17.12.1973
Efri deild: 42. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Jón Árnason:

Herra forseti. Frsm. sjútvn. hefur nú gert grein fyrir þeim till., sem n. flytur sameiginlegt, og þarf ég því ekki að lengja að neinu verulegu leyti þessar umr. Ég verð þó að segja, að eins og fram kom í ræðu hans, lágu fyrir þær yfirlýsingar frá þeirri n., sem hefur haft með höndum að semja frv., sem lagt var fyrir þingið, að hún hefði samið það, eftir að hún hafði leitað umsagnar heimamanna víðs vegar um allt land, og enda þótt frv. hafi verið þannig uppbyggt, sé samt sem áður ástæða til þess, nú eftir að það er lagt fyrir þingið, að gera á því allverulegar breyt. Því miður eru flestar af þessum breytingum þannig, að þær eru frekar til skaða að mínu áliti heldur en hitt, því að þær auka veiðiheimild togveiðanna og gera þá minna úr þeim ávinningi, sem við hefðum getað búist við að öðru leyti í sambandi við útfærslu landhelginnar í heild.

Á þskj. 236 fluttu 3 hv. þm. í Nd. brtt., sem við hv. 1. þm. Vesturl. höfum verið að ræða um að endurflytja í þessari hv. d., en við höfum ekki endanlega tekið afstöðu til þess. Ég vil þó láta það koma fram, að við erum með þær til frekari athugunar og munum þá leggja till. fram fyrir 3. umr. málsins.

Ég tel einnig rétt, að það komi fram, úr því að það kom ekki fram hjá hv. frsm., að í dag hefur Alþingi borist þó nokkuð af áskorunum, símskeytum, sem öll hníga í sömu átt og eru í sambandi við friðun Faxaflóa. Ég tók eftir því, eins og ég geri ráð fyrir, að aðrir hv. þdm. hafi gert, að í gær, þegar fréttir voru lesnar í útvarpinu og sjónvarpinu, var viðtal við forseta Farmanna- og fiskimannasambandsins, en þessi samtök hafa haft þing sitt nú undanfarna daga, og það merkaði ákveðna stefnu einmitt til þessa þáttar frv. um botnvörpu, flotvörpu og dragnót o. s. frv. Ég varð mér úti um í dag, hvernig þessi till. þeirra hefði verið orðuð, og vil lesa þessa samþykkt sem Farmanna- og fiskimannasamband Íslands gerði varðandi þetta mál, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„26. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands lýsir undrun sinni á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um áskorun til Alþingis um veiðiheimildir fyrir dragnót og togveiðar í Faxaflóa. Ekkert hefur komið fram, sem hnekkir þeim rannsóknum, er leiddu til þess, að Faxaflóa var lokað fyrir þessum veiðarfærum, áður en landhelgislínan var færð út annars staðar við landið, og leggur því þing F. F. S. Í. eindregið til, að svæðið verði lokað, eins og verið hefur:

Ég er ekki með þau símskeyti hér, sem mér er kunnugt um að hafa borist, en þau eru alveg á sömu lund og þessi samþykkt, sem Farmanna- og fiskimannasambandið hefur gert. Það undirstrikar mjög eindregið, hvað hér er að þeirra dómi um alvarlegt mál að ræða, ef þetta frv. næði fram að ganga í þeirri mynd, hvað þetta snertir, sem hv. Nd. afgreiddi málið.

Á þessu stigi sé ég ekki ástæðu til að orðlengja um frv. frekar, en ég vænti þess, eins og hv. frsm., að d. muni samþ. þær till., sem hér liggja fyrir, á þessu stigi málsins. Annað, sem ég hef vikið að hér sérstaklega varðandi það, sem fram kom á þskj. 236 við afgreiðslu málsins í Nd., mun ég athuga nánar fyrir 3. umr.