28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Út af ummælum hv. 4, landsk. þm., Svövu Jakobsdóttur, áðan, vil ég segja, að sams konar raddir komu hér fram, ef ég man rétt, þegar till. var til umr. Ég minnist þess, að því var þá svarað á þann hátt, að flm. till. hefðu ekki gert ráð fyrir því, að þingfl. Alþb. óskaði eftir því að eiga fulltrúa í þeirri n., sem fjallaði um þessi mál. En í nál., sem við sjálfstæðismenn gáfum út í sambandi við afgreiðslu þessa máls frá utanrmn., er skýrt tekið fram, að það sé sjálfsagt að breyta till. í þá átt, að fulltrúar Alþb. fengju sæti í þessari n. og fjölluðu um endurskoðun þessara mála, eins og fulltrúar annarra þingflokka. Um leið og ósk barst frá Alþb. um að taka þátt í þessari endurskoðun, lýstum við okkur að sjálfsögðu reiðubúna til að breyta till. í þá átt. (Gripið fram í.) Það var alls ekki gert ráð fyrir, að Alþb. hefði áhuga á því að taka þátt í þessum viðræðum.

Út af því, sem hv. þm. Jónas Árnason sagði hér áðan, skal ég fúslega viðurkenna, að ég misskildi fyrri ræðu hans. Ég hélt, að hann hefði verið að kvarta yfir því, að hans flokksformaður og fulltrúar ríkisstj. hefðu ekki fengið nægan tíma í sjónvarpinu. En það skýrðist betur í síðari ræðu hans. Hann kvartaði yfir því, að þeir hefðu fengið allt of mikinn tíma, að þeir hefðu verið spurðir allt of mikið. Má sjá af þessu, hvern málstað hann telur þessa menn hafa verið að verja, ef hann telur, að þeir hefðu verið of mikið spurðir af þeim þremur spyrjendum, sem um þennan þátt sáu. En þá er einmitt komið að merg málsins. Hvers vegna voru þessir menn spurðir of mikið? Jú, vegna þess að hæstv. utanrrh, fer að skýra frá því fyrir alþjóð, að á borðum ríkisstj. liggi till. frá framsóknarmönnum um ákveðna lausn á varnarmálunum, - till., sem ekki hafði komið neins staðar annars staðar fram. — Var þá ekki eðlilegt, að spyrjendurnir vildu fá að vita, hverjar þessar till. væru, og gjarnan fá að vita, hvort form. Alþb., Ragnar Arnalds, væri þessum till. samþykkur? Mér finnst afar eðlilegt, þegar um er að ræða fréttaþátt, eins og þessi þáttur er, að þá sé reynt að draga fram það fréttnæmt, sem í þeim þáttum kemur. Það var einmitt þetta, sem þarna gerðist, að hæstv. utanrrh. kemur fram með frásögn af þessum ákveðnu till., sem Framsfl. hefur lagt fram í ríkisstj. Einmitt þess vegna er reynt að fá nánari skýringar á þessu, vegna þess að það var ekki nægur tími fyrir fréttaskýrendurna að spyrja hæstv. utanrrh, og form. Alþb., Ragnar Arnalds, sem mér skildist á þessum hv. þm., að hefði talað allt of mikið, eftir því sem síðari ræða hans gaf til kynna.