06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

120. mál, rannsókn á reki gúmbjörgunarbáta

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum taka undir það, sem frsm. hefur sagt um mikilvægi þessa máls, og sérstaklega leggja áherslu á, að það starf, sem hefur verið unnið af sérfræðingi hjá Raunvísindastofnun háskólans, er mjög mikilvægur grundvöllur í þessu máli öllu. Eins og kom fram hjá frsm., er gert ráð fyrir því, að unnt verði að reikna með tölvu háskólans líklegt rek björgunarbáta við hinar ýmsu aðstæður. Ég held, að prógrammið sé æðilangt komið, og sömuleiðis, að því er ég best veit, eru þegar fyrirliggjandi mikilvægar upplýsingar, bæði um strauma hér við land frá rannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar og einnig að sjálfsögðu um vinda, eins og þeir gerast tíðastir, frá Veðurstofu Íslands. Ætlunin er, að þessa þætti og jafnvel fleiri verði unnt að setja inn í umrætt prógramm og þá þannig áætlað í tölvunni, hvert líklegt megi telja, að björgunarbát reki við aðstæður á þeim stað og þeirri stundu. Ég held því, að í raun og veru sé það mikilvægasta í þessu að reikna út slíkt dæmi og sannprófa það með tilraunum. Vitanlega er það dálítið erfitt við að eiga, því að útreikningarnir verða að byggjast á ákveðinni aðstöðu á ákveðnum tíma og ákveðinni stundu. Ég held, að það sé hægt að gera það þegar í dag að vissu leyti, þó að prógrammið hljóti stöðugt að verða nákvæmara og betra, eftir því sem meiri reynsla fæst. Það er skoðun mín, að sú n., sem fær þetta til meðferðar, ætti að kynna sér vandlega það, sem hefur verið gert, m. a. ræða við þann sérfræðing, sem nefndur var hér áðan, Þorbjörn Karlsson, um málið og athuga, hvort með þessari till. megi ekki hraða framgangi þessa máls á þeim grundvelli, sem hefur verið lagður hjá Raunvísindastofnun háskólans.