14.12.1973
Efri deild: 36. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

94. mál, lyfjaframleiðsla

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að játa, að ég á ákaflega erfitt með að skilja þetta frv. og ástæðuna til þess, að það er flutt. Eins og sakir standa í lyfjaframleiðslumálum í landinu, mun stærsti lyfjaframleiðandi hér vera Lyfjaverslun ríkisins, sem er rekin undir yfirstjórn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eða í tengslum við hana. Þessi Lyfjaverslun hefur þá skyldu að framleiða lyf fyrir sjúkrahús og lækna. Veit ég ekki betur en það hafi allt gengið með eðlilegum hætti. Og um það fyrirtæki gilda sérlög. Að öðru leyti hefur lyfjaframleiðsla verið í höndum ýmissa aðila. Stærsti framleiðsluaðilinn nú mun vera hlutafélag, sem stofnað hefur verið og hér er vikið að, og mundi þá væntanlega leiða til þess, að innan tíðar, með þróun þeirra mála, eins og þau eru í dag, þá yrðu það tveir meginaðilar, sem framleiddu lyf: Lyfjaverslun ríkisins annars vegar og fyrirtækið Pharmaco hins vegar. Að öðru leyti eru svo ýmis lyf framleidd af einstökum apótekum og framleiðsluaðilum, sem einnig er vikið nánar að í þessu frv., en sú framleiðsla hefur öll verið í smáum stíl og sennilegt, að hún dragist saman með eðlilegum hætti.

Ég hef verið að leita eftir því, hver séu í rauninni efnisleg atriði þessa frv. Mér skilst þó nánast, að einasta ástæðan til þess, að það er lagt fram, sé einhver klásúla í stjórnarsáttmálanum, sem flestir munu nú vera farnir að leggja lítið upp úr sem heild. En látum það vera, það er eðlilegt, að stjórnin vilji sýna einhverja viðleitni í þá átt að framfylgja honum. En þar er þessi furðulega og lítt skiljanlega setning: „Að endurskipuleggja Lyfjaverslunina með því að tengja hana við heilbrigðisþjónustuna og setja hana undir félagslega stjórn.“ Ég fæ ekki séð, að þetta tengi málið á nokkurn hátt meira við heilbrigðisþjónustuna en verið hefur til þessa. Það er sérstakt eftirlit með lyfjaframleiðslu og lyfjahúðum, og að því leyti fylgist hið opinbera að sjálfsögðu með framleiðslunni og sér um, að hún sé með eðlilegum hætti. Í öðru lagi er lyfjaframleiðsla undir ströngu verðlagseftirliti og hefur verið um langan tíma og ekki ætlunin, að það breytist, að því er manni skilst, með setningu þessarar löggjafar. Að þessu leyti, bæði varðandi allt eftirlit með framleiðslu lyfjanna og verðlagningu þeirra, er þetta allt líklega nú þegar undir því, sem ber að kalla félagslega stjórn, sem er mjög sérstakt hugtak og fræðilegt, en óljóst og óskiljanlegt að vísu, en það er víða notað í stjórnarsáttmálanum. Spurningin er þá þessi; úr því að þetta er þegar til staðar og úr því eð lyfjaframleiðsla á vegum ríkisins er til staðar og hefur fulla heimild til að framleiða lyf eins og henni þóknast og keppa við aðra framleiðendur í því efni: Hvað felst í þessu frv., og til hvers er það flutt? Er þetta eingöngu sýndarmennska til þess að geta vitnað í þennan margfræga málefnasamning, eða hvað er hér á ferðinni? Mér sýnist, ef ég hef skilið þetta rétt, að eina efnislega atriðið, sem skiptir hér máli, sé að heimila ríkisstj. að stofna fyrirtæki með einkaaðilum, ég verð þá leiðréttur, ef það er ekki rétt, — ég hygg, að þetta sé eina efnislega atriði frv., að heimila ríkisstj. með einkaaðilum og þá í rauninni tilteknum einkaaðila að mynda sameiginlegt fyrirtæki um lyfjaframleiðslu. Þessu fyrirtæki er ekki ætlað, — og ég vil leggja áherslu á, að ég skil það svo, — því er ekki ætlað að fá neina einokunaraðstöðu, enda er tekið fram í öðrum greinum frv., að ýmsir aðrir aðilar hafi leyfi til að framleiða lyf, heldur er óskað eftir heimild til þess með alveg tilteknum hætti að stofna til samvinnu við einkaaðila um sameignarfyrirtæki, og geri ég þá ráð fyrir, að hugmyndin sé einnig sú, og vil gjarnan fá það upplýst, að Lyfjaverslun ríkisins verði lögð niður, ef þetta samstarf næst. Öðruvísi sé ég ekki, að út úr þessu fáist nein skynsemi.

