18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

393. mál, vextir og þóknun lánastofnana

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það vakti mikla athygli á sínum tíma, þegar hæstv. ríkisstj. var mynduð, að loforð hennar í málefnasamningnum voru m. a. vaxtalækkun. Nú hefur hæstv. bankamrh. lýst því yfir, að ákvörðun vaxta sé algerlega á valdi Seðlabankans og sé ekki undir ríkisstj. borið. Mér er því spurn í fyrsta lagi: Hvernig stendur á því, að ríkisstj. var að lofa landslýðnum vaxtalækkun, ef hún réð engu þar um? Var hún að lofa upp í ermina, eða hefði hún þurft einhverjar lagabreytingar, til þess að hægt væri að lækka vextina? Nú er þetta ekki þannig, eins og hæstv. bankamrh. lýsir, því að hann segir í síðari ræðu sinni að fyrir forgöngu ríkisstj. hafi vextir verið lækkaðir í fyrstu. Þá á líklega að túlka málefnasamninginn þannig, að hann hafi verið efndur með því að lækka vextina, en svo megi hækka þá aftur, eins og Seðlabankanum þóknast. Hins vegar stendur það í l. um Seðlabankann, að „í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstj. og gera henni grein fyrir skoðum sinni varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining við ríkisstj, að ræða, er seðlabankastjórninni rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar“.

Það er engum blöðum um það að fletta, að um öll meginatriði í efnahagsmálum þjóðarinnar ber Seðlabankanum að hafa náið samstarf, eins og það er orðað í l., við ríkisstj. Vegna þess að hæstv. bankamrh, lýsir nú yfir, að hann hafi verið andvígur þeirri almennu vaxtahækkun, sem Seðlabankinn ákvað síðast, held ég, að það sé fullkomin ástæða til að beina fsp. til hæstv. forsrh., og fsp. er á þessa leið: Var þessi ákvörðun Seðlabankans ekki borin undir ríkisstj.? Var hún ekki rædd við ríkisstj.? Var ríkisstj. samþykk eða andvíg henni?