23.01.1974
Efri deild: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

173. mál, Hótel- og veitingaskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Frv. á þskj. 276 fjallar um eina einfalda breytingu á l. nr. 6 frá 1971, um Hótel- og veitingaskóla Íslands. Breytingin er á þá leið, að inn í skólanefnd er bætt fulltrúa völdum af nemendum skólans. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur það verið mörkuð stefna a. m. k. á síðari árum, að nemendahópar í skólum skuli annaðhvort eiga aðild að skólanefnd eða skólastjórn, eftir því sem háttar til í hverjum skóla. Ósk kom fram frá Félagi matreiðslu- og framreiðslunema, þeirra nemenda, sem stunda nám í Hótel- og veitingaskólanum, að þeir fái aðild að skólanefndinni. Sjálfsagt þótti að verða við þessari ósk, og því er þetta frv. fram komið. Ég legg til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.