25.10.1973
Sameinað þing: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

5. mál, varanleg gatnagerð í þéttbýli

Flm. ( Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 5. þm. Vesturl., Jónasi Árnasyni, að flytja þáltill. um aðstoð við varanlega gatnagerð í þéttbýli og rykbindingu þjóðvega. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera þegar í stað róttækar ráðstafanir til þess að auðvelda sveitarfélögum að standa að varanlegri gatnagerð.

Stefnt verði að gerð 5 ára framkvæmdaáætlunar á sviði varanlegrar gatnagerðar, sem taki til allra þéttbýlisstaða með 200 íbúa og fleiri. Í þessu skyni skal m. a. leitað eftirtalinna leiða:

1. Ríkið útvegi sveitarfélögum lánsfé til framkvæmdanna. Á framkvæmdaáætlun ríkisins hvert ár skal vera ákveðin upphæð til varanlegrar gatnagerðar í þéttbýli. Fé þetta skal lána sveitarfélögum með hagstæðum kjörum.

2. Hlutur sveitarfélaga af bensínskatti verði aukinn svo, að hið svokallaða þéttbýlisvegafé tvöfaldist. Einnig verði endurskoðaðar reglur um úthlutun fjárins og fólksfjöldatakmörk þeirra sveitarfélaga, sem fjárins njóta.

3. Ríkið taki á sig stóraukna hlutdeild í rykbindingu þjóðvega, sem liggja um kaupstaði og kauptún.

Jafnhliða þessu skal gert verulegt átak í því af hálfu ríkisins að rykbinda þjóðvegi, þar sem þeir liggja um bæjarhlöð bænda og gegnum ræktunarlönd.“

Í grg. till. eru nokkuð raktar ástæðurnar fyrir flutningi hennar, sem eru reyndar margþættar. Sveitarfélögin eru mjög misjafnlega á vegi stödd með gatnagerð sína. Einstaka þeirra búa við allsæmilegt ástand, Reykjavík í krafti aðstöðu sinnar þó auðvitað langbesta. Langflest sveitarfélögin hafa hins vegar búið við óhæft ástand gatna, sem hafa, eins og í grg. stendur, verið forarleðja ein í rigningatíð, en umbreyst í mikla rykmekki í þurrkum. Fyrst nú á síðari árum hafa sveitarfélögin almennt farið að líta á það sem óhjákvæmilegt verkefni sitt að koma þessum málum í betra horf, leggja götur varanlegu slitlagi með tilheyrandi umbótum í holræsakerfi sínu, þ. e. gera verulegt stórátak til þess að gerbreyta ástandinu í gatnakerfi sínu og allri ásýnd staðanna. Segja má, að alls konar umr. um hreinlætis- og hollustuaðstöðu, m. a. í sambandi við okkar dýrmæta matvælaiðnað, hafi hér miklu um valdið. En mestu hefur þó tvímælalaust ráðið um aðgerðaleysi sveitarfélaganna margra hverra í þessum málum sú staðreynd, að þau hafa verið að sinna öðrum verkefnum og blátt áfram ekki getað af fárhagsástæðum sinnt svo dýru og veigamiklu verkefni.

Þá vaknar sú spurning með tilliti til stórframkvæmda á þessu sviði í dag, sem hvarvetna blasa við, hvort hagur og aðstæður sveitarfélaganna hafi breyst svo mjög til batnaðar, að nú geti þau auðveldlega leyst þetta verkefni af hendi og það á skömmum tíma. Ekki er það svo vel, þó að óneitanlega hafi ráðstöfunartekjur til framkvæmda aukist hjá sveitarfélögunum með tilkomu nýrra tekjustofnalaga. Það eitt hefur gerst, að verkefnið er allt í einu komið í forgangsröð. Krafa íbúanna er sú, að hér verði á gerð stórkostleg bragarbót. Fólk unir því einfaldlega ekki, að það sé einkaréttur þeirra, sem í mesta þéttbýlinu búa, að hafa mannsæmandi götur, sem framar öðru tryggja bætt umhverfi í heild í hinum mörgu kauptúnum og kaupstöðum víðs vegar um landið. Þessi er sú meginástæða, sem því veldur, að þetta er nú eitthvert helsta, en um leið fjárfrekasta verkefnið, sem sveitarfélögin glíma við. Og við blasir nú augljósa staðreynd, að sveitarfélögin ráða ekki við þessa framkvæmd með óbreyttu fyrirkomulagi.

