18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

398. mál, framkvæmd sveitarafvæðingar á Austurlandi 1973

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það er ekki ofsögum af því sagt, að við Íslendingar lifum í mikilli trú á áætlanir, og er það ekki nýtt í sögunni. Við höfum lifað í það mikilli trú á áætlanir, að það var mörgum mönnum mikið fagnaðarefni, þegar endurskoðuð var rafvæðingaráætlun fyrri ríkisstj. og kom í ljós, að menn gátu fengið raforku, þeir síðustu, ári fyrr en áður var talið fært. Ég veit þess dæmi úr mínu kjördæmi, að ráðamenn þar höfðu það mikla trú á þeirri áætlun, sem gerð var til þriggja ára, að m. a. var ákveðið að taka ekki við mjólk frá mjólkurframleiðendum eftir árið 1974 nema úr rafmagnskældum mjólkurtönkum. Mér er kunnugt um að það eru margir bændur austur í Skaftafellssýslu uggandi um, að þarna standist ekki sú krafa, sem gerð er til framleiðslu vörunnar hjá framleiðandanum og áætlunin, sem ríkisstj. hefur gert um rafvæðingu. Eins og kom fram í svari hæstv. ráðh. áðan, skortir 31 tengingu á þessu ári á bæi í Suðurlandskjördæmi frá því, sem ætlað var. Er þetta miklu meiri skakki en svo, að hann geti talist eðlilegur.

Ég vil samt láta koma fram það mikla trú mína á áætlanir og það mikla trú á, að það hafi verið rétt, að unnt hefði verið að hrinda í framkvæmd rafvæðingunni á þremur árum, að ég skora á stjórnvöld að kosta kapps um að tengja þessa bæi á þeim tíma, sem tilskilið er, þó að ég viti, að ekki verður unnt að gera það með þeim hætti sem áætlunin gerir ráð fyrir. Það er fyrirsjáanlegt, til þess vantar þær tengingar á milli orkuveitusvæða, sem til þarf til þess, að þessi áætlun náist fram, eins og hún á að verða.

Ég verð að segja að lokum, að ég þarf ekki að lýsa því, að þeir menn, sem nú bíða eftir tengingu, eru verulega illa settir í sambandi við framleiðslu sína, ef ekki verður ráðin hót á þessu máli strax.