12.12.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

1. mál, fjárlög 1974

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja eina litla brtt., sem prentuð er á þskj. 235. Efni hennar er, að lagt er til að hækka fjárveitingu til byggingar íþróttahúss á Akranesi um 4 millj., úr liðlega 6 millj. kr. í liðlega 10 millj. kr. Talan 10 millj. hefur verið valin með tilliti til þess, sem ég tel, að Akranesbær geti hugsanlega lagt fram á næsta ári af sinni hálfu til þessa mannvirkis.

Hús þetta er allmyndarlegt, en þó aðeins miðað við, að þar geti farið fram löglegir kappleikir. Það verður til afnota fyrir alla skóla á Akranesi og íþróttahreyfinguna þar, sem er öflug og útbreidd.

Þessi bygging hófst á árinu 1966, og er því von, að unga fólkið á Akranesi sé farið að lengja eftir því að fá hana til afnota. Enda þótt hækkun á fjárveitingum fengist nú, er ekki hægt að ljúka byggingunni á minna en 2–3 árum, og hefði hún þá verið réttan áratug í smíðum. Það er algerlega andstætt ríkjandi stefnu um opinberar framkvæmdir að vera svo lengi að byggja eitt hús, og ég vil láta í ljós von um, að hv. alþm. lengi ekki byggingartíma hússins á annan áratuginn með því að neita um þessa litlu hækkun á framlagi. Skal ég svo ekki halda vöku fyrir þingheimi lengur.