13.12.1973
Efri deild: 34. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

101. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Frsm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Það virðist hafa farið ákaflega mikið í taugarnar á hv. 5. þm. Vestf., að ég flutti nokkuð ítarlega framsögu um þetta mál. Hún varð nokkuð löng, af því að ég las m. a. mjög athyglisvert álit náttúruverndarráðs, sem ég tel að eigi einmitt mikið erindi í málið, vegna þeirrar áhyggju, sem kemur fram hjá heimamönnum um viss fræðileg atriði þessa máls. Ég tel mikilvægt, að þeir fái að sjá þetta álit, sem við fengum í hendurnar, og því taldi ég eðlilegt, að það yrði í þingskjölum. En ég vil benda hv. þm. á það, að hann þarf lítið að óttast. Hann á áreiðanlega met í leiðinlegum og löngum ræðum í hv. Alþingi. Ég bendi honum á að hafa með sér skeiðklukkuna, næst þegar hann fer upp í ræðustólinn, þá getur hann sannfærst um lengd sinnar ræðu sjálfur.

Um þá brtt. sem hann leggur fram, vil ég aðeins segja þetta: Í flutningi þessarar till. kemur enn einu sinni fram skortur á þekkingu á þessu máli. Honum er ekki kunnugt um, að því er virðist, að heimamenn hafa lagt á það ríka áherslu hvað eftir annað, að meirihlutaeign í fyrirtækinu verði í höndum ríkissjóðs, að þeir treysta því ekki, að þetta fyrirtæki fari ekki að öðrum kosti í hendur á mönnum, sem e. t. v. hafa ekki þeirra hagsmuna að gæta á þessu svæði, sem nauðsynlegt er, ef svona fyrirtæki á að vera rekið með hag svæðisins og íbúa þess fyrir augum. Ég breyti því ekki minni afstöðu. Ég mun fara að vilja heimamanna og standa með frv., eins og það er að þessu leyti, og greiða atkv. gegn till. hv. þm.

Hv. 5. þm. Vestf. taldi, að einum manni væri fyrst og fremst að þakka, að þetta mál væri komið svo langt. Ég skal ekki draga úr því, hann hefur unnið gott starf, en staðreyndin er vitanlega sú, að fjölmargir aðrir menn hafa komið til, og þetta mál væri áreiðanlega enn þá á rannsóknarstigi og langt frá raunveruleikanum, ef svo væri ekki.