Núgildandi skipting og upphæð þéttbýlisvegafjár var ákveðin með allt aðrar framkvæmdir í huga, með minna umfang og af allt annarri gerð og ódýrari. Það, hve hraða þarf framkvæmdunum, m. a. vegna krafna erlendis frá, frá viðskiptavinum okkar, um aukið hreinlæti, kallar enn fremur á sérstaka aðstoð við fjármagnsútvegun. Ríkisvaldið kemur óhjákvæmilega inn í þessa mynd á allt annan og virkari hátt, þegar sveitarfélögin ætla á stuttum tíma að gerbreyta gatnakerfi sínu og raunar allri ásýnd staðanna til bóta. Því er þessi till. flutt, ef vera mætti, að þar væri að finna leiðir til úrbóta.

Í fyrsta lagi er í till. bent á, að nauðsynlegt sé að gera áætlun um brýnustu framkvæmdir á þessu sviði. Til þess bæði að gera sér nokkra grein fyrir umfangi verkefnisins, svo og besta fyrirkomulagi á framkvæmd, hlýtur þetta að teljast sjálfsagt. Svo mjög sem nú tíðkast að gera áætlanir um hvað eina, þá gildir það alveg tvímælalaust um þetta verkefni. Um það ætti enginn ágreiningur að verða.

Í 1. tölul. till. er bent á þá nauðsyn, sem sveitarfélögunum er á því að fá fjármagn að láni með hagstæðum kjörum. Það hlýtur að teljast sjálfsagt, að ríkið komi hér enn frekar á móti sveitarfélögunum en gert er, og skal þó t. d. síst vanmetið það framlag, sem Lánasjóður sveitarfélaga nýtur á fjárl. ár hvert, en það framlag fer vitanlega til margra og mismunandi verkefna. Það telst ekki óeðlilegt, þegar þetta verkefni er komið í fremstu röð velflestra þéttbýlisstaða á Íslandi, að til þess sé sérstaklega varið í fjárhæð til lána handa sveitarfélögum.

Aðalþungi till., má segja, að liggi í tölul. 2, þar sem lagt er til, að hlutur sveitarfélaga í bensínskatti eða kannske réttara sagt heildartekjum til vegamála ár hvert verði aukinn svo, að hið svokallaða þéttbýlisvegafé tvöfaldist. Hér er vissulega um stórt stökk að ræða og reyndar miðað við að miklu leyti annan skilning á notkun þessa fjár en er í núgildandi vegal., enda er það megintilgangur till. í heild að hreyfa við ýmsum ákvæðum í þeim lögum. Okkur sýnist sem sé, flm., að hér þurfi breytinga við, þótt um það megi svo deila, hve langt á að ganga. Þegar reglurnar um þéttbýlisvegafé voru upphaflega settar og prósenta þess af heildarupphæð ákveðin, var það við allt aðrar aðstæður en nú ríkja, eins og ég sagði áðan. Fyrst og fremst var þá um að ræða gerólíkt umfang framkvæmda á vegum sveitarfélaganna og af allt annarri gerð, sem útheimti ólíkt minna fé. Það er því ekki óeðlilegt, að á þessu verði breyting nú, þegar svo stór viðfangsefni eru á döfinni.

Hvort bensínskatturinn verði í heild aukinn sem þessu nemur, til þess er á þessu stigi ekki tekin afstaða, en reynist það nauðsynlegt vegna annarra vegaframkvæmda, verður að skoða það mál á jákvæðan hátt.

