18.12.1973
Neðri deild: 47. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins út af þessu atriði um Faxaflóann. Einhvern veginn finnst mér þau mál vera þannig vaxin, að flestir hefðu viljað geta haft meiri friðun í frv. en þar er. En að athuguðu máli telja menn víst ekki, að út í það sé hægt að leggja og menn verði að sætta sig við þær friðunaraðgerðir, sem í frv, er að finna, enda líka málamiðlun. Við vitum, að það er erfitt að koma friðunarráðstöfunum við, það er ekki létt í meðförum að koma slíku á. En nú er Faxaflóinn friðaður eins og stendur, og mér finnst það vera óskynsamlegt að gera því skóna í þessu frv. að heimila opnun Faxaflóa fyrr eða öðruvísi en ráðgert er í gildandi lögum. Ég vil láta það koma fram, að það er mín skoðun, að þetta geti spillt fyrir okkur út á við, t. d. að ráðgera að draga nú úr friðunarráðstöfunum, sem í gildi eru, eins og þeim, sem nú eru í l. um Faxaflóasvæðið. Mér finnst það ganga þvert á meginstefnu frv., því að þegar það er skoðað í heild, þá gengur það í friðunarátt. Það er hvergi stigið til baka, að ég held, í frv. í friðunarmálunum, nema ef það yrði í þessu ákvæði, ef yrði ofan á að gera ráð fyrir því að opna Faxaflóann meira en verið hefur. Ég er þess vegna mikill stuðningsmaður þess, að þessu verði ekki breytt frá því, sem Ed. hefur gengið frá því, og mér er ómögulegt að skilja, að það sé nokkur nauðsyn á því að sækja það með ofurkappi einmitt núna að opna Faxaflóann fyrr en áður var ráðgert. Vil ég biðja menn að íhuga, hvort það sé ekki skynsamlegt, eins og við erum á vegi staddir með þetta allt, að fresta því, þannig að það sé ekki hægt að segja, að við stigum nokkurs staðar í friðunarmálinu skref til baka. Það held ég, að verði hægt að segja, ef þetta er ekki látið halda eins og er í lögum, en tæpast ella. Þetta mál er dálítið stærra stefnulega séð heldur en í fljótu bragði mætti virðast, og þar að auki er það stórmál út af fyrir sig, hvort eigi að gera þetta. Ég vil því taka undir það með hæstv. sjútvrh., að menn láti frv. vera eins og það nú kemur frá hv. Ed.