13.12.1973
Efri deild: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

147. mál, veiting prestakalla

Fram. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr. um veitingu prestakalla, var flutt af menntmn. Ed. á s. l. vetri að beiðni hæstv. dómsmrh., en frv. er upphaflega samið og samþ. af Kirkjuþingi. Nú er frv. endurflutt óbreytt eins og það var flutt í fyrra að sérstakri ósk biskups.

Á síðasta þingi var frv. sent víða til umsagnar, og þær umsagnir hafa nú flestar borist. En með hliðsjón af því, hvað frv. kom seint fram á þinginu í fyrra, þarf engan að undra, að það skyldi ekki hljóta þá afgreiðslu, og því þótti rétt að endurflytja það á þessu þingi.

Í fyrra var það skýrt fram tekið af hálfu menntmn., að flutningur fæli ekki á nokkurn hátt í sér, að n. tæki efnislega afstöðu til málsins þar með, heldur hefðu einstakir nm. algerlega óbundnar hendur um afstöðu sína til málsins, og það gildir að sjálfsögðu einnig nú, þegar frv. er flutt í annað sinn.

Um efni frv. þarf ekki að fara mörgum orðum, þar sem það hefur áður verið kynnt hér í þinginu, en höfuðeinkenni og aðalefni frv. er að leggja niður hina almennu prestskosningu. Í stað hennar er fyrirhugað, að sóknarnefndir hafi heimild til þess að kalla prest, eins og það er nefnt, til embættis, ef 3/4 hlutar sóknarnefndarmanna og safnaðarfulltrúa eru sammála um val lögmæts prests eða guðfræðings, og þá eiga þeir rétt á því að fá hann skipaðan í embættið, þ. e. a. s. án þess að embættið hafi verið auglýst.

Annar möguleikinn er sá að kjör fari fram, og þá eru það fyrrnefndir aðilar, sem það annast. Ef umsækjandi fær 2/3 hluta greiddra atkvæða, er kosning talin lögmæt, en ella gerir biskup till. um tvo umsækjendur í þeirri röð, sem hann metur, og skal ráðh. skipa annan hvorn. — Þetta er sem sagt aðalefni frv.

Að sjálfsögðu liggur í augum uppi, að skipun presta í embætti má haga á ýmsa vegu. Það er í fyrsta lagi hægt að halda skipulaginu óbreyttu eins og það er, að kosning fari fram og síðan skipun. Einnig er hugsanlegt, að sé kosning undanfari að skipun prests í embætti, þá verði hún tímabundin og skipunin þá um leið, þannig að prestskosningar þurfi að fara fram með ákveðnu millibili, eins og yfirleitt er, þegar um slíkt skipulag er að ræða. Annar möguleikinn er sá, sem hér er nefndur, þ. e. a. s. að sóknarnefndir og safnaðarfulltrúar fái valdið í sínar hendur. Og þriðji möguleikinn er að sjálfsögðu sá, að prestar séu skipaðir til starfa sinna með nákvæmlega sama hætti og aðrir embættismenn ríkisins.

Eins og ég hef þegar tekið fram, flytur menntmn. þetta frv. án þess að hafa tekið nokkra efnislega afstöðu til málsins og mun að sjálfsögðu skoða alla þá möguleika, sem ég hef nefnt, og aðra þá, sem kunna að vera fyrir hendi, þegar hún síðan fær málið til meðferðar öðru sinni, og hafa þá um leið hliðsjón af þeim umsögnum, sem borist hafa.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til menntmn.