Sú upphæð, sem sveitarfélögin fengu til sinnar ófullkomnu gatnagerðar, var þeim óneitanlega mikil hjálp, en nú er hér um alls ófullnægjandi upphæð að ræða, sem þarf óhjákvæmilega að taka til endurskoðunar. Svo þýðingarmikið mál sem hér er á ferð, er ekki hægt að láta sitja í sama farinu, búa við óbreytt ástand ár eftir ár, nema hvað krónutala hækkar nokkuð til samræmis við verðhækkanir almennt. Hér þarf því endurskoðunar og athugunar við. Til þess þarf vissar breytingar á vegal. En hið sama má segja um þá tölul. till., sem lúta að íbúafjölda þeirra staða, er þéttbýlisfjár njóta, svo og þátttöku ríkisins í rykbindingu þjóðvega, er liggja gegnum kaupstaði og kauptún og koma hér reyndar beint inn i. Allt eru það atriði, sem ýmist snerta vegal. beint eða reglugerðir þar að lútandi.

Þegar sveitarfélögin á Austurlandi hófu samræmt átak í gatnagerðarmálum sínum s. l. sumar, — átak, sem vegna samvinnu og uppbyggingar framkvæmda er vissulega til fyrirmyndar, þá kom upp það vandamál, hvernig minnstu þéttbýlisstaðirnir fengju risið undir þessu verkefni, þ. e. þeir, sem vegna ákvæða í lögum fengu ekki úthlutað þéttbýlisfé og stóðu því mun lakara að vígi en önnur sveitarfélög, sem í þéttbýli voru. Í till. okkar hv. 5, þm. Vesturl. er einmitt vikið að því, að þessi ákvæði skuli endurskoðuð, og bent á töluna 200 til viðmiðunar í stað 300 áður. Í grg. er tekið fram, að þessi tala sé aðeins til ábendingar, en annars megi vel hugsa sér aðra tölu lægri eða jafnvel að miðað sé við alla þéttbýlisstaðina. E. t. v. er það sanngjarnast að mörgu leyti, en með því að færa markið úr 300 í 200 er vissulega komið töluvert til móts við minnstu sveitarfélögin, sem gætu nú fleiri notið góðs af þessum sameignarsjóði ríkis og sveifarfélaga, sem bensíngjaldið er að mínu viti og mínum skilningi, og þó einkum ef hækkun fengist fram á heildarupphæð þéttbýlisvegafjár, eins og till. gerir sérstaklega ráð fyrir. Frá sýslufundi Suður-Múlasýslu hefur einmitt komið fram eindregin krafa um breytingu í þessa átt, og tillögumaður þar var einmitt hv. 5. þm. Austf., sem ég veit að hefur fullan hug á að fylgja því máli eftir innan þings.

Eflaust er víðar svipað ástand og eystra, að nokkrir þéttbýlisstaðir ná ekki tilskildu lágmarksákvæði nú, en mundu með breytingunni komast í jafnréttisaðstöðu á borð við hin fjölmennari og um margt betur settu sveitarfélög.

