13.12.1973
Efri deild: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

147. mál, veiting prestakalla

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið nú strax við 1. umr. þessa máls til að koma þeirri skoðun minni á framfæri, að ég er algerlega andvígur því, sem hér er lagt til.

Í þeim kaupstað, sem ég á heima, veit ég, að báðar sóknarnefndir og safnaðarfulltrúar hafa komið saman til fundar til að ræða þetta mál, og í þeim söfnuði, sem ég er safnaðarfulltrúi í, var það einnig gert á safnaðarfundi, og þar var ekki ein einasta rödd, sem heyrðist meðmælt þeirri skipan, sem hér er lögð til. Ég tel, að það sé nokkurt atriði, hvað söfnuðirnir sjálfir vilja í þessu efni. Mér er hins vegar fullkunnugt um það, að prestastéttin er mikið til einhuga um að leggja til þær breytingar, sem hér liggja fyrir. En það hefur kannske ekki verulega heyrst enn þá frá söfnuðunum sjálfum, og er það verr, að svo skuli vera, en ég sé mig knúinn til þess að koma á framfæri þessari skoðun safnaðanna í Kópavogi.

Ef færð verða fram fullgild rök fyrir því, að núv. skipan sé óæskileg, — ég hef hins vegar ekki séð nein rök, sem sannfæra mig í því efni, — þá tel ég þessa leið þó enn fráleitari. Ég hef heyrt, að prestskosningar væru óæskilegar, það væri óæskilegt, að þeir einir embættismanna væru kosnir, og að prestskosningum fylgi stundum viss sundrung og leiðindi, sem taki kannske nokkurn tíma að græða yfir. Ef þetta er rétt, þá tel ég fráleitt að flytja þessa kosningu inn í söfnuðinum og skapa þá hugsanlega sundrung og úlfúð um kosningu safnaðarstjórnar og safnaðarfulltrúa. Og í nágrenni við okkur, þ. e. í Danmörku, þar sem þessi háttur er, þá er svo komið, að kosningar safnaðarnefnda og safnaðarfulltrúa eru hápólitískar. Ég tel það ekki verða til neinna bóta fyrir skipan þessara mála að innleiða slíkt inn í safnaðarstarfið á Íslandi.

Það má vel vera, að það yrði of mikið tilfinningamál að leggja niður prestskosningar og hverfa til þess forms, sem er um aðra embættismenn. Ég minni á, að það tók alllangan tíma á sinni tíð að ná fram þeirri skipan, sem nú er verið að leggja til samkv. þessu frv. að afnema. Þá þótti það mjög mikið framfaraspor, þegar prestskosningar voru í lög leiddar og það tekið að verulegu leyti, — að verulegu leyti, segi ég, — úr höndum veitingavaldsins. Það getur verið, að nú hafi söfnuðirnir á þessu aðra skoðun en þá var. Svo mikið er víst, að að einhverju leyti hafa kannske prestarnir aðra skoðun á því í dag en var fyrir nokkrum áratugum. En ef þarna á að gera breytingu frá því, sem nú ríkir í þessu efni, þá vil ég eindregið vara við þeirri hættu, sem felst í því að stofna til óæskilegra kosninga á þessum trúnaðarmönnum safnaðanna, þ. e. a. s. að koma því þannig fyrir eins og hér er lagt til að 4 menn í hverjum söfnuði, 5 eða í hæsta lagi 6 skuli eiga að verða hinir svokölluðu kjörmenn um prestinn. Það þýðir það í framkvæmd fljótlega, að það verður stofnað til hörkukosninga um val á þessum trúnaðarmönnum safnaðanna. Þess vegna endurtek ég, herra forseti, að ef það eru rökin fyrir nauðsyn þess að breyta til frá því, sem nú er, að prestskosningunum fylgi vissir erfiðleikar, þá verði umfram allt ekki farið að leiða þá, ég vil segja á enn víðara svið inn í söfnuðina. Ég legg því eindregið til, að þetta frv. nái ekki fram að ganga.