnl. í þinginu fyrir nokkrum dögum í blaði, framsóknarmanna á Suðurlandi, — Þjóðólfur, held ég, að það heiti, — þar sem þeir segja frá fundi, sem þar hafði verið haldinn, pólitískum fundi, og þar er haft eftir sjálfum fjmrh., að núv. ríkisstj. muni ekki grípa til gengislækkunar. Það var enginn að þvinga hann um þetta eða spyrja hann um það. Þess vegna setti menn hljóða, þegar menn heyrðu skýringar hæstv. forsrh. í hljóðvarpi á stjórnarsáttmálanum fyrir nokkrum kvöldum, þegar hann fór að tala um, að þar væri bara verið að tala um þann vanda, sem við var að glíma í efnahagsmálum, þegar núv. ríkisstj. tók við, að öðru leyti væri ekkert, sem máli skiptir, um gengislækkun eða ekki gengislækkun í þessum stjórnarsáttmála.

Önnur stjórnarblöð hafa nú litið á þetta allt öðruvísi, hæði Þjóðviljinn, Nýtt land o.fl., svo sem auðvelt er að rekja. En það getur vel verið, og ég skal ekkert um það segja, dæmi ekkert um það, því að ég hef ekki sérstaklega tekið eftir því, að einhver blöð hafi sagt, að forsrh. hafi sagt í umr. á Alþ. nú nýlega, að ekki yrði gripið til gengislækkunar, og þetta sé ekki rétt, það sé ekkert hægt að finna í ræðum hans um það. En þá var verið að ræða hér í þinginu um tímabundnar efnahagsráðstafanir, og forsrh. gaf þá hinar merkilegu yfirlýsingar sínar um sína persónulegu skoðun, sem hann sjálfur er nú að segja, að eigi ekkert að taka mark á lengur og yfir höfuð ekki, þegar hann talar, því að hann komist kannske á einhverja aðra skoðun og þá ætlar hann að fylgja henni. Og það var út af þessum umr. í þinginu, sem ríkisútvarpið hafði viðtal við hæstv. forsrh. eins og hann var að víkja að, og þar segir í fréttum útvarpsins, í útdrættinum, sem fyrir liggur í skjölum útvarpsins og ég hef ljósrit af, að „forsrh. sagði í dag, að hann áliti, að verðstöðvun ætti að standa næsta ár og gengislækkun yrði ekki, á meðan núv. stjórn væri við völd“. Á þessum tíma var fréttaviðtal, var talað við forsrh., og í það er svo vitnað í seinni fréttatímanum þetta sama kvöld, og um það liggja fyrir þessar skjallegu sannanir, sem ég hef hér í höndum, með leyfi hæstv. forseta:

„Ólafur Jóhannesson forsrh. mælti í dag fyrir frv. til staðfestingar á brbl. um tímabundnar efnahagsráðstafanir. Í viðtali við fréttastofuna í kvöld gerði hann grein fyrir persónulegu áliti sínu á verðlagsmálum o.fl. og sagði það sitt álit, að verðstöðvun ætti að standa út næsta ár. Hann áliti, að niðurgreiðslur þetta tímabil mundu kosta 800–1000 millj. kr. Hann kvaðst telja, að beinir skattar ættu ekki að hækka, en sagði það sitt álit, að leggja ætti á óbeina skatta, sem þá væru ekki teknir inn í vísitöluna.“ Og svo endar þessi frásögn: „Forsrh. kvað gengislækkun ekki gerða af núv. ríkisstj.

Sé nú ekkert í sjálfum ræðunum í Alþ. af slíkum staðhæfingum sem þessum, eins og hæstv. forsrh. segir, þá finnst mér það ekki höfuðsynd, þó að einhverjum hafi orðið á að blanda málum, að forsrh. hafi sagt þetta í þinginu, þegar í tvígang eru höfð eftir honum þessi ummæli og hann sjálfur í viðtali viðhefur þau í fréttum ríkisútvarpsins um kvöldið vegna þessara umr. En nú kemur hæstv. forsrh. og segir: Ég gat ekkert annað sagt, þegar ég var að því spurður, og ég mátti ekki segja neitt annað. — Það eru farnir að verða nokkuð furðulegir tilburðir hæstv. forsrh. í sambandi við gengislækkunarmálin, en það var mjög ánægjulegt, að hann skyldi gefa sérstaka ástæðu til þess, að þessi mál yrðu rædd nú. Ég gerði þetta að umtalsefni hér um miðnættið við 2. umr. fjárl. Hæstv. forsrh. var þá ekki viðstaddur þær umr. frekar en margir aðrir ráðh., sem kannske gerði ekki svo mikið til, því að það er rétt, sem við sögðum, að það var um markleysu að ræða, að 2. umr. um fjárl. færi fram, eins og þá var í pottinn búið. En ég held, að það sé alveg gersamlega óþarfi, eins og hæstv, forsrh. var að skora á mig, að fara í einhverja lúsarleit í ræðum hans, þegar hann sjálfur hefur viðhaft þessi ummæli, sem skjalfest eru og ég hef lesið hér upp, þegar verið er að ræða við hann í áheyrn allrar alþjóðar um það, hvað hann hafi sagt í þinginu þennan sama dag.