Þá vil ég víkja að því atriði um endurskoðun þeirra reglna um úthlutun þéttbýlisvegafjár, sem till. gerir ráð fyrir. Eflaust er hér komið að umdeildasta og viðkvæmasta atriðinu, því að hver vill halda sínu, hvernig sem aðstaða hans er og geta til framkvæmda að öðru leyti. Í grg. er sérstaklega vikið að þessu atriði og þar m. a. á það bent, hve vafasamt sé að láta fólksfjöldann einan ráða útdeilingunni. Reykjavík, sem í krafti sinnar góðu aðstöðu hefur getað framkvæmt langmest á þessu sviði og er hiklaust langbest sett í þessu efni, nýtur árlega nær helmings alls þess fjár, sem veitt er á þessum lið, aðeins í krafti íbúatölu sinnar, án alls tillits til ástands gatnakerfis hinna ýmsu staða. Þau önnur sveitarfélög, sem fjölmennust eru og komin eru vel á veg með sínar framkv., hafa kannske einnig nokkra. sérstöðu. Nú er ég alls ekki að segja það, að stórlega eigi að skerða hlut Reykjavíkur eða þeirra þéttbýlisstaða, sem best eru settir, því fer fjarri, að við flm. höfum það í huga, enda leggjum við til samhliða þessari endurskoðun stórhækkun á upphæð þéttbýlisvegafjárins í heild. En með breyttum reglum um útdeilingu þessa fjár, — reglum, sem m. a. tækju tillit til þess sérstaklega, hvernig ástand gatnakerfis hinna einstöku staða kann að vera, hvar á vegi þau eru stödd með sínar framkvæmdir, aðstöðu sveitarfélagsins í heild, m. a. vegna mismunandi landslags í sveitarfélögunum og ýmissa erfiðleika þess vegna, svo og annars þess, sem hér kemur inn í heildarmyndina; þá gæti eðlilega svo farið, að Reykjavík fengi hlutfallslega ekki eins mikinn skerf og nú, einfaldlega af því að staða hennar reyndist svo góð samanborið við önnur sveitarfélög, og þá hlýtur að teljast sanngjarnt, að eftir því færi um hennar réttláta skerf. Hér kæmi framkvæmdaáætlun og ítarleg könnun, sem þar kæmi fram, að góðu gagni við ákvörðun nýrra reglna. Það eitt er ljóst að íbúafjöldinn einn segir hér ekki alla sögu, og þótt sá mælikvarði sé einfaldastur og um margt eðlilegur að hluta, hljóta önnur sjónarmið að koma til einnig, og til þeirra verður að taka sérstakt tillit. Því er fram á þessa endurskoðun farið. En hér koma fleiri atriði inn í en svo, að þau sé hægt að rekja nákvæmlega. Aðeins skal á það bent, að sjálfsagt hlýtur að teljast, að um þá endurskoðun sé haft náið samráð við Samband ísl. sveitarfélaga, og á það raunar við um önnur þau atriði till., sem lúta beint að sveitarfélögunum, ef þessi till. verður samþ.

Ég kem þá að þeim hluta till., sem lýtur að þjóðvegum, sem liggja um kaupstaði og kauptún. Hér um hef ég a. m. k. alveg sérstaka skoðun. Þar er um mjög misjafna aðstöðu að ræða, hvað snertir hina ýmsu þéttbýlisstaði. Sums staðar liggur fjölfarinn þjóðvegur eftir endilöngum þéttbýlisstaðnum, svo sem dæmi eru um á Austfjörðum og vitanlega miklu víðar, annars staðar aðeins að hluta eða ekki og svo eru endastöðvar einnig til. Þegar nú sveitarfélögin fara að leggja sína vegi úr varanlegu slitlagi, m. a. þessa þjóðvegi, fær það engan veginn staðist, að þau beri ein kostnaðinn af því verkefni. Þar sem umferðarþungi gegnumaksturs er mikill, hlýtur ríkið að þurfa að taka á sig aukna hlutdeild frá því, sem nú er. Svo að ég nefni dæmi frá heimastað mínum, Reyðarfirði, þá er umferðarþungi þar í gegn sá þriðji mesti á Austurlandi. Þjóðvegurinn liggur eftir endilöngu kauptúninu, og ríkið hefur aðeins tekið að sér ysta hluta hans, sem mun vera 1/5 af allri vegalengdinni. Nú þegar er búið að leggja slitlag á þriðjung af þessum hluta vegarins, og á næsta ári mun við þann hluta lokið að 2/3. Öll sanngirni mælir með því, að ríkið taki a. m. k. þátt í þessu verkefni að hálfu, því að á þéttbýlisvegaféð lít ég hreinlega sem réttmætan hluta sveitarfélaganna í þeirri skattheimtu ríkisins, sem þar stendur að baki, og kemur það því ekki á neinn hátt inn í þessa mynd. Hér er að miklu leyti um óleyst mál að ræða, sem viðunandi lausn verður að finna á. Dæmið, sem ég vék að frá Reyðarfirði, er aðeins eitt af mörgum, og eflaust má finna staði, sem enn verr eru staddir gagnvart þessu atriði. Hins vegar eru svo þeir staðir, sem náð hafa því að vera með vegi, sem flokkast undir hraðbrautir. Þar horfa málin ólíkt betur við, og er ekki nema gott um það að segja. En samur og jafn hlýtur vandi hinna að vera, sem hafa mikla umferð um sinn aðalveg, en ná þó ekki þessu hraðbrautarmarki.