Ég verð að taka það fram, að ég hef síður en svo á móti því, að sett verði upp sameignarfyrirtæki ríkisins og einkaaðila, ef samkomulag næst um það. En það er ýmislegt, sem þarf að skoða í því sambandi. Ég er sem sagt efnislega samþykkur því, að þetta verði gert og ríkisstj. heimilað það með frjálsum hætti og án þess að til komi neinir úrslitakostir, sem neyði lyfjaframleiðendur til að fallast á skilyrði, sem þeir telji vera óhagstæð sér til handa. Það gæti t. d. orðið með þeim hætti, að gerð yrði slík krafa um hlutafé í þessu fyrirtæki, að það yrði óframkvæmanlegt fyrir einkaaðilana að leggja fram á móti ríkinu, þannig að þeir gætu orðið helmingsaðilar.

Ég fæ satt að segja ekki séð, — það er kannske af því, að ég hafi ekki lesið frv. nægilega vel. en ég sé ekki, að hér sé um að ræða í frv. neitt ákvæði um stofnfé fyrirtækisins, og þá er þetta harla götótt. Það er auðvitað veigamikið atriði, hvernig á að byggja þetta fyrirtæki upp, þannig að ég held, að ef þetta er ekki til staðar, er alveg útilokað að gera sér ekki grein fyrir því, ef á annað borð á að fara að byggja upp fyrirtæki sem þetta, hvernig eigi að fjármagna það. Og það er, eins og ég segi, auðvitað hægt að setja einstaklingum stólinn fyrir dyrnar um þátttöku með því að gera þær kröfur um framlög, að þeir fái ekki undir þeim risið. Þetta vantar í frv., held ég að sé, og bið um, að það sé upplýst, ef svo er ekki. Tel ég nauðsynlegt, að þetta verði upplýst og þá einnig fengin heimild til þess að leggja fram fé af hálfu ríkisins.

Mér skilst einnig, — og ég verð þá leiðréttur, ef það er ekki rétt, — að ef lyfsalar eða Pharmaco, sem í þessu tilfelli er aðallega talað um, vill ekki fallast á að mynda sameiginlegt fyrirtæki með ríkinu, þá muni allt verða óbreytt. Ég spyr einnig: Er það ekki rétt? Ég finn ekki neitt þvingunaratriði í því sambandi, sem betur fer. Ég finn ekki heldur í þessu frv., að það sé meiningin, ef af þessari samvinnu verður ekki, að þá sé heimild til þess eða ætlunin að einoka framleiðsluna undir Lyfjaverslun ríkisins. Það má auðvitað segja, að tæknilega eða fræðilega, skulum við segja, væri það hægt með því að beita ákvæðum 1. liðar 1. gr. En það eru þegar í frv. sjálfu svo margar beinar undantekningar, að það getur ekki verið hugmynd ráðh., enda væri það alger misnotkun aðstöðu, ef ákveðnir aðilar uppfylla skilyrði 1. gr. um leyfi til framleiðslunnar, ef hann notaði 1. málslið til þess engu að síður að synja um slík leyfi og þannig þvinga allt undir ríkið. Ég held, að þetta sé ekki meiningin í frv. En ég spyr þá: Til hvers er þetta frv.? Það er mér hulin leyndardómur. Af hverju er ekki gengið úr skugga um það endanlega, hvort einhver grundvöllur er undir samstarf um að setja upp lyfjafyrirtæki? Ég geri ekki ráð fyrir, að það verði nokkurt vandamál hér á hinu háa Alþ. að ná um það samstöðu, ef málið er komið á þann rekspöl, að þetta lægi fyrir, að framleiðendur lyfja, minni eða stærri hópur, vildu mynda hlutafélag með ríkinu um framleiðslu lyfja, það yrði nokkurt vandamál að fá því framgengt á Alþ. að því tilskildu, að það væri ekki um einokun að ræða, og það sýnist mér ekki vera ætlunin. Þess vegna vildi ég nú varpa því fram til nánari íhugunar hv. heilbr.- og trn. og sérstaklega til formanns n., sem talaði hér áðan, hvort hann vildi nú ekki vera svo góður að skoða þetta frv. betur og gera sér grein fyrir, hvað er þarna á ferðinni. Er nokkuð á ferðinni? Er þetta nokkuð nema einhver goskúla eða sápukúla, sem nánast er varpað fram til þess að fullnægja einni setningu í stjórnarsáttmálanum? Ég er kannske svona óglöggur á þetta allt, að ég hef ekki fundið „fídusinn“ í frv. En mér er alveg óskiljanlegt í rauninni, hver hann er.

