15.12.1973
Efri deild: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

145. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., fjallar um breyt. á l. nr. 8 frá 1972, um tekjustofna sveitarfélaga. Efni þess er aðallega í tvennu lagi. Í fyrsta lagi fjallar það um fyrirframgreiðslu útsvars, sem er svo háttað nú samkv. l., að innheimta má 50% af fyrra árs útsvari, en frv. gerir ráð fyrir, að heildarprósentan verði hækkuð í 60%. Í öðru lagi er svo mælt, að fjmrh. sé heimilt að ákveða breytingu á hinu nýja fasteignamati til samræmis við það verðlag, sem var 1. nóv. 1973.

Á efni frv., eins og það liggur fyrir, féllst félmn. En í sambandi við þetta frv. kom til umr. og athugunar í n. 38. gr. gildandi l. um tekjustofna sveitarfélaga. Í ákvæðum 38. gr. segir, að aðstöðugjald megi ekki hærra vera en nemi 65% þess hundraðshluta, sem í sveitarfélaginu var á lagður á árinu 1971. Þegar álagning aðstöðugjalds fór fram á árinu 1971, giltu reglurnar frá hinum eldri tekjustofnalögum, þ. e. a. s. lögunum frá 1964, og eftir þeim var farið þá um aðstöðugjöld, að þessi gjöld mættu ekki hærri vera en: 1. Allt að 1/2% af rekstri fiskiskipa og flugvéla. 2. Allt að 1% af rekstri verslunarskipa og af fiskiðnaði. 3. Allt að 1½ % af hvers konar iðnaðarrekstri öðrum. 4. Allt að 2% af öðrum atvinnurekstri.

Í framkvæmdinni hefur ákvæði 38. gr. reynst þannig, að þau sveitarfélög, sem t. d. lögðu ekki á aðstöðugjald á árinu 1971 eða notfærðu sér ekki alla þessa 4 atvinnugreinaflokka, hafa orðið að sæta áframhaldandi takmörkun í öflun tekna til sveitarsjóðs, þ. e. a. s. gátu ekki eftir 1971 lagt á aðstöðugjald, ef það hafði ekki verið lagt á 1971, og ekki heldur bætt við atvinnugreinastofninn.

Sveitarstjórnarmenn margir hverjir hafa átt tal við okkur í félmn. um þetta ákvæði og talið, að það væri óþolandi að búa við þetta fyrir mörg sveitarfélög, sem notuðu lítið eða ekki aðstöðugjald á árinu 1971. Nýjar atvinnugreinar hafa orðið til í ýmsum sveitarfélögum á tímabilinu frá 1971. Á slíkar atvinnugreinar er ekki hægt að leggja aðstöðugjald, af því að áður var það ekki lagt á slíkar greinar, þar eð þær voru ekki til í sveitarfélaginu. Þannig eru mjög skertir tekjumöguleikar sveitarfélaga að þessu leyti, og má rétt hugsa sér, að mörg sveitarfélög, sem búa við þennan þrönga stakk, hafi orðið að afla sér síaukinna tekna vegna margs konar umsvifa í hinum ýmsu málefnum sveitarfélagsins. Auk þess eru þessar þröngu skorður þess eðlis, að vafalaust hefur leitt til nokkurs misréttis að því er varðar skattþegnana. Fyrirtæki t. d., sem stofnað er eftir 1971 í sveitarfélagi, sem ekki lagði aðstöðugjald á, vegna þess að slík atvinnugrein var á árinu 1971 ekki til staðar, er, eins og ég sagði, ekki aðstöðugjaldskylt og vissulega, eftir því sem sveitarstjórnarmenn hafa sagt bæði mér og öðrum félmn.-mönnum, hafa verið nokkur brögð að því beinlínis, að fyrirtæki hafi flust á milli sveitarfélaga, m. a. til þess að komast undan aðstöðugjaldi. Og þó að sú hafi ekki verið ætlunin, hefur niðurstaðan að sjálfsögðu orðið hin sama, að slíkt fyrirtæki hefur ekki þurft að greiða aðstöðugjald.

Nm. þótti alveg einsýnt, að í þessu efni þyrfti að liðka til. það væri réttlætismál, og þyrfti að fella niður þá takmörkun, sem er á álagningarheimildum í þessu ákvæði 38. gr. tekjustofnalaganna. Í samræmi við þessa niðurstöðu n., sem hún var fyllilega sammála um, hefur hún leyft sér að flytja brtt. á sérstöku þskj., 252, þar sem teknar eru skilyrðislaust upp þær álagningar, heimildir allar, sem voru áður í lögum, þ. e. a. s. í gömlu l. frá 1964, að því er varðar aðstöðugjald, þó þannig, að hundraðshlutinn, sem þar gat um, er færður niður um 35%. N. mælir með samþykkt frv., en með þeirri breytingu, sem ég hef getið um.