Öll þau atriði, sem hér hefur verið að vikið, ber að skoða í samhengi. Öll hljóta þau að teljast sjálfsögð til athugunar og umr. Margt hlýtur þar að koma upp, sem ekki er drepið á hér, enda till. fyrst og fremst til þess flutt að koma málinu á hreyfingu og fá fram nauðsynlegustu lagfæringar á núgildandi ástandi.

Að síðustu er í till. okkar vikið að mjög viðamiklu viðfangsefni og erfiðu, sem engu að síður þarf að fara að huga að. Hér er um að ræða rykbindingu þeirra vegahluta, sem liggja um ræktunarlönd bænda og bæjarhlöð, þ. e. þar sem umferð er nokkur að ráði. Ekki get ég gert mér neina grein fyrir stærð þessa verkefnis, en ég veit það eitt, að stærð þess muni ærin. Hins vegar held ég, að hér sé á ferð mál, sem á einhvern veg þurfi að leysa í framtíðinni og má reyndar segja, að ekki verði fyrr lokið en með rykbindingu alls þjóðvegakerfisins, sem enn á langt í land og er fjarlægt takmark, sem þó er stefnt að. Það þarf ekki að lýsa því ástandi, sem fjölmörg sveitaheimili búa við í þurrkum sumarsins, ef fjölfarinn þjóðvegur liggur um hlaðið eða meðfram túnum, vinnustöðum sveitafólksins. Sjálfur hef ég fengið duglega að kenna á slíku ryki við heyskap á sumri hverju. Víða hagar svo til, að rykmökkinn lægir aldrei allan daginn. Svo er t. d. um hina fallegu og þéttbýlu Norðfjarðarsveit, þar er nægileg umferð til þess að viðhalda rykmekki daglangt. Að næturlagi verkar rykið sem misturmóða yfir sveitinni. Þetta eru aðeins einstök dæmi, en víða mun þau að finna. Og eins og við víkjum að í grg. okkar, þetta er ekki aðeins vandamál sumarsins, rykið sest í heyið, og vetrarlangt glímir bóndinn og fólk hans við þetta sumarryk umferðarinnar.

Það skal hins vegar játað, að þótt hér sé vandamál á ferð, sem leysa þarf með einhverjum hætti í nánustu framtíð, þá er síður en svo auðhlaupið að því eða það auðleyst. Stórkostleg framkvæmdaþörf í vegamálum kallar á enn meira fjármagn en unnt er að veita, og því vilja verkefni eins og þessi, þótt brýn séu, verða út undan. Við flm. álítum hins vegar sjálfsagt að vekja athygli á þessum vanda sveitafólksins um leið og við erum uppi með till. um það að létta þéttbýlisbúum baráttuna við rykið og forina.

Eins og í grg. segir, mætti vel hugsa sér áætlun um framkvæmdir, sem tæki til 5 ára, þar sem hafist yrði handa um að bæta þar úr, sem brýnast þætti, og gerum við okkur þá fullljóst, að þar muni víða verða þrýst á, ef til kæmi. Ég sé ekki mikla ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta atriði eða till. í heild. Okkur flm. er það mikið áhugamál, að fram fari gagnger athugun á þessum málum öllum. Við lítum á till. okkar fyrst og fremst sem ábendingar, sem vissulega má útfæra og bæta nýjum þar inn í. Við treystum á það, að hv. alþm. séu almennt á svipaðri skoðun og við, þyki full ástæða til ýmiss konar lagfæringa og úrbóta, einkum í þágu sveitarfélaganna á þessu sviði, og við trúum því, að af þessari till., ef samþykkt verður, muni ýmislegt gott leiða. Í trausti þess er hún flutt.

Herra forseti. Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.