15.12.1973
Efri deild: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að hefja hér langar umr., þar sem málið er tekið fyrir á laugardagsfundi og fundartímar Alþ. eru nú knappir raunverulega, miðað við þann fjölda mála, sem fyrir liggur. En ég ætla að fara nokkrum orðum um málið.

Því miður kemur frv. óþægilega seint fyrir Ed. Ég verð að harma það, að það skuli ekki hafa komið eilítið fyrr, svo að við gætum fjallað um það nokkru nánar. Þó er það gleðilegt út af fyrir sig, að það náðist víðtæk samstaða í Nd. um framgang málsins. Ég harma þó, að svo langt hafi verið gengið til baka aftur að auka togveiðarnar, og vil taka undir orð hæstv. ráðh. um, að hér erum við að gera átak til þess að fara varlega og hagnýta stofninn skynsamlega, minnugir þess, hvað skeði um síldina, og minnugir þess, hvernig þróunin í aflamagni bolfisks hefur verið hér á undanförnum árum, svo að við munum ekki komast hjá því nauðugir, viljugir að gera eitthvert lágmarksátak næstu 2–4 árin til þess að rétta stofninn við. Nýlegar fregnir um bolfiskafla okkar Íslendinga á yfirstandandi ári herma, að hann sé um 15 þús. tonnum minni en á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir stóraukna sókn. Þetta er svo alvarleg staðreynd, að alþm. hljóta að hugleiða það sem eina heild, að við verðum að gera átak til að byggja upp stofninn að nýju. Það kostar vandkvæði, það er ekki hægt að komast hjá því, og má ekki láta mjög þröng hagsmunasjónarmið ráða stefnunni næstu 2–3 árin þess vegna. Það er óhjákvæmilegt, að við verðum að bera gæfu til þess að takast á við þann vanda, sem fram undan er, og tryggja, að stofninn sé nægilegur fyrir framtíðina, sérstaklega þegar við höfum í huga, að við höfum gert myndarlegt átak til að veiða hann, þegar hann er orðinn nægilega stór.

Ég vil minna á vandamálið með síldina, hvernig við gereyddum þeim stofni vegna ofgræðgi í veiðar hér við landið. Ég ætla ekki að fara að rifja þá sögu upp, hana þekkja allir. En við gætum gert það sama í dag, ef við stefndum ekki í friðunarátt, og megintilgangur friðunar frá mínu sjónarmiði er hrein öryggisfriðun með landinu. Þeir, sem vilja leyfa auknar togveiðar, hafa hætt okkur hina og sagt: Það er rétt og þið setjið hringfara í mitt landið, dragið svo ákveðna hringi hringinn í kringum landið og segið: Hér er smáfiskur, hér er stór fiskur, hér má minni bátur veiða, hér má stærri bátur veiða. — Þetta er hreinn útúrsnúningur. Við viljum hafa lágmarksöryggisfriðun hringinn í kringum landið, það er allt og sumt, vegna þess að tæknin er orðin það mikil í dag, að fiskurinn finnst alls staðar, hvar sem hann er, og hann fær hvergi frið. Þess vegna verðum við að gefa honum möguleika til að þroskast og veiða hann svo á þeim svæðum, sem við teljum minnsta áhættu vera fólgna í. Ekki fleiri orð um það.

Ég harma aðeins eitt ákvæði, sem var drepið á af bæði hæstv. ráðh. og síðasta ræðumanni. Það er að fara að taka deiluna um Faxaflóann upp að nýju. Eftir marga áratuga baráttu vissra manna, bæði hér á Alþ. og fiskifræðinga, tókst að gera hér átak nú fyrir 21/2 ári, og við töluðum um það, sem að því stóðum með sóma í hv. Ed., að reyna að láta það tímabil standa óskert í 5 ár til þess að sannreyna nú svart á hvítu, hvaða árangur það gæfi. Þetta má ekki verða nýtt rjúpnamál hér á hv. Alþ. Og þó að ég fagni orðum hæstv. ráðh. um það, að hann muni ekki beita þessari heimild um opnun, ef hún verður sett í lög, þá vænti ég þess, að hv. d. standi við fyrri verk og við breytum því til haka. Það þarf ekki að tefja frv. Ég mæli ekki með neinni annarri breytingu. Ég mæli með því, að frv. fari óbreytt að öðru leyti en þessu eina ákvæði. Þá skal ég ekki fitla meira við breytingar, þó að ég sé óánægður með viss atriði í frv., eins og ég drap á áðan, byggt á þeirri forsendu, að við verðum að gera lágmarksátak til að tryggja stofninn.

Fiskifræðingar hafa margsýnt okkur fram á, og það liggur margsannað fyrir, að við höfum aðeins um 10% af aflanum kynþroska, — aðeins um 10%. Þetta er svo lítill hluti, að við getum ekki annað en farið varlega á vissum svæðum. Ég fagna því líka, að hæstv. ráðh. hefur gefið út tilkynningu um, að hann muni friða lengra tímabil á Selvogsbanka það hrygningarsvæði, sem þar er, og einnig víðar umhverfis landið mun hann hafa möguleika til að grípa inn í. Og ég vil sérstaklega vekja athygli á 5. gr. frv., en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Nú á sér stað á tilteknu veiðisvæði seiða- og smáfiskadráp í þeim mæli, að varhugavert eða hættulegt getur talist, og skal þá sjútvrn. að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að sporna við því. Er rn. heimilt með tilkynningu að loka afmörkuðum veiðisvæðum um lengri eða skemmri tíma fyrir öllum togveiðum, svo og öðrum veiðum, ef nauðsynlegt þykir.“

Nú eru tekin upp í fjárlögum ákvæði um að veita meira fjármagn til þessa máls, og hæstv. ráðh. hefur marglýst yfir, að hann muni efla þetta eftirlit eða stuðla að því, og er það vel, og ég þakka honum fyrir það. Ég treysti því, að hann standi við þau orð og þetta verði nú virt, því að það er svo mikilvægt, að það má ekki bresta, má alls ekki bresta.

Þá mun ég ekki tefja þetta mál á einn eða annan hátt meira. En ég undirstrika það, að við þurfum að ná samstöðu um framkvæmdina líka, svo að allt fari ekki úr böndunum, eins og var hér áður, bæði varðandi eftirlit og ef einhverjir taka upp á því að brjóta þau lög, sem við erum hér að setja. Það er stefnt í rétta átt að fara varlega, þó að mér finnist, að við höfum tekið aðeins hliðarspor í bili. En við komumst bara ekki hjá því, eins og ég sagði áðan, að gera lágmarksátak vegna framtíðarinnar. Ég vil vænta þess, að hv. d. stuðli að því aftur, að heimildin um, að Faxaflói fái að vera í friði, miðað við þau sérlög, sem gilda um flóann, geti staðið í 5 ár, svo að það liggi á hreinu til hvers við höfum gert þetta átak.