19.12.1973
Neðri deild: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að það er að seilast um burð til lokunnar hjá hv. 4. þm. Vesturl. að fara að vitna til þess, sem upphaflega stóð í till. fiskveiðilaganefndarinnar. Ég held, að við kæmumst lítið áfram með málið með þeim hætti að hafa þau vinnubrögð í frammi. Fiskveiðilaganefndin fékk lof og prís fyrir að hafa þvælst um gervallt landið til þess að draga upp úr mönnum sérvisku þeirra og fara eftir henni í öllum atriðum. Þess vegna eru það vitanlega engin rök fyrir hans máli að nefna, að þetta, sem hann leggur til hafi upphaflega staðið í till. fiskveiðilaganefndarinnar. Þetta er löngu horfið úr tillögugerðinni, eins og hún nú er úr garði gerð.

Ég á brtt. á þskj. 297, sem hæstv. sjútvrh. mælti gegn og með þeim rökum m. a., að það væri óeðlilegt, að samtök útvegsins í landinu, eins og Fiskifélag Íslands, ættu umsagnaraðild um þær veiðiheimildir í fiskveiðilandhelginni, sem heimilt er að veita samkv. 10. gr. frv. Mér finnst það skjóta mjög skökku við, ef það getur kallast óeðlilegt, að Fiskifélag Íslands, allsherjarsamtök útvegsins í landinu, sé umsagnaraðili. Ein rök hans voru þau, að það væri eins og rauður þráður í þessu frv., að við það væri miðað, að einvörðungu væri leitað til umsagnar og meðmæla Hafrannsóknastofnunarinnar. Ég vil benda á, að það er dálítið annars eðlis, sem um er fjallað í 3. gr., 5. gr. og 6. gr. Í 3. gr. er það undantekningartilfelli, þegar hafís lokar venjulegum fiskimiðum. Í 5. gr. er um smáfiskadráp að tefla, í 6. gr. ný friðunarsvæði. Ég get út af fyrir sig fellt mig við það, að þarna sé látið við það sitja að leita umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar, enda þótt ekkert væri óeðlilegt við það út af fyrir sig, að þar kæmi einnig Fiskifélagið til, en á það legg ég enga áherslu. Annars eðlis er 10. gr., sem fjallar um veiðiheimildir til dragnótaveiða, rækjuveiða, humarveiða, síldveiða, loðnuveiða, spærlings- og kolmunaveiða o. s. frv., enda er augljóst, að það er litið öðruvísi á þær veiðiheimildir og hvernig að leyfisveitingu til þeirra skuli staðið, því að í lok 10. gr. er einmitt gert ráð fyrir, að ráðh., ef honum þyki ástæða til, skuli leita umsagnar um þessi atriði til Fiskifélags Íslands. Kemur þar í ljós það, sem ég hef sagt, að þarna er um töluverðan eðlismun að ræða á milli þess, sem segir í 3. gr., 5. gr. og 6. gr., og þess sem 10. gr. fjallar um.

Ég verð að segja það, að mér kemur það töluvert á óvart, að fiskveiðilaganefndin skuli ekki hafa tekið þetta inn í sínar till., sérstaklega vegna þess að mér er fullkunnugt um, að hún gerði ekki mjög mikið með þær till., sem frá Hafrannsóknastofnuninni komu um nýtingu landhelginnar. Það geta þeir upplýst sjálfir, að þetta fiskveiðilagafrv. er með allt öðrum hætti úr garði gert en eftir þeim till., sem Hafrannsóknastofnunin gerði. Þess vegna hefði ég haldið, að þeir hefðu viljað slá einhvern varnagla við algerum einkaáhrifum Hafrannsóknastofnunarinnar í þessu efni.

Ég fæ ekki séð, hvað getur mælt á móti því, að varðandi veiðiheimildirnar í 10. gr. sé einnig leitað umsagnar Fiskifélags Íslands, og ég verð að segja, að þeir, sem mest tala um friðun, — sem ætti vitanlega að kalla verndun, því að við viljum vernda fiskistofnana, en ætlum ekki að friða þá, — mig undrar, ef þeir geta ekki fallist á þessa tillögugerð mína, vegna þess að þarna er myndaður tvöfaldur varnarveggur með því, að Fiskifélagið sé einnig kallað til þessara hluta ásamt með Hafrannsóknastofnuninni. Hér liggur eitthvað allt annað á bak við heldur en augljós og eðlileg rök, ef á að fara að beita sér gegn þessu sérstaklega. Það er í fyllsta máta eðlilegt, að samtök útvegsins í landinu eigi umsagnaraðild um þau atriði, sem 10. gr. fjallar um.