22.01.1974
Sameinað þing: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Bjarni Guðnason hefur borið hér fram nokkrar fsp. utan dagskrár. Ég kemst ekki hjá því að segja það sem mína skoðun, að þessar fsp. hefði mátt bera fram með þinglegum hætti. En hv. 3. landsk, hefur kosið að fá þeim svarað nú, og ég skal þá leitast við að veita honum einhver svör.

Fyrsta fsp. er um það, hvaða till. Bandaríkjamenn hafi komið með í samningaviðræðunum, sem átt hafa sér stað að undanförnu. Um það vil ég segja, að till. Bandaríkjamanna hafa verið afhentar utanrmn: mönnum sem trúnaðarmál, þar eð ekki hefur þótt rétt að birta þær, meðan á samningaviðræðunum stendur. Get ég því ekki gert þær opinberar nú.

Önnur fsp. lýtur að því, hvaða till. íslenska ríkisstj. hyggist leggja fram í framhaldsviðræðunum. Um það vil ég segja, að ríkisstj. hefur nú til meðferðar gagntill. í málinu, en fram að þessu hefur krafa okkar verið sú ein, að herinn fari af landinu í samræmi við málefnasamning ríkisstj. Ég get hins vegar ekki á þessu stigi greint frá því, hvernig till. okkar verða.

Þriðja spurningin er um það, hvort ríkisstj. hyggist standa við ákvæði málefnasamningsins. Um það vil ég segja, að ríkisstj. vill standa við það ákvæði málefnasamningsins um brottför varnarliðsins í áföngum, sem hv. þm. vitnar til.

Í fjórða lagi er spurt um það, hvenær þess megi vænta, að ríkisstj. leggi fyrir Alþ. til samþykktar þær niðurstöður, sem komist verður að í þessu máli. Þær samningaviðræður, sem fram undan eru við Bandaríkjamenn, geta tekið nokkurn tíma, þannig að ég get ekki á þessu stigi sagt til um það, hvenær málið kemur til kasta Alþingis.