14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

131. mál, útvarpslög

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er á dagskrá, er allrar athygli vert. Hér er um að ræða eitt af sjálfstæðismálum einstakra landshluta. Þetta er menningarmál, og ég tek undir það, sem hv. 1. flm. sagði um þau efni, og þarf ekki að endurtaka það hér. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs í þessu máli til að vekja athygli á því, hvað hljóðvarp og sjónvarp hafa raunar litla áherslu lagt á það að koma upp aðstöðu til upptöku út á landsbyggðinni, bæði að því er varðar hljóðvarpsefni og sjónvarpsefni. Einkum á það við hið síðarnefnda. Aðstaða er víða mjög bágborin til upptöku sjónvarpsefnis úti á landsbyggðinni. Má kannske segja, að það sé eðlilegra, þar sem sjónvarpið er nýrra sem stofnun en hljóðvarpið. Mér er kunnugt um, að það eru einstakir menn, dugnaðarmenn, úti um land, sem hafa rutt brautina í þessum efnum, nálega algerlega á eigin spýtur og án þess að fá neinn verulegan stuðning frá þessum stofnunum. Ég teldi það vera mikilvægt skref í þá átt, sem stefnt er að með þessu frv., að hljóðvarp og sjónvarp kæmu sér upp svokölluðum stúdíóum úti um land, til þess að Útvarp Reykjavík gæti líka bætt þjónustu sína við landsbyggðina, það sé í raun og veru mál út af fyrir sig í þessum efnum. Ég vildi aðeins, herra forseti, vekja athygli á þessu í fáum orðum út af þessu máli, en skal láta hér staðar numið.