18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

392. mál, tafir á lagningu rafmagns á sveitabæi

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Á s. l. sumri mun víða og allmikið hafa verið unnið að dreifingu rafmagns á bæi í sveitum landsins, og allvel mun miða með að ljúka því verki, rafvæðingu sveitanna, samkv. áætlun, sem gerð var um það, að henni skyldi lokið á þremur árum. Þessi áætlun var gerð á haustdögum 1971, gefin út af iðnrn. og Orkustofnun. Eftir þessari áætlun var sumarið er leið annað sumar framkvæmdanna, og ætti rafvæðingunni þá að ljúka á næsta sumri.

Það er óhætt að segja það, að mikil ánægja ríkti og ríkir í sveitum landsins með það, að þannig skyldi tekið á málunum, og fólkið hafði það þá skjalfest, hvenær það mátti vænta þess að fá rafmagnið og komast í ljósið, og ylinn, komast í himnaríki heima hjá sér, eins og einn orðsnjall sveitungi minn orðaði það endur fyrir löngu, þegar hann og 15 bændur í nágrenni hans fengu rafmagnið. Þetta tákna það, hve mikið fólkið leggur upp úr því að fá þessi gæði.

En það hefur því miður ekki allt gengið sem skyldi í sveitarafvæðingunni. Mér er kunnugt um það, að norður í Þistilfirði er allnokkur fjöldi bæja, nánar tiltekið 12 að tölu, sem áttu von á því að fá rafmagn í sumar og fólkið væntir þess fastlega, að það yrði á sumrinu er leið. Það var líka mikið að þessu unnið, var lögð lína frá Þórshöfn um Axarfjarðarheiði til Kópaskers, og þarna var vinnuflokkur, sem lagði rafmagnið heim að bæjunum, og fólkið á hæjunum mun hafa séð fyrir löngum inn í húsin. En þá var líka stöðvun á meiri aðgerðum. Og nú spyr fólkið, hvað „dvelji Orminn langa“. Rafmagnið er komið heim að bæjunum, en það er ekki hægt að tengja það, vinnuflokkurinn er farinn burt úr sveitinni, og það er útséð um það og var víst útséð, þegar þessi fsp. var lögð fram fyrir nokkru, meira en tveimur vikum, að þetta gæti orðið á þessu ári. Svör, sem fást hjá Rafmagnsveitum ríkisins, hvað valdi þessu, eru þau, að það sé skortur á efni eða nánar tiltekið á spennum, spennubreytum, og það sé svo langur afgreiðslufrestur á þeim. Nú má segja, að þar sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa áætlun til að vinna eftir og ættu að þekkja, hversu langur afgreiðslufrestur er á slíku efni, þá ætti þetta ekki að þurfa að koma fyrir, og það er ákaflega erfitt að sætta sig við slíka töf á tiltölulega einföldum framkvæmdaatriðum.

Í ljósi þessa hef ég leyft mér að bera fram á þskj. 160 eftirfarandi fsp. til hæstv. iðnrh.: „Hefur skortur á efni, svo sem spennum, valdið töfum á því, að hægt væri að tengja bæi við samveitu, sem fyrirhugað var að fengju rafmagn á s. l. sumri eða hausti, og ef svo er, hverju sætir slíkt?“