11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

143. mál, gjald til Iðnnemasambands Íslands

Fyrirspyrjandi (Svava Jakobsdóttir) :

Herra forseti. Ég þakka ráðh. svar hans. Ég verð þó að lýsa miklum vonbrigðum, því að það er augljóst, að málið stendur enn í sömu sporum og það hefur gert, að því undanskyldu, að hæstv. ráðh. hefur gefið loforð hér í ræðustól, að hann muni beita öllum tiltækum ráðum til þess að fá þetta gjald innheimt. Ég vil enn leggja á það áherslu, að svo virðist, sem hér þurfi að koma til algert frumkvæði rn., og því verður ekki trúað fyrr en í síðustu lög, að rn. ráði ekki við það, að stofnun sem heyrir undir það, þverskallast við að innheimta lögboðið gjald.

Ráðh. sagði, að ég hefði farið með rangt mál, þegar ég sagði, að málinu hefði ekki verið hreyft við Iðnfræðsluráð fyrr en 4. des. Ég bið hæstv. ráðh. afsökunar, hafi ég farið þar með rangt mál, en vil þó benda á, að þær upplýsingar, sem hann gaf, gefa þá fremur tilefni til svartsýni en bjartsýni um framkvæmd í framtíðinni, því að það er mjög ótrúlegt og alvarlegt, að Iðnfræðsluráði skuli hafa haldist uppi að brjóta lög með þessum hætti í hálft annað ár þrátt Fyrir fyrirmæli rn. Ég vona, að hæstv. menntmrh. liti þetta það alvarlegum augum, að hann leysi þetta mál hið fyrsta.

Upphæðin, sem hér er áætluð, 1.4 millj., kemur mjög vei heim og saman við þá áætlun, sem Iðnnemasambandið sjálft hafði gert, og ég vil nota þann tíma, sem ég á eftir hér í ræðustól til þess að leggja á það mikla áherslu, að Iðnnemasambandið fái þetta fé. Það hafði gert sér miklar vonir í sambandi við þetta fé. Það átti að vera lyftistöng fyrir alla starfsemi þess. Iðnnemasambandið hefur gert áætlun um námskeiðshald og útgáfu rits fyrir iðnnema, og hefur þar að auki hug á því að ráða fastan starfsmann til að starfa a. m. k. hálfan daginn iðnnemum til aðstoðar í sambandi við kjaramál þeirra og félagsmál.

Ég ítreka það í lokin, að mér finnst óskiljanlegt, að þetta skuli hafa getað gerst, og vil leggja á það ríka áherslu, að málinu sé komið í höfn hið snarasta, þannig að Iðnnemasambandið fái það fé, sem því ber.