18.12.1973
Efri deild: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð í tilefni af þeim brtt., sem hér hefur nú verið mælt fyrir og liggja nú fyrir.

Það er í fyrsta lagi brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. og 2. þm. Vesturl. um það, að breyting verði gerð á upphafi 10. gr., þar sem nú stendur: „Ráðh. er heimilt, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, að veita eftirgreindar veiðiheimildir í fiskveiðilandhelginni, auk þess, sem annars staðar er getið í l. þessum“, — bætt verði þar inn í: „að fenginni umsögn Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknastofnunarinnar“. Ég fyrir mitt leyti er á móti þessari breytingu og tel, að það hafi verið mörkuð ákveðin stefna í þessum efnum í sambandi við frv. í heild. Það er í mörgum gr. frv. áður miðað við, að það liggi fyrir annaðhvort meðmæli eða umsögn eða leitað álits Hafrannsóknastofnunarinnar varðandi þessi mál, en hins vegar ekki miðað við það að leita til Fiskifélagsins sérstaklega, enda gætu þá vissulega aðrir aðilar komið einnig til greina. Ég vil benda á það, að í 3. gr. frv. er talað um, að „enda komi til meðmæli Hafrannsóknastofnunarinnar“. Í 5. gr. er einnig sagt: „að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar“ og í 6. gr., að leitað verði „álits Hafrannsóknastofnunarinnar“ o. s. frv. Ég sé ekki annað en það sé hið eðlilega, eins og nú er komið málum, að það sé Hafrannsóknastofnunin, fiskifræðingarnir þar, sem leitað sé til um álit, áður en ákvarðanir eru teknar, en það sé allsendis óþarfi að fara að snúa sér til Fiskifélagsins sérstaklega um þessi atriði. Við þetta var algerlega miðað við samningu frv. Hins vegar liggur ljóst fyrir, að það má vera, að ráðh, telji æskilegt að leita til fleiri aðila en aðeins fiskifræðinganna, þegar sérstaklega stendur á, og þá geta komið til fleiri aðilar en aðeins Fiskifélagið, en það er sjálfsagt að leita til þess, ef málin liggja þannig sérstaklega fyrir.

Ég sem sagt tel, að það sé ekki rétt að samþykkja þessa breytingu, enda þyrfti þá, til þess að halda fullri samkvæmni, að breyta hér miklu meiru.

Hina breyt. leiðir í rauninni af þessu, að breyta þá orðalaginu í niðurlagi 10. gr., og þar er í rauninni ekki um neina efnisbreytingu að ræða og skiptir því ekki máli. Ég tel ástæðulaust að vera að breyta á nokkurn hátt því, sem nú er þar fyrir.

Þá er hér brtt. frá þeim Jóni Árnasyni og Ásgeiri Bjarnasyni, sem ég vildi segja nokkur orð um. Ég er andvígur þessum breytingum. Ég tel, að þær mundu á margan hátt raska því samkomulagi, sem gert hefur verið um afgreiðslu málsins. Það er enginn vafi á því, að ef þessar till. yrðu samþykktar, þá væri búið að breyta svo miklu hér, að hætt er við því, að ýmsar aðrar breytingar fylgdu þá í kjölfarið, og yrði þá kannske ekki auðvelt að koma málinu fram fyrir jólaleyfi.

Varðandi sérstaklega c-liðinn í till. þeirra, till. sama eðlis var flutt í Nd. og felld þar, þá tel ég heimild mjög óeðlilega og býsna hættulega, því að það er enginn vafi á því, að ef slík heimild yrði samþ., kæmu óskir um margar hliðstæðar heimildir, ekki aðeins varðandi þetta svæði, sem þarna er um að ræða, þ. e. a. s. Breiðafjörð. Frv. er allt byggt upp á því, að ákveðnar togveiðiheimildir eru reistar með frv., en síðan er ráðh. veitt sú almenna heimild að mega draga úr þessum veiðiheimildum, mega þrengja þær, ef ástæða þykir til. En að fara að veita ráðh. leyfi til þess að opna fyrir togveiðum umfram það, sem frv. gerir ráð fyrir, eftir beiðnum frá einstökum stöðum, það er að opna fyrir mesta vandræðamálið. Ég er afskaplega hræddur um, að úr öllum landshlutum fengjum við áskoranir um það, að ráðh. mætti þar víkja frá hinu almenna „prinsippi“ laganna og veita mönnum þar togveiðiheimildir umfram það, sem l. gera ráð fyrir. Það kæmu beiðnir héðan og þaðan, og þá væri þetta algerlega runnið út í sandinn. Enda er auðvitað, og það þekkjum við vel, að þessi till. er til komin vegna þess, að það er ágreiningur hjá heimamönnum um það, hvernig með þetta skuli farið, og þeir vilja gjarnan losa sig undan þeim vanda, sem þeir standa í sjálfir, og veita ráðh. almenna heimild til þess að opna enn frekar fyrir togveiðum, ef hann vill samþykkja það. En ég held, að við verðum að halda okkur við það, að þær einar heimildir til togveiða séu veittar, sem frv. gerir ráð fyrir, og ráðh. hafi þar ekki vald til viðbótar. Það er aðeins í einu tilviki, sem gert er ráð fyrir, að ráðh. geti enn til viðbótar veitt togveiðiheimildir. Það er ef ísaástand skellur yfir í ákveðnum landsfjórðungi, þá megi taka tillit til slíks og ráðh. geti þá vikið frá þessum almennu reglum.

Ég legg því áherslu á, að þessi heimild verði ekki samþykkt, c-liður till., því að hann í rauninni raskar uppbyggingu frv. og mundi setja málið mjög í flækju. Hitt skil ég mætavel, að þessir hv. þm. flytji þessa till. Þingbræður þeirra úr sama kjördæmi fluttu till. í Nd., sem miðaði í sömu átt, og hún var felld þar. En það þarf ekki að brýna það fyrir hv. þdm., að það er nokkuð varhugavert að gera breytingar á frv., eins og það liggur orðið fyrir nú, sem valda mundu miklum átökum, úr því sem komið er. Mér er ljóst, að hér verður gerð, á þessu frv. og hefur verið gerð ein breyting varðandi Faxaflóa, og það hefur satt að segja verið búist við því. Ég vænti þess, að bægt verði að afgreiða málið í Nd., ef það snýst eingöngu um þá breyt., en frekari breyt. teldi ég að ætti að forðast, úr því sem komið er.

Ég vil vænta þess, að hv. þdm. baki tillit til þeirra aðstæðna, sem við stöndum þarna frammi fyrir varðandi þetta viðkvæma mál.