16.12.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

33. mál, efling Landhelgisgæslunnar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Mér þykir leitt, ef svo er, að menn geti ekki orðið sammála um afgreiðslu þessarar till. Í þessari till. liggur ekki annað fyrir en heimild til handa ríkisstj. til að láta hefja athugun á undirbúningi um smíði skips eða athugun á kaupum á skipi. Ríkisstj. getur a.m.k. ekki formlega hafizt handa í þessu efni nema fá þessa heimild. Hitt er svo auðvitað, að öllum er ljóst, að áður en til framkvæmda kemur í þessu efni, á hvorn veginn sem verður, þá verður að afla fjár til þess. Ég get hugsað mér, að eitthvað þessu viðkomandi verði tekið inn á heimildagr. fjárl. Í annan stað vil ég segja, að ég tók frv. sjálfstæðismanna um eflingu Landhelgissjóðs vel, og ég hef gert ráð fyrir því, að það yrði afgreitt á þessu þingi í einhverri mynd, en ekki þar með sagt, að það yrði afgreitt í þeirri mynd, sem það er í nú. Ég held, að það sé ekki ástæða til að kvarta neitt óskaplega yfir því, þó að ekki sé búið að afgreiða það. Ég held, að það liggi æðimörg frv. fyrir í n. óafgreidd, meira að segja æðimörg stjfrv., þannig að ég held, að það þurfi ekki að örvænta um, að þetta frv. verði afgreitt, þó að það hafi ekki enn þá komið til afgreiðslu.

Ég ætla ekki að fara að svara hv. þm. Matthíasi Kjarnasyni um Landhelgisgæzluna. Það er rétt, að hans orð standi sem vitnisburður hér.