Ég get upplýst það hér, að fyrir nokkrum árum, þegar ég fór með málefni Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, — það var í tíð fyrrv. ríkisstj., — og forstjóraskipti eða lyfsölustjóraskipti urðu, þá kom það mjög til tals og ég átti um það umr. við lyfsala, — það var rætt um það milli heilbrrn. og fjmrn., hvort ekki væri tilvalið að kanna möguleika á því, að Lyfjaverslun ríkisins yrði lögð niður í því formi, sem hún er, og reynt að byggja upp lyfjaframleiðslufyrirtæki og sameina hin ýmsu fyrirtæki í landinu með ríkinu um slíkt fyrirtæki. Úr því varð ekki þá, ég segi: því miður. Það er því engin breyting í þessu máli að þessu leyti til, að það hefur af hálfu Sjálfstfl. t. d. verið fullur skilningur á því, að það gæti verið æskilegt að koma á slíku fyrirtæki, án þess að fælist í því nein einokun, þannig að raunverulega á þessum grundvelli þarf ekki að verða neinn ágreiningur um málið. Hitt er, eins og ég segi, allt annað, að mér sýnist málið, eins og það liggur fyrir hér, vera sýndarmennska og kem ekki auga á, hvaða ástæða er til þess að vera að lögfesta það, svo sem hér er gert ráð fyrir. Allar heimildir til eftirlits með lyfjasölu eru til í dag. Allar heimildir til eftirlits með verðlagningu lyfja eru til í dag. Veit ég ekki betur en lyfjaframleiðsla sé stunduð almennt með þeim hætti, að það er ekki kvartað um, að hún sé í neinum ólestri. Ég hef ekki heyrt neinar kvartanir um það, hvorki varðandi Lyfjaverslun ríkisins né einkaaðila. Hvað er það þá, sem rekur á eftir þessu? Væri ekki æskilegra, að þetta yrði skoðað betur ofan í kjölinn án þess að setja á þessu stigi um það lög, sem e. t. v. þyrfti síðar að breyta, vegna þess að það yrði niðurstaðan, að heppilegra form yrði á félaginu með einhverjum öðrum hætti en gert er ráð fyrir í þessum lögum? Ég gæti vel hugsað mér t. d., að það mætti breyta þessu frv. þannig að heimila ríkisstj. almennt, ef hún telur sig þurfa þá heimild, og jafnvel að afgreiða frv. hreinlega með þeim hætti að heimila ríkisstj. að taka upp viðræður við framleiðendur lyfja, bæði Pharmaco og aðra, um möguleika á því að koma á samstarfsfyrirtæki eða sameiginlegu fyrirtæki ríkisins og þessara aðila um framleiðslu lyfja. Þá kæmi fram vilji Alþingis ríkisstj. til handa um að hefja slíkar viðræður. Þetta hefur verið gert t. d., að heimila stofnun bráðabirgðafélaga, undirbúningsfélaga í öðrum greinum. Ég held, að nýjasta félagið af þeirri tegund sé um þörungavinnslu á Reykhólum, ef ég man rétt. Það var eitthvert undirbúningsfélag myndað eða er það skakkt munað hjá mér? (Gripið fram í: Það er rétt.) Já, ég held, að það sé nýjasta málið. Áður var undirbúningsfélag stofnað varðandi kísilgúrvinnslu við Mývatn, og það eru fleiri dæmi, sem ég gæti nefnt í þessu sambandi. En það var ekki byrjað á því að setja þar alveg skilyrðislaust upp ramma um það, hvernig þetta skyldi vera. Og að svo miklu leyti sem teldist nauðsynlegt að setja einhver ábendingaratriði um það, þá gæti það vel komið til athugunar. En allt er þetta ósköp skringilegt mál.

Ég tek það ekki mjög alvarlega og get látið hjá líða að tala um, hvort sé æskilegra, að það sé undir lyfjastjórn ríkisins eða hjá einkaaðilum. En úr því að ætlunin er ekki að breyta því með frv., nema samkomulag náist, þá eigum við alls ekki að vera að senda frá okkur svona mál. Mér finnst eiginlega óvirðulegt fyrir þessa hv. d., Ed. Alþ., að vera að afgreiða þetta. Við eigum að senda þetta frv. heim aftur og segja, að við þekkjum þá löggjöf á Íslandi, sem er í gildi, og við tökum ekki við svona snakki. Vilji ráðh. fá heimild okkar til að semja við lyfsala um að setja upp sameiginlegt fyrirtæki, þá stendur áreiðanlega á engum um það. En þá viljum við helst fá að vita t. d., hvernig hann hugsaði sér að byggja það fyrirtæki upp fjárhagslega, og ýmislegt annað, sem hér er engar upplýsingar að finna um. Þetta vildi ég nú biðja hv. formann n., sem er glöggur og gegn maður og vill ábyggilega virðingu þessarar hv. d. sem mesta, að taka nú til íhugunar, áður en lengra er farið.