18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

394. mál, innflutningur á olíu og olíuverð

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Það er ekkert vafamál, að það ástand, sem nú hefur skapast í sambandi við olíuskort í heiminum, kemur til með að bitna svo þungt á fjölda heimila úti á landsbyggðinni, að þau fá vart undir því risið. Það er því full ástæða til að hvetja hæstv. ríkisstj. til að gefa þessu máli sérstakan gaum, og ég vænti þess, að þetta mál verði skoðað rækilega, og treysti því, að hæstv. ríkisstj. komi með till. til úrbóta til að létta þá geysilega auknu byrði, sem einmitt þessir aðilar verða fyrir vegna þess ástands, sem nú ríkir.

Það hefur verið sýnt fram á, að það eru allar líkur á því, eins og mál horfa í dag, að munurinn á því að kynda hús úti á landsbyggðinni, miðað við það, sem er hér á Reykjavíkursvæðinu, eða þar sem hitaveitu nýtur, sé slíkur, að hér muni það kosta um 26 þús. á ári, en mun nálgast 100 þús., þar sem olía er notuð til upphitunar. Þetta sýnir glögglega, að þarna er um svo geysilegt vandamál að ræða, stórauknar byrðar á það fólk, sem ekki býr við þau kjör, sem hér er um að ræða, hitaveituna, að grípa verður til skjótra